Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’
All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 – 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 – 15 sm og 2 – 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir. Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. – mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 – 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 – 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Ekki er vitað hvaðan eða hvernig þingvíðirinn barst til landsins. Í páskahretinu 1963 dó mikið af þingvíði á sunnan og vestanverðu landinu en á þeim tíma var hann algengur í ræktun. Í dag finnast stöku runnar hér og þar í görðum og skógarreitum um mest allt land. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.