Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)
Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 – 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia ‘Brekka’). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.