Sitkagreni – Picea sitchensis
Mjög harðgert, stórvaxið, langlíft, sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkuð frjór. Nálar dökkgrænar að ofanverðu en ljós-bláleitar að neðanverðu. Mjög stingandi. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Þroskar köngla á nokkurra ára fresti eftir að 30 – 40 ára aldri er náð. Sum tré mynda þó köngla fyrr á æviskeiðinu. Börkur er fremur þunnur og er því sitkagreni ekki sérlega eldþolið tré. Viðurinn er léttur og hlutfallslega sterkur. Hann er m.a. notaður í hljóðfæri, flugvélar og báta. Útsprungin brum ná nota í greni-bjór og sýróp. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum. Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Stundum nýtt sem jólatré enda ágætlega barrheldið. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, um 30 m á hæð (2022). Millibil við gróðursetningu að lágmarki 3 m. Stundum 2 m í skógrækt. Til frambúðar að lágmarki 4 – 5 m. Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Vex yfirleitt ekki langt frá ströndinni í heimkynnum sínum.