Skrautreynir – Sorbus decora
Lítið – meðalstórt, fremur harðgert tré. Stundum runni. Hæð: 4 – 10 m. Brum eru dökkrauðbrún og klístruð. Ekki gráloðin eins og brum ilmreynis/reyniviðar (S. aucuparia). Laufblöð stór, stakfjöðruð. Rauðir og gulir haustlitir. Hvítir blómsveipir í júní. Rauðir, stórir berjaklasar í september. Fuglar sækja í berin. Þolir hálfskugga. Í meðallagi vindþolinn.
Þrífst best í þokkalega frjóum, meðalrökum jarðvegi. Millibil að minnsta kosti 3 m. Fallegt og hæfilega stórt garðtré. Notkun skrautreynis hefur aukist mikið síðastliðna tvo áratugi. Virðist ekki eins næmur fyrir reyniátu (Valsaria insitiva) samanborið við reynivið.
Skrautreynir myndar fræ með geldæxlun og er því einsleitur samanborið við ilmreyni. Heimkynni: Norðaustanverð N-Ameríka, aðallega í A-Kanada. Á Grænlandi vex náskyld tegund (S. groenlandica) sem stundum er talin vera undirtegund skrautreynis. Rósaætt (Rosaceae).