Sýrena ‘Hallveig’ – Syringa ‘Hallveig’
Harðgerður, fremur stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 2 – 3 m. Laufin sitja gagnstætt á greinunum. Þau eru oddbaugótt – lensulaga. Ung lauf áberandi rauðbrún. Ungir sprotar eru áberandi dökkir. Óútsprungnir blómklasar dökk-fjólubláir. Útsprungin eru blómin lillableik og ilma. Byrjar að blómstra fyrr en aðrar sýrenur hérlendis eða seinni part júní eða í byrjun júlí. Blómviljug.
Upprunanlega móðurplantan var gróðursett í Hallargarðinn við Lækjargötu í Rvk í kringum árið 1985. Hún hafði komið upp af fræi frá Milde grasagarðinum í Bergen, Noregi árið 1981. ‘Hallveig’ líkast helst gljásýrenu (S. josikaea) og er trúlega blendingur hennar. ‘Hallveig’ er því íslenskt úrvalsyrki valin af yrkisnefnd Yndisgróðurs árið 2013 og skýrð í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur eiginkonu landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar.
Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga. ‘Hallveig’ hentar stakstæð, aftarlega í beðum í bland með öðrum gróðri, í þyrpingar og raðir og í skjólbelti með um 1,5 – 2 m millibili. Þolir ágætlega klippingu. Smjörviðarætt (Oleaceae).