Silfurreynir – Sorbus intermedia
Harðgert, meðalhátt, krónumikið tré. Hæð: 10 – 14 m á bestu stöðum. Laufið gljáandi að ofan, gráloðið að neðanverðu. Laufgast í júníbyrjun. Blómgast seinna á sumrin samanborið við ilmreyni (S. aucuparia). Blómin hvít – kremuð í sveip í júní. Rauðbrún ber þroskast að hausti. Berin eru þó yfirleitt ekki í miklu magni og sum árin alls ekki. All vind- og saltþolinn. Silfurreynir er glæsilegur sem stakstætt tré eða fleiri saman í röðum og þyrpingum með alla vega 3 – 4 m millibili. Hann þarf frjóan og framræstan jarðveg til að ná góðum þroska. Silfurreynir er nokkuð algengur í gömlum görðum í Reykjavík (Kvosinni og víðar) og Hafnarfirði. Alpareynir (S. mougeotii) og týrólareynir (Sorbus austriaca) sem líkjast mjög silfurreyni eru algengari en silfurreynir í görðum frá u.þ.b. árinu 1980 og þaðan af yngri. Hæringin á neðra borði blaða silfurreynis er ekki eins hvít/silfruð samanborið við alpa- og týrólareyni. Silfurreynir er að því er virðist ónæmur fyrir reyniátu (Valsaria insitiva) sem er mikið vandamál í ilmreyni. Silfurreynir verður því eldra tré samanborið við ilmreyni. Við framleiðum silfurreyni af innlendu fræi en silfurreynir er ásamt mörgum öðrum reynitegundum geldæxlandi (apomixis) það er að segja fræekta þar sem fræið myndast ekki að undangenginni kynæxlun. Elsta tré Reykjavíkur og líklega elsta tré landsins er silfurreynir í Fógetagarðinum við Miðbæjarmarkaðinn, Aðalstræti, Rvk. Hann er gróðursettur af Schierbeck landlækni seint á 19. öld (1884). Silfurreynir er talinn tilkominn sem bastarður ilmreynis, flipareynis (S. torminalis) og seljureynis (S. aria). Heimkynni: S-Svíþjóð, Borgundarhólmur, SV-Finnland, Eistland, Lettland og N-Pólland.