Sitkaelri / Sitkaölur – A. viridis ssp. sinuata
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (2 – 5 m). Laufið all stórt, sagtennt, gljáandi og bylgjað. Langir, hangandi karlreklar áberandi á vorin rétt fyrir laufgun í maí. Kvenreklarnir sitja nokkrir saman. Þeir minna á smágerða köngla og endast fram á vetur í greinunum. Henta til skreytinga. Sitkaelri lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og getur þar af leiðandi vaxið vel í ófrjóum jarðvegi. Vindþolið og fremur saltþolið einnig. Plássfrekt. Þolir klippingu/snyrtingu en ekki stýfingu. Hentar stakstætt, í raðir og þyrpingar. Einnig til uppgræðslu á melum, söndum og skriðum. Forðist að planta sitkaelri í lægðir í landslaginu þar sem hætt er við því að kalt loft safnist fyrir. Á þannig stöðum hættir sitkaelri við vorkali. Sáir sér út þar sem aðstæður leyfa. Millibil að lágmarki 1 m. Allt sitkaelrið okkar er ræktað upp af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Íslenski stofninn er líklega allur frá Alaska.