Síberíuþyrnir – Crataegus sanguinea
All harðgert fremur lágvaxið tré eða jafnvel runni Hæð (4 – 7 m). Sprotar þyrnóttir. Blómin hvít í sveip, lykta. Þroskar dökkrauð, æt ber í smáum klösum á haustin. Áberandi rauðir haustlitir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Síberíuþyrnir sómir sér vel stakstæður, í bland með öðrum gróðri, í röðum og þyrpingum með um 2,5 m millibili. Einn harðgerðasti þyrnirinn (Crataegus spp.) sem völ er á. Síberíuþyrnirinn okkar er allur ræktaður upp af íslensku fræi. Heimkynni: Síbería, Mongólía og N-Kína.
Vörunr.
ff40e0645b60
Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hengigullregn ‘Pendula’ – Laburnum alpinum ‘Pendula’
Ágrætt, lágvaxið skrautré. Hæð um 2 m. Gulir blómklasar miðsumars. Greinum fjölgar með tímanum sem allar vaxa niður á við og niður á jörð. Gjarnan eru greinar snyrtar þegar þær eru komnar niður að jörð. Klippið einungis að sumri til. Ef greinar vaxa upp eða út frá stofni neðan við ágræðsluna sem er efst þarf að klippa þær í burt annars er hætt við að þær taki yfir og hengiútlitið hverfi. Eins og annað gullregn er hengigullregn eitrað sé þess neytt.
Sólelskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en hentar ekki í blautan jarðveg. Niturbindandi. Vissara er að binda upp hengigullregn eftir gróðursetningu. Eftir eitt til tvö ár má fjarlægja uppbindinguna. Annars er hengigullregn fremur harðgert en vissara er að velja því þokkalega skjólgóðan vaxtarstað. Hengigullregn fer vel stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker.
Yrki þetta er upprunið í Englandi. Ertublómaætt (Fabaceae).
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir.
Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).
Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea
Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Fjallareynir – Sorbus commixta
Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, hraðvaxta, einstofna, meðalstór - stórvaxið tré (10 m). Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Laufin eru egglaga, 7 - 15 sm á lengd, sagtennt og langydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Haustlitur brúnn eða frýs grænn. Rauðleitir karlreklar vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Kvenreklar brúnir fullþroska. Minna á litla köngla. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Sólelskt en gerir litlar kröfur til jarðvegs. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Nýlegur í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu.
Risalífviður – Thuja plicata
Sígrænt, keilulaga, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 12 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Grænt að ofan en ljósara að neðanverðu. Ilmurinn minnir á ananas. Börkur rauðbrúnn. Þarf gott skjól í uppvextinum. Þolir talsverðan skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður getur í heimkynnum sínum orðið mjög stórvaxinn og langlífur.
Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Þolir vel klippingu og er m.a. notaður í klippt limgerði erlendis. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk. Þau tré eru af kvæminu, Kamloops, Bresku Kólumbíu, Kanada. Þykir gott timburtré en viður risalífviðar hefur náttúrulega fúavörn og er ilmandi. Heimkynni: Norðvestanverð N-Ameríka. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’
Harðgert, ágrætt, sumargrænt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m yfirleitt en það fer eftir hæð ágræðslunnar. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta. Hengibaunatré er ágrætt efst á stofn af venjulegu baunatré sem vaxið er upp af fræi. Fjarlægið því rótarskot, stofnskot og sprota upp eftir stofninum að ágræðslunni um leið og þeir myndast annars munu þeir yfirtaka hangandi hlutann.