Sitkavíðir / „Ólavíðir“ – Salix sitchensis
Harðgerður stórvaxinn runni/lágvaxið tré. Laufin breiðust framan við miðju. Silfurhærð á neðra borði. Brum útstæð. Er með fremur smá axlarblöð. Vindþolinn. Sólelskur. Minnir á viðju (Salix myrsinifolia) í útliti en heilbrigðari og almennt laus við asparglittu. Þrífst vel í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Sitkavíðir hentar í limgerði og skjólbelti 2 – 3 plöntur/m. Erum með yrkið ‘Óli’ sem almennt gengur undir nafninu „Ólavíðir“. Yrkið er kennt við Óla Val Hansson (1922 – 2015) garðyrkjuráðanaut. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu og austur til Montana.
Vöruflokkar: Plöntur í limgerði/hekk, Skógarplöntu-bakkar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.
Gráelri / Gráölur – Alnus incana
Harðgert, hraðvaxta, sumargrænt, venjulega einstofna tré. Hæð 7 - 15 m. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum hérlendis. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Börkur grár og sléttur. Brum stilkuð. Laufið egglaga, mattgrænt og tennt. Nýtt lauf á vorin og fyrri part sumars gjarnan rauðbrúnleitt. Haustlitir ekki áberandi en laufið verður gjarnan brúnleitt áður en það fellur.
Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift að lifa og vaxa í ófrjóum jarðvegi. Þolir að vaxa í deiglendi. Sólelskt. Vindþolið en ekki talið sérlega saltþolið. Karlreklar birtast strax á haustin og vaxa fram síðvetrar eða snemma vors. Drjúpandi, 5 - 7 sm, gulbrúnir. Kvenreklar eru fullþroska að hausti. Líkjast litlum könglum. Dökkbrúnir. Stundum ber talsvert á rótarskotum hjá gráelri.
Hentar stakstætt, í raðir, þyrpingar og til skógræktar og uppgræðslu. Einnig stundum gróðursett sem götutré hérlendis. Millibil að minnsta kosti 3 m. Gráelrið okkar er mest megnis ættað frá Hallormsstað og Egilsstöðum. Heimkynni gráelris (A. incana subsp. incana) er Evrópa og NV-Asía. Elrivendill (Taphrina alni) er gjarnan áberandi á kvenreklum gráelris. Bjarkarætt (Betulaceae).
Rjúpuvíðir ‘Þórhalla’ – Salix glauca ‘Þórhalla’
Mjög harðgerður, meðalstór runni. Hæð um 1 - 1,3 m. Lauf og sprotar gráloðin. Gulir haustlitir. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Minnir á loðvíði (S. lanata) en laufið á rjúpuvíði er að jafnaði smærra. Engin axlarblöð eru á rjúpuvíði eins og eru á loðvíði. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' sómir sér vel í blönduðum beðum með öðrum gróðri en einnig í röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Þolir vel klippingu. Yrkið er kennt við Þórhall Jónsson kaupmann en hann var m.a. mikilvirkur í Dalíuklúbbnum. Rjúpuvíðir 'Þórhalla' mun upphaflega hafa komið hingað til lands frá Grænlandi en þar vex rjúpuvíðir villtur. Auk Grænlands er rjúpuvíðir villtur víða í N-Ameríku, N-Evrópu og í N-Asíu. Mjög breytileg tegund.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Ryðelri / Ryðölur – Alnus rubra
Harðgert, sumargrænt, hraðvaxta, einstofna, meðalstórt - stórvaxið tré. Getur væntanlega náð allt að 20 m hæð á góðum stöðum hérlendis. Lágvaxnara og runnkendara við erfið skilyrði. Börkur grár með ljósum þverrákum. Gjarnan ber á uppblásnum trjákvoðu-bólum á berki. Íslenska heitið og fræðiheitið rubra vísa til þess að sé skorið í börkinn verður sárið áberandi ryðrautt.
Brum stilkuð. Laufblöðin eru egglaga - oddbaugótt, 7 - 15 sm á lengd, 4,5 - 7,5 sm á breidd, tvísagtennt með grunna sepa og ydd. Blaðjaðarinn verpist aðeins niður á við og er þetta helsta greiningareinkenni ryðelris frá öðrum tegundum elris. Lauf ljósari að neðan og stundum með ryðrauðum hárum á æðastrengjum. Ung lauf gjarnan rauðmenguð. Blaðstilkur allt að 2 sm langur. Haustlitur brúnn eða frýs grænt. Rauðleitir karlreklar, 10 - 15 sm langir, vaxa fram snemma vors (mars / apríl). Verða gulbrúnleitir þegar frjóhirslunar opnast. Kvenreklar eru nokkrir saman, brúnir, sporöskjulaga og 2 - 3 sm á lengd fullþroska. Minna á litla köngla. Fræið hefur tvo himnukennda vængi.
Ryðelri gerir litlar kröfur til jarðvegs. Þrífst best í rakaheldnum jarðvegi. Talið henta til gróðursetningar í vatnsrásir og þess háttar svæði sem eru aðeins tímabundið undir vatni. Vex eins og annað elri í sambýli við niturbindandi Frankia bakteríur. Rótarskot engin eða lítið áberandi. Ryðelri hentar stakstætt, í raðir / þyrpingar með að minnsta kosti 3 m millibili. Hentar einnig til skógræktar. Fremur nýlegt í ræktun en lofar mjög góðu. Hugsanlega hentugt sem götutré. Ryðölurinn okkar er allur vaxinn upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis.
Erlendis er timbrið nýtt í húsgögn, hljóðfæri og fleira. Viðurinn þykir sérlega góður til að reykja fisk og kjöt.
Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska suður til Kaliforníu. Bjarkarætt (Betulaceae).
Gljávíðir – Salix pentandra
Harðgerður runni eða tré. Hæð 3 - 7 m. Laufblöð sporöskjulaga, gljáandi, fíntennt, ljósgræn, 5 - 12 sm á lengd og 2 - 5 sm á breidd. Laufgast í júníbyrjun. Gulir haustlitir eða frýs grænn. Reklar myndast samhliða laufgun. Sérbýll. Við framleiðum og seljum nú yrki sem er kvk og myndar rekla og þroskar fræ með áberandi hvítri fræull á haustin sem er óvanalegt fyrir víði þar sem aðrar víðitegundir hérlendis þroska fræ fyrir eða um mitt sumar (júní - júlí).
Þetta yrki virðist laust við gljávíðiryð sem hefur leikið gljávíði illa síðastliðna þrjá áratugi en fram að því var gljávíðir 'Schierbeck' með allra vinsælustu runnum í limgerði hér á landi. Eftir að gljávíðiryðið breiddist út var framleiðslu á gljávíði hætt og flestum gljávíðilimgerðum skipt út fyrir eitthvað annað.
Gljávíðir er eins og annar víðir sólelskur og þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Í limgerði mælum við með 3 stk/m. Hentar einnig í þyrpingar með 1 - 1,5 m millibili. Gljávíðir hentar ekki á mjög vindasömum stöðum t.d. úti við ströndina. Þar henta jörfa- og alaskavíðir betur. Það var Jóhann Pálsson grasafræðingur og fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með gljávíði þennan til landsins. Heimkynni gljávíðis eru N-Evrópa ekki þó Ísland og N-Asía. Í heimkynnum sínum vex gljávíðir aðallega í deigum og jafnvel blautum jarðvegi. Víðisætt (Salicaceae).
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Rifs ‘Jonkheer van Tets’ – Ribes rubrum ‘Jonkheer van Tets’
Harðgerður berjarunni. Hæð: 1,0 - 1,5 m. Millibil: 80 - 100 sm. Uppskerumikið yrki. Ber þroskast í ágúst - byrjun september. Ber fremur sæt. Vinsæl í hlaup og þess háttar. Þolir vel hálfskugga en uppskerumest í fullri sól. Þrífst best í frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Venjulega plantað í raðir ásamt öðrum berjarunnum eða eitt og sér. Hollenskt yrki.