Skriðeinir ‘Limeglow’ – Juniperus horizontalis ‘Limeglow’
Lágvaxinn, útbreiddur runni. Gulleitt til bronslitað barr. Sólelskur. Þarf skjól. Hentar í ker, blönduð beð með sígrænum gróðri, hleðslur og steinhæðir. Takmörkuð reynsla en þrífst vel í trjásafninu Meltungu, Kóp.
Vörunr. b5177012b8dd
Vöruflokkur: Sígrænir runnar og sígræn smátré
Tengdar plöntur
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis – íslensk kvæmi
Lágvaxið, sígrænt tré. Toppurinn áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Fremur gisgreinóttur. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Harðgerðasti sýprusinn. Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Hentar í skjólgóða garða, yndisskóga, ker og þess háttar.
Hélubroddur ‘Jytte’ – Berberis candidula ‘Jytte’
All harðgerður, þéttur, sígrænn, lágvaxinn runni (50 - 100 sm). Greinar mikið þyrnóttar. Laufið dökkgrænt og gljándi á efra borði. Laufið er aftur á móti "hvíthélað" að neðan. Gjarnan ber á roða í laufinu yfir vetrarmánuðina. Blómin gul, smá, ilmandi fyrri part sumars. Aldinið svarblátt ber. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalegt skjól. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og jafnvel í ker.
Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj
Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.