Spörvareynir – Sorbus californica
All harðgerður meðalhár – hávaxinn, grófgreinóttur runni. Laufið stakfjaðrað, gljáandi. Smáblöðin eru tennt og ydd í endann. Rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í stórum sveipum snemmsumars. Stórir rauðgulir berjaklasar þroskast að hausti. Þolir hálfskugga. Spörvareynir sómir sér vel stakstæður eða í bland með öðrum runnum. Skýrður spörvareynir af Jóhanni Pálssyni grasafræðing vegna þess hve spörfuglar eins og þrestir og starar sækja mjög í berin og éta þau um leið og þau þroskast í ágústlok. Reyniáta sækir nokkuð í spörvareyni. Því er heppilegast að klippa hann að sumri til ef þörf er á því að klippa hann á annað borð. Hefur einnig verið nefndur „buskareynir“. Heimkynni: Fjalllendi Kaliforníu.
Vörunr.
3c2e94b525ae
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Garðakvistill ‘Luteus’ – Physocarpus opulifolius ‘Luteus’
Meðalstór, þokkalega harðgerður runni. Hæð um 1,5 m. Laufið áberandi gulgrænt. Nývöxtur koparlitur. Rauðbleikir haustlitir. Hvítir blómsveipir upp úr miðju sumri. Fræbelgir, uppblásnir, rauðleitir í fyrstu. Þolir hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Börkur flagnar með tímanum af í strimlum. Kelur stundum mikið. Hentar í blönduð beð með runnum og fjölæringum í þokkalegu skjóli. Millibil um 80 - 90 sm.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Ilmkóróna ‘Mont Blanc’ – Philadelphus x lemoinei ‘Mont Blanc’
Fremur harðgerður, meðalstór, þéttur, sumargrænn runni. Hæð um 1 - 1,5. Gamlir runnar eru stundum hærri. Laufblöðin egglaga, tennt, ljósgræn - gulgræn, 4 - 6 sm á lengd. Ljósgulir haustlitir. Blómin snjóhvít, stjörnulaga, 2 - 3 sm í þvermál og ilma sérlega vel. Blómgunartíminn er seinni part júlí og í ágúst. Sprotar rauðbrúnir. Greinar verða síðan ljósgrábrúnar. Sólelsk en þolir hálfskugga. Ilmkóróna sómir sér vel stakstæð en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Algengasta kórónan (Philadelphus sp.) hérlendis. 'Mont Blanc' er gamall garðablendingur úr smiðju M. Lemoine í Frakklandi.
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál.
Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.