Sunnukvistur – Spiraea nipponica
Harðgerður, í meðallagi hávaxinn runni (1, 5 m, stundum hærri). Greinar bogsveigðar. Blómin hvít í sveipum sem sitja eftir endilöngum greinunum. Gulir – rauðir haustlitir. Sunnukvistur fer vel stakstæður en einnig í röðum og þyrpingum eða í bland með öðrum gróðri. Millibil um 80 sm. Til að eyðileggja ekki vaxtarlagið er best að grisja gamla runna með því að klippa gamlar greinar alveg niður við jörð. Með því móti skapast rými fyrir nýjar greinar að vaxa upp sem seinna meir munu svo blómgast. Sunnukvistur þolir hálfskugga. Vinsæll og algengur um land allt. Virðist vind- og saltþolinn. Laus við meindýr og sjúkdóma.
Vörunr.
27048bf626c2
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Ilmkóróna ‘Mont Blanc’ – Philadelphus x lemoinei ‘Mont Blanc’
Fremur harðgerður, meðalstór, þéttur, sumargrænn runni. Hæð um 1 - 1,5. Gamlir runnar eru stundum hærri. Laufblöðin egglaga, tennt, ljósgræn - gulgræn, 4 - 6 sm á lengd. Ljósgulir haustlitir. Blómin snjóhvít, stjörnulaga, 2 - 3 sm í þvermál og ilma sérlega vel. Blómgunartíminn er seinni part júlí og í ágúst. Sprotar rauðbrúnir. Greinar verða síðan ljósgrábrúnar. Sólelsk en þolir hálfskugga. Ilmkóróna sómir sér vel stakstæð en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Algengasta kórónan (Philadelphus sp.) hérlendis. 'Mont Blanc' er gamall garðablendingur úr smiðju M. Lemoine í Frakklandi.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’
Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast seinni part vetrar. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlablöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur.
Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985.
Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi. Víðisætt (Salicaceae).
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).