Þyrnirós ‘Katrín Viðar’ – R. pimpinellifolia ‘Katrín Viðar’
Fremur harðgerður, þéttur, frekar lágvaxinn runni (1,5 m). Laufið blágrænt fínlegt, stakfjaðrað. Blómin stór, einföld, hvít en ljósbleik í knúpp. Dökkbrúnar – svartar nýpur þroskast á haustin. Græn fram á haust. Rauðgulir haustlitir í október. Sólelsk. Skríður lítið sem ekkert út með rótarskotum. Aðallega notuð í þyrpingar, raðir eða í blönduð runnabeð.
Íslenskt úrval úr Grasagarði Reykjavíkur. Yrkið er tileinkað minningu hjónanna Jóns Sigurðssonar skólastjóra og Katrínar Viðar sem árið 1961 gáfu Reykjavíkurborg safn íslenskra jurta og varð sú gjöf upphafið af Grasagarðinum. Vinsæl hérlendis sérstaklega á opnum svæðum sveitarfélaganna.
Vörunr. 1479356f186b
Vöruflokkur: Rósir
Tengdar plöntur
Renglurós ‘Dart’s Defender’ – Rosa x rugotida ‘Dart’s Defender’
Harðgerð runnarós. Hæð: 1 - 1,5 m. Laufið áberandi gljáandi. Þéttþyrnótt. Blómin meðalstór, rauðfjólublá, hálffyllt og ilmandi. Blómstrar frá miðju sumri og fram á haust. Rauðgulir haustlitir. Þroskar gjarnan rauðar nýpur á haustin. Hentar í raðir og þyrpingar og í bland með öðrum runnum. Millibil um 1 m. Skríður eitthvað út með rótarskotum. 'Dart's Defender' er tegundablendingur hansarósar (R. rugosa 'Hansa') og brúðurósar (R. nidita). Hollenskt yrki frá árinu 1971.
Ígulrós ‘Logafold’ – Rosa rugosa ‘Logafold’
Rósin 'Logafold' er afrakstur rósakynbóta Jóhanns Pálssonar fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. 'Logafold' er harðgerð og þétt runnarós. Vind- og saltþolin enda af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, léttfyllt, fallega skálformuð, rauðfjólublá - bleik og ilmandi. Langur blómgunartími. Rauðar nýpur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Hæð um 1,5 m. Framleidd og seld í Þöll á eigin rót. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Getur einnig vaxið "villt" í sumarhúsalöndum og þess háttar. 'Logafold' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Hún er afkomandi R. 'Charles Albanel x ?.
„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.
Fjallarós ‘Hellisgerði’ – R. pendulina ‘Hellisgerði’
Harðgerð, meðalhá runnarós. Blómin fremur smá, einföld, rauðbleik, ljósari nær miðju. Blómgast yfirleitt fyrst rósa hérlendis, gjarnan seinni part júní. Stundum aftur snemma hausts. Daufur ilmur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk en þolir hálfskugga. Fjallarós 'Hellisgerði' hentar stakstæð, fleiri saman eða í bland með öðrum gróðri.
Fjallarós ‘Lina’ – R. pendulina ‘Lina’
Harðgerður, meðalhár, þéttur runni. Hæð og breidd um 2 m. Laufið fagurgrænt, meðalstórt, fjaðrað. Blómin fremur smá, rauðbleik. Krónublöð ljósari nær miðju. Með fyrstu rósum að byrja að blómstra á sumrin jafnvel í júní. Rauðar, smáar, aflangar nýpur þroskast á haustin. Gulir - rauðgulir haustlitir. Nánast þyrnalaus. Sólelsk en þolir vel hálfskugga. Fjallarós hentar sérlega vel í raðir /limgerði og þyrpingar. Einnig falleg stakstæð. Þolir vel hóflega klippingu.
Rós ‘Schneekoppe’ – Rosa rugosa ‘Schneekoppe’
Harðgerð lágvaxin - meðalhá runnarós. Blöðin fremur mött, stakfjöðruð, ljósgræn. Talsvert þyrnótt. Blómin stór, fyllt, föl-lillableik - hvít, ilmandi, ögn drjúpandi (rósirnar þungar). Þroskar lítið eða ekki nýpur. Gulir haustlitir. Sólelsk. 'Schneekoppe' hentar í blönduð runna- og rósabeð, raðir, þyrpingar, ker, villigarða og sumarhúsalóðir. All vind- og saltþolin. Millibil 80 - 100 sm.
Rós ‘Skotta’ – Rosa ‘Skotta’
Harðgerður, lágvaxinn - meðalstór runni (1 - 1,5 m). Sólelsk. Blómin bleik, vel fyllt og ilmandi. Skriðul. Engar nýpur. Laufið ljósgrænt, stakfjaðrað og matt. Gulir haustlitir. Hentar í runnaþyrpingar, raðir, opin svæði, villigarða og þess háttar. Mjög blómsæl. Blómgast frá miðju sumri og fram á haust. Algeng í íslenskum görðum. Hefur í gegnum tíðina verið ranglega seld undir heitunum 'Betty Bland', 'Wasagaming', 'George Will' og þokkarós. 'Skotta' óx upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur árið 1965. Fræið kom frá grasagarðinum í Wageningen í Hollandi.