Silfurblað – Elaeagnus commutata
Harðgerður, lágvaxinn runni (um 1 m). Laufið silfrað. Blóm smá, gul og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið silfrað, mjölkennt ber. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur á rótarkerfinu. Lifir því vel í rýrum jarðvegi, sérstaklega í sandi og möl. Sólelskt. Dreifir sér með rótarskotum. Silfurblað er ekki þyrnótt eins og hafþyrnir (Hippophae rhamnoides) sem er af sömu ætt. Hentar á opnum svæðum, meðfram götum, í jöðrum þar sem er rýr jarðvegur og þess háttar. Millibil um 70 – 90 sm.
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Ilmkóróna ‘Mont Blanc’ – Philadelphus x lemoinei ‘Mont Blanc’
Fremur harðgerður, meðalstór, þéttur runni. Blómin snjóhvít, stjörnulaga og ilma sérlega vel. Blómgast síðsumars (ágúst). Sprotar rauðbrúnir. Greinar verða síðan ljósgrábrúnar. Þolir hálfskugga. Ilmkóróna sómir sér vel stakstæð en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Algengasta kórónan (Philadelphus sp.) hérlendis.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi. Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik! Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.