Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt – stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 – 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 – 8 sm á lengd og 0,9 – 2 mm á breidd. Þroskar 3 – sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið.
Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur.
Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi.
Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert.
Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).