• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Hnausplöntur Stafafura – Pinus contorta
Placeholder
Sóltoppur 'Tumi' - Lonicera chrysantha 'Tumi'
Back to products
Virginíuheggur 'Canada Red' - Prunus virginiana 'Canada Red'

Stafafura – Pinus contorta

Mjög harðgert, hraðvaxta, meðalstórt – stórvaxið sígrænt tré. Hæð 7 – 15 m. Getur orðið enn hærri á góðum stöðum. Sérstaklega á það við um undirtegundina P. contorta ssp. latifolia (meginlandsundirtegundin). Stafafura getur orðið talsvert breið hafi hún nóg pláss. Börkurinn er fremur þunnur og grábrúnn á litinn. Brumin eru rauðbrún og frekar mjó samanborið við berg- (P. uncinata) og fjallafuru (P. mugo). Nálarnar eru fagurgrænar, venjulega tvær saman í knippi. Þær eru 4 – 8 sm á lengd og 0,9 – 2 mm á breidd. Þroskar 3 – sm langa, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Könglarnir eru á annað ár að ná fullum þroska. Karlblómin birtast á vorin eða fyrri part sumars. Þau raða sér þétt á sprotana og eru í fyrst rauðbleik en síðan ryðbrún og falla síðan af þegar líður á sumarið.

Þrífst víðast hvar á landinu. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Myndar svepprót með furusvepp (Suillus luteus) sem er ágætis matsveppur.

Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega á rýru landi. Varpar ekki eins miklum skugga og greni. Millibil ekki minna en 3 m. Gjarnan 2 m í skógrækt til að forðast miklar hliðargreinar. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan eftir mikla saltákomu af hafi.

Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway (Alaska) uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af meginlandsundirtegundinni, latifolia, gerir gjarnan. Stafafura er ágætis timburtré. Talsvert nýtt sem eldiviður og í kurl í stíga og beð. Stafafura er vinsælasta íslenska jólatréið. Einnig eru greinar hennar nýttar til skreytinga enda er stafafura barrheldin og ilmar talsvert.

Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Þallarætt (Pinaceae).

Vörunr. fe30bac7f771 Vöruflokkar: Hnausplöntur, Skógarplöntu-bakkar, Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Fjallareynir – Sorbus commixta

Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin 11 - 17 talsins, hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan, Kína, Kórea og Sakalín.

Sumareik – Quercus robur

Sumargrænt tré. Óvíst er hversu há sumareikin getur orðið hérlendis en sjálfsagt mun hún vaxa upp fyrir 12 m hæð með tímanum á góðum vaxtarstöðum. Gulir haustlitir. Visin lauf sitja gjarnan á ungum trjám fram á vor. Þarf nokkurt skjól í uppvextinum. Þolir hálfskugga. Þrífst best í þokkalega frjóum jarðvegi. Má vera grýttur. Gott er að stýra vexti með klippingu annars vilja sumar eikur verða runnavaxnar. Almennt talið harðgerðasta eikin hérlendis og sú sem mesta hefur verið gróðursett. Samt er sumareik ennþá fremur sjaldgæf í ræktun. Sumareik hentar helst stakstæð í grónum görðum og í rjóður í skógarreitum og sumarhúsalóðum. Þrífst ekki á köldum og vindasömum stöðum. Sumareik laufgast seint eða ekki fyrr en um miðjan júní.

Risalífviður – Thuja plicata

Sígrænt, keilulaga, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 12 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Grænt að ofan en ljósara að neðanverðu. Ilmurinn minnir á ananas. Börkur rauðbrúnn. Þarf gott skjól í uppvextinum. Þolir talsverðan skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður getur í heimkynnum sínum orðið mjög stórvaxinn og langlífur. Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Þolir vel klippingu og er m.a. notaður í klippt limgerði erlendis. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk. Þau tré eru af kvæminu, Kamloops, Bresku Kólumbíu, Kanada. Þykir gott timburtré en viður risalífviðar hefur náttúrulega fúavörn og er ilmandi. Heimkynni: Norðvestanverð N-Ameríka. Grátviðarætt (Cupressaceae).

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.

Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’

Harðgert, ágrætt, sumargrænt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m yfirleitt en það fer eftir hæð ágræðslunnar. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta. Hengibaunatré er ágrætt efst á stofn af venjulegu baunatré sem vaxið er upp af fræi. Fjarlægið því rótarskot, stofnskot og sprota upp eftir stofninum að ágræðslunni um leið og þeir myndast annars munu þeir yfirtaka hangandi hlutann.

Beyki – Fagus sylvatica

Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.

Ulleungreynir / Pálmareynir ‘Dodong’ – Sorbus ulleungensis ‘Dodong’

All harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð 4 - 6 m hérlendis. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum. Laufin allt að 25 sm löng, stakfjöðruð. Smáblöð 15 - 17 talsins og hvassydd. Áberandi rauðir og rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum fyrri part sumars. Berin sitja mörg saman í klösum, perulaga, rauðgul fullþroska. Klippið og snyrtið 'Dodong' eingöngu yfir sumartímann til að forðast reyniátu. Yrkið 'Dodong' er vaxið upp af fræi sem safnað var í sænsk-dönskum leiðangri til kóreönsku eyjarinnar Ullungdo árið 1976. Yrkið er kennt við hafnarbæinn á umræddri eyju. 'Dodong' fer vel sem stakstæður í litlum sem stórum görðum. Einnig fellegur í röðum og þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Heimkynni: Eyjan Ulleungdo, S-Kóreu. Rósaætt (Rosaceae).
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.