Silfurblað – Elaeagnus commutata
Harðgerður, lágvaxinn, lauffellandi, heilbrigður runni um 1 m á hæð. Getur orðið hávaxnara á skjólgóðum stöðum. Laufið silfrað, breiðlensulaga, 2 – 7 sm á lengd. Laufgast í maí og fellir laufið í október. Haustlitir gráir eða daufgulir, ekki áberandi. Blóm smá, gul og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið silfrað, mjölkennt ber (steinaldin), 9 – 12 mm á lengd. Ætt og sagt hollt en ekki lystugt. Erfitt er að koma auga á aldinin þar sem þau eru samlit laufinu.
Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) á rótarkerfinu. Lifir því vel í rýrum jarðvegi, sérstaklega í sandi og möl. Sólelskt. Vind- og saltþolið. Dreifir sér með rótarskotum. Rótarskotin eru þó sjaldnast til vandræða. Silfurblað er ekki þyrnótt eins og hafþyrnir (Hippophae rhamnoides) sem er af sömu ætt. Hentar á opnum svæðum, meðfram götum og bílastæðum, í jöðrum þar sem er rýr jarðvegur og þess háttar. Millibil um 70 – 90 sm.
Heimkynni: Alaska, Kanada og norðanverð Bandaríkin. Megnið ef ekki allt silfurblað hérlendis er ættað frá Alaska. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae).