Postulínsblóm / Skuggasteinbrjótur – Saxifraga x urbium
Harðgerð, lágvaxin fjölær jurt. Hæð 15 – 30 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum sem smám saman bætist við. Blöðin leðurkennd, hálfsígræn, stilkuð, spaðalaga eða öfugegglaga og bogtennt. Blómin smá, stjörnulaga, fölbleik, mörg saman í uppréttum, gisnum klösum. Blómstilkar rauðleitir.
Postulínsblóm er skuggþolið. Hentar í hleðslur, steinhæðir og ker. Prýðis þekju- og kantplanta. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Þarf ekki djúpan jarðveg. Vinsælt og algengt í görðum hérlendis.
Yrkið ‘Aureopunctata’ hefur gulflekkótt laufblöð. Eigum það gjarnan til og er það ekki síður harðgert.
Postulínsblóm er talið vera garðablendingur á milli hins eiginlega skuggasteinbrjóts (Saxifraga umbrosa) og spaðasteinbrjóts (S. spathularis). Steinbrjótsætt (Saxifragaceae).