Skriðbláeinir / Himalajaeinir ‘Blue Carpet’ – Juniperus squamata ‘Blue Carpet’
Harðgerður, sígrænn, þéttur, jarðlægur runni. Barrið ljós-blágrænt. Sólelskur. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem má gjarnan vera blönduð sandi og/eða möl. Hentar sérlega vel í hleðslur, steinhæðir, ker og kanta. Forðist bleytu. Millibil 80 – 100 sm. Breiðir talsvert úr sér með tímanum. Þolir vel klippingu. Talsvert algengur í görðum hérlendis og reynist almennt vel. ‘Blue Carpet’ mun vera stökkbreyting fundin á himalajaeini ‘Meyeri’.
Vörunr.
f742133ebb57
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Blóðbeyki – Fagus sylvatica ‘Purpurea’
Sæmilega harðgert, þétt, fremur hægvaxta tré. Hæstu blóðbeyki hérlendis eru hátt í 9 m há. Getur sjálfsagt náð 12 m á hæð eða meir á bestu stöðum. Laufin áberandi purpurarauð/vínrauð. Dökkgræn/blágræn í skugga. Laufgast um mánaðarmótin maí/júní. Laufin sitja visin, ljósbrún á greinum yngri trjáa og á neðstu greinum á eldri trjám allan veturinn. Sólelskt. Almennt heilbrigt.
Blóðbeyki þarf sæmilega djúpan, frjóan og vel framræstan jarðveg. Hentar aðeins til ræktunar í sæmilega grónum hverfum og í skógarskjóla ekki of langt inn til landsins. Aðallega gróðursett stakstætt. Millibil 3 m eða meir. Blóðbeyki er stökkbreyting af venjulegu beyki (F. sylvatica) sem hefur óvenju mikið af "anthocyanin" litarefni. Blóðbeyki er fyrst talið hafa fundist í skógi við bæinn Sondershausen í Thuringia í Þýskalandi árið 1690. Talið er að stærstur hluti blóðbeykitrjáa í dag reki uppruna sinn til þessa trés. Beykiætt (Fagaceae).
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Kínareynir ‘Bjartur’ – Sorbus vilmorinii ‘Bjartur’
Lítið tré eða stór runni (3 - 5 m). Virðist harðgerður. Vaxinn upp af fræi sem Ólafur Njálsson í Nátthaga, Ölfusi safnaði af reynirunna í N-Wales haustið 1989. 'Bjartur' var valinn til áframhaldandi ræktunar af þeim 5 plöntum sem komu upp. Virðist fræekta (apomixis). Hvítir blómsveipir birtast snemmsumars. Bleik ber þroskast á haustin. Rauðir haustlitir. Berin hanga á trjánum fram á vetur þar sem fuglar eru ekki sólgnir í þau. Þolir hálfskugga. Óvíst er hvort að um ekta kínareyni sé að ræða. 'Bjartur' hentar sem garðtré í t.d. litla garða. Þrífst í venjulegri, vel framræstri garðmold sem gjarnan má vera sand- og/eða malarborin.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.