Síberíuþyrnir – Crataegus sanguinea
All harðgert fremur lágvaxið tré eða jafnvel runni Hæð (4 – 7 m). Sprotar þyrnóttir. Blómin hvít í sveip, lykta. Þroskar dökkrauð, æt ber í smáum klösum á haustin. Áberandi rauðir haustlitir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Síberíuþyrnir sómir sér vel stakstæður, í bland með öðrum gróðri, í röðum og þyrpingum með um 2,5 m millibili. Einn harðgerðasti þyrnirinn (Crataegus spp.) sem völ er á. Síberíuþyrnirinn okkar er allur ræktaður upp af íslensku fræi. Heimkynni: Síbería, Mongólía og N-Kína.
Vörunr. ff40e0645b60
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia). Á það til að sá sér talsvert út.
Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan hérlendis. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Millibil ekki minna en 2 m. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan mikið eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af innlandskvæmum gerir gjarnan.
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkur frjór. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, rúmir 25 m (2019). Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi.
Risalífviður – Thuja plicata – Jökullækur, Hallormsstað
Sígrænt, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 10 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Þarf skjól í uppvextinum. Þolir nokkurn skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd.Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk.
Rúbínreynir – Sorbus bissetii
Stór runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið stakfjaðrað, dökkgrænt og gljáandi. Rauðir haustlitir. Blómin hvít í sveip í júní. Berin vínrauð í ágúst en síðan bleik er líður að hausti. Virðist nokkuð harðgerður. Sérlega fallegt garðtré. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis en lofar almennt góðu. Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Millibil alla vega 2 m. Heimkynni: Kína (Sichuan).
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa – íslensk kvæmi
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.