Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 – 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 – 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan hérlendis. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af innlandskvæmum gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.