Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 – 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir „vor-kvefi“. Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena ‘Bríet’ hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 – 1940).
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september). Rauðgulir haustlitir. Líkist japanskvist (Spiraea japonica). Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Blómgast á árssprotann. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn.
Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handsepótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, æt ber þroskast í ágúst. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar.
Mánaklungur – Rubus parviflorus
All harðgerður, meðalhár runni (1 - 2 m). Blöðin stór, flipótt. Blómin hvít, með 5 krónublöðum og gulum fræflum. Aldinið rautt, ætt ber, ekki ósvipað hindberi um 1 sm í þvermál. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Dreifir sér með rótarskotum. Hentar sem þekjandi planta undir trjám og þess háttar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka.