Rós ‘Lykkefund’ – Rosa ‘Lykkefund’
Klifurrós. Hæð 2 – 3 m eða meir á góðum stað. Laufið stakfjaðrað, gljáandi. Nánast þyrnalaus. Blómin meðalstór, rjómahvít, hálffyllt, ilmandi í klösum. Þvermál blóma 3 – 5 sm. Blómin eru ljósbleik í knúpp. Gulir fræflar. Blómstrar hérlendis aðallega í ágúst og fram í september. Getur þó byrjað að blómstra í júlí í góðu árferði.
Þarf gott skjól og sólríkan stað helst upp við húsvegg til að þrífast. Gróðursetjið ‘Lykkefund’ við klifurgrind eða styðjið hana á annan hátt. ‘Lykkefund’ er seld ágrædd. Gróðursetjið djúpt þannig að ágræðslan fari 10 sm undir jarðvegsyfirborðið. Það er mjög mikilvægt til að tryggja að rósin lifi af veturinn. Gróðursetjið í frjóan, vel framræstan jarðveg blandaðan sandi og lífrænu efni (búfjáráburður/molta). Berið tilbúinn áburð í kringum rósina í lok maí og lok júní. Gott er að setja lag af moltu í rósabeðið annað hvert ár. Klippið í burt kalnar greinar á vorin eða snemma sumars. Greinar sem ekki standa undir sér eru festar á klifurgrind, bundnar upp á prik eða klipptar burt.
Danskt yrki frá Aksel Olsen frá árinu 1930. Sögð vaxin upp af fræi af helenurós (R. helenae) sem ættuð er frá Kína en frjóvguð af „bourbon“ rósinni, R. ‘Charles Bonnet’/’Zephirine Drouhin’. Rósaætt (Rosaceae).