Runnamura ‘Stella’ – Dasiphora fruticosa ‘Stella’
Harðgerður, þéttur, fíngreinóttur runni. Hæð: 1 – 1,5 m. Laufblöð fremur smá, græn – blágræn, hærð, stakfjöðruð eða fingruð. Blómin gul 2 – 3 sm í þvermál með fimm krónublöðum. Blómin eru ljósari og ögn smærri en á runnumuru ‘Goldfinger’ en dekkri samanborið við runnamuru ‘Månelys’. Sólelsk en þolir hálfskugga. ‘Stella’ er íslenskt úrval. Blómgast í júlí og fram í september. Stundum byrjar hún jafnvel í lok júní. Byrjar fyrr að blómgast á sumrin samanborið við ‘Goldfinger’. Runnamura ‘Stella’ þrífst vel í öllum venjulegum, sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar í lág limgerði, þyrpingar, ker og potta. Millibil um 70 – 80 sm. Runnamura er breytileg tegund sem vex villt á kald-tempruðum svæðum á norðurhveli jarðar. Í náttúrunni vex hún gjarnan í deiglendi og grýttum svæðum.