Sólber ‘Storklas’ – Ribes nigrum ‘Storklas’
Harðgerður berjarunni. Hæð: 150 sm. Nokkuð uppréttur vöxtur. Stór ber með þykku skinni. Ber henta því vel til frystingar. Seinþroska. Reynist vel á höfuðborgarsvæðinu. Sænskt yrki. Gróðursetjið með um 1 m millibili í frjóan og rakaheldin jarðveg. Setjið moltu eða veðraðan búfjáráburð yfir moldina snemma vors árlega. Sænskt yrki.
Vörunr.
03b1a115d312
Vöruflokkur: Ávaxtatré og berjarunnar
Tengdar plöntur
Hesli – Corylus avellana – kvæmi: frönsku Alparnir
Sumargrænn runni. Óvíst er hversu hávaxið hesli getur orðið hérlendis en nú þegar eru til um 2 m háir runnar á höfuðborgarsvæðinu og ef til vill víðar. Hesli blómgast snemma vors. Blómin minn á rekla birkis (Betula spp.) og elris (Alnus spp.) enda er hesli af bjarkætt (Betulaceae). Hesli er tvíkynja en vissara er að hafa fleiri runna saman til að tryggja frævun og síðan frjóvgun. Óvíst er hvort heslihnetur nái að þroskast hérlendis þó það sé ekki ósennilegt í góðu árferði á hlýjum stöðum. Hesli þrífst best í rakaheldnum og steinefnaríkum jarðvegi. Þolir hálfskugga.
Hrútaber / Hrútaberjaklungur – Rubus saxatilis
Harðgerð, lágvaxin, íslensk jurt. Hæð um 10 - 20 sm. Hrútaberjaklungur er skuggþolið. Lauf þrífingruð. Rauðir haustlitir. Blóm fimmdeild, hvít á lit. Berin (steinaldin) eru rauð í klösum og má nýta í sultur (hrútaberjahlaup) og fleira. Hrútaber fjölga sér kynlaust með löngum renglum sem mynda smáplöntur sem skjóta rótum. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri mold. Prýðis þekjuplanta t.d. undir trjám og runnum. Hentar einnig í brekkur og skriður. Í skugga þroskast minna eða ekkert af berjum.
Eplatré ‘Transparente Blanche’ – Malus ‘Transparente Blanche’
Ólíkt flestum öðrum eplayrkjum er 'Transparente Blanche' sjálffrjótt. Þó gefur betri raun að planta epli af öðru yrki í grennd til að tryggja betri frjóvgun og aldinmyndun. Góðar frjósortir eru: 'Discovery'/ 'Katja'/ 'Sävstaholm'. Þrífst aðeins í skjóli og sól. Blandið nóg af lífrænu efni í holuna við gróðursetningu (molta, húsdýraáburður). Ágræðslun á að vera ofanjarðar að gróðursetningu lokinni. Setjið stoðir við tréið að gróðursetningu lokinni. Berið tilbúinn áburð í kringum tréið á hverju vori. Vökvið í þurrkatíð. Fullþroska epli eru ljós-gulgræn og bragðgóð og henta til átu beint af trénu en geymast ekki lengi. Stundum kallað 'Hvítt Glærepli'. Yrkið hefur gefið góða og mikla uppskeru hérlendis í góðu árferði.
Roðakirsi – Prunus pensylvanicum
All harðgert, lágvaxið, einstofna eða margstofna tré eða runni. Hæð 3 - 7 m hérlendis. Blómin hvít í sveip. Aldinið rautt, lítið steinaldin/kirsiber, ætt. Rauðgulir - rauðir haustlitir. Börkur fallega gulbrúnn. Roðakirsi þrífst best á sólríkum stað í frjóum, vel framræstum jarðvegi. Hentar stakstætt eða fleiri saman í þyrpingum með 2,5 millibili hið minnsta. Fremur sjaldgæft hérlendis.
Bersarunni – Viburnum edule
Harðgerður, meðalhár, sumargrænn runni (1,5 - 2,5 m). Laufin sitja gagnstætt á greinunum og eru gjarnan þrí-sepótt. Óreglulega tennt. Brum áberandi rauð. Rauðir og bleikir haustlitir. Blómin hvít - bleik í litlum sveipum. Rauðgul, æt ber (steinaldin) þroskast að hausti. Hægvaxta eða í meðallagi hraðvaxta.
Skuggþolinn en fallegastir haustlitir og mest berjauppskera í fullri sól. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Bersarunni fer vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum. Millibil um 80 sm. Berin má nýta í sultur og þess háttar. Þau eru sögð rík af andoxunarefnum. Okkar bersarunnar eru allir vaxnir upp af fræi sem tínt er hérlendis. Íslenski efniviðurinn af bersarunna er trúlega allur frá Alaska. Heimkynni: Norðanverð N-Ameríka. Desjurtaætt (Adoxaceae).
Hindber – Rubus idaeus
Skriðull hálfrunni. Hæð 1 - 2 m. Greinar ná tveggja ára aldri. Fyrra árið vex grein upp frá jörðu í fulla hæð. Seinna árið blómgast hún og þroskar ber. Síðan er hún dauð. Klippið í burt dauðar greinar. Gróðursetjið í afmarkað rými til að forðast rótarskot um alla lóð. Tilvalið er að setja niður þil svona 40 sm niður í jarðveginn til að forðast dreifingu rótarskota. Einnig má rækta hindber í ílátum en þau þurfa frjóan og rakaheldinn jarðveg til að þroska ber. Setjið staðið hrossatað eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Villihindber henta til gróðursetningar í lúpínubreiður og skógarrjóður. Berin á villihindberjum eru smá en bragðgóð. Þau skríða mest út. Úrvalsyrki eins og 'Borgund' hafa stærri ber og skríða ekki eins mikið út. Hindberjarunnar þola hálfskugga en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Yrki með stærri berjum henta betur til ræktunar í heimilisgörðum samanborið við villihindber.
Rauðberjalyng / Týtuber ‘Koralle’ – Vaccinium vitis-idaea ‘Koralle’
All harðgerður, lágvaxinn (15 - 20 sm), sígrænn dvergrunni. Blöðin smá, heilrennd. Fölbleikir sætukoppar birtast snemmsumars. Meðalstór, rauð, súrsæt, aðeins bitur, æt ber þroskast að hausti. Sólelskt en þolir hálfskugga. Berjaþroski verður þó mestur í fullri sól. Þrífst best í lítið eitt súrum, rakaheldnum jarðvegi. Dreifir sér með rótarskotum. Myndar breiður. Forðist að rækta með mjög ágengum tegundum. Rauðberjalyng hentar til að klæða beð. Berin eru notuð í sultur og þess háttar. Kallast "lingonberry" á ensku og "tyttebær" á dönsku. Tegundin finnst villt á einstaka stað hérlendis
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)