Snækollur – Anaphalis margaritacea
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 40 – 80 sm. Gráloðið lauf. Blómin smá, gulleit í sveip, umlukin fjölda hvítra, pappírkenndra háblaða. Blómstrar síðsumars og jafnvel fram á haust. Blóm henta til þurrkunar í skreytingar. Þrífst best á sólríkum í vel framræstum jarðvegi. Hentar í blönduð beð.
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Höfuðklukka – Campanula glomerata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.
Valurt – Symphytum officinale
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.
Forlagabrúska ‘Hyacinthina’- Hosta fortunei ‘Hyacinthina’
Harðgerð, fjölær jurt. Stór, heilrennd, egglaga lauf. Gulir haustlitir. Ljóslilla blómklasar síðsumars. Hæð um 40 sm en blómklasar vaxa hærra upp. Skuggþolin. Breiðist rólega út. Þarf frjóa og jafnraka mold. Ein allra harðgerðasta brúskan. Talsvert þekjandi. Hentar sem undirgróður undir trjám, í skuggsæl horn og í blönduð blóma- og runnabeð. Millibil um 70 - 80 sm. Lauf og blaðstilkar á brúskum eru notuð í austurlenskri matargerð. Brúskur koma ekki upp úr jörðinni fyrr en í maílok eða í byrjun júní. Síðan vaxa þær hratt upp.
Skessujurt – Levisticum officinale
Harðgerð, hávaxin, fjölær jurt. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufblöð þrífjöðruð. Skessujurt hefur lengið verið nýtt sem mat- og lækningajurt. Blómin eru gulgræn í sveip í júlí - ágúst. Þrífst best í rakaheldnum, frjósömum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Náttúruleg heimkynni eru ekki nákvæmlega þekkt. Skessujurt vex í dag víða villt í Evrópu og Asíu. Ilmur og bragð minna á sellerí og steinselju en skessujurt er bragðmeiri. Blöð og unga stöngla má nota í salat og súpur. Einnig má nýta rótina sem grænmeti. Fræ skessujurtar má nota sem krydd. Bragðið heldur sér vel við þurrkun. Skessujurt er góð í kryddsmjör og með bökuðum kartöflum. Skessujurt gengur stundum undir nafninu "maggijurt" samanber "maggiurt" á dönsku og "Maggikraut" á þýsku þar sem bragð minnir á frægar pakkasúpur og súputeninga. Skessujurt hentar til gróðursetningar aftarlega í beð, í skógarjaðra eða í horn til uppfyllingar t.d. í hálfskugga. Frekar nytjajurt en skrautjurt.
Friggjarlykill – Primula florindae
Harðgerð fjölær jurt. Hæð 50 - 80 sm. Blómin oftast gul, drjúpandi, mörg saman á stönglum sem vaxa upp fyrir blaðhvirfinguna. Blómin ilma. Vex best í rökum, frjósömum jarðvegi. Heimkynni SA-Tíbet. Barst fyrst til V-Evrópu árið 1924 með breska grasafræðingnum Frank Kingdon-Ward sem nefndi jurtina í höfuðið á eiginkonu sinni Florinda.
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.