Stórkvistur – Spiraea henryi
Harðgerður meðalstór – stórvaxinn runni (1,5 – 2,5 m). Greinar rauðbrúnar. Laufblöðin sporbaugótt – öfugegglaga. Yfirleitt tennt ofan við miðju. Gulir haustlitir. Blómin hvít í sveipum miðsumars (júlí og fram í ágúst). Bogsveigðar greinar. Gulir – gulrauðir haustlitir. Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Þolir hálfskugga.
Sómir sér vel stakstæður en einnig í bland með öðrum gróðri. Hentar einnig í raðir og þyrpingar þar sem er nægt rými. Millibil um eða yfir 1 m. Líkist bogkvist (S. veitchii) en stórkvistur virðist vera harðgerðari og kala síður. Bogkvistur blómgast seinna samanborið við stórkvist eða ekki fyrr en í ágúst. Einn stórkvistur tekur um 1,5 fermeter af plássi þegar fram í sækir. Heimkynni: Fjalllendi V- og M-Kína. Rósaætt (Rosaceae).