Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’
Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 – 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir „vor-kvefi“. Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena ‘Bríet’ hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 – 1940).
Vöruflokkar: Runnar, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Hélurifs ‘Lukka’ – Ribes laxiflorum ‘Lukka’
Harðgerður, lágvaxinn (30 - 50 sm), jarðlægur runni. Laufið handflipótt. Laufgast í apríl. Rauðir haustlitir birtast strax í ágúst. Rauðbrún blóm í klasa í maí. Blá, héluð, , hærð, æt ber þroskast í lok júlí eða í ágúst. Má nýta í sultu og fleira.
Hélurifs 'Lukka' þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Skuggþolið en mest berjauppskera fæst í fullri sól. Hentar sem undirgróður undir trjám, í kanta, jaðra og þess háttar. Nóg er að planta 1 - 2 plöntum á fermetra. 'Lukka' er úrvalsyrki úr Lystigarði Akureyrar. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’
Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.
Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’
Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.