Tindalyngrós ‘Colibri’ – Rhododendron yakushimanum ‘Colibri’
Lágvaxinn, sígrænn, þéttur, hægvaxta, hálfkúlulega runni. Hæð 50 – 100 sm. Blómin rauðbleik í knúpp en fagurbleik útsprungin. Blómgast í lok maí og fram í júní. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga.
Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli. Berið á um eina teskeið af blönduðum garðáburði í kringum plöntuna í maí en ekki meira það árið.
Hentar framarlega í beði með öðrum lyngrósum, lyngi og öðrum sígrænum runnum. Tindalyngrósir (R. degronianum ssp. yakushimanum) eru almennt talið harðgerðari en flestar aðrar lyngrósir. Heimkynni þeirra eru á japönsku eyjunni Yakushima.
Vöruflokkar: Lyngrósir, Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Bergreynir – Sorbus x ambigua
Harðgert lítið tré eða all stór runni (2 - 5 m). Ýmist ein- eða margstofna. Lauf sporöskjulaga og sagtennt. Blómin eru rauðbleik í hálfsveip fyrri part sumars. Rauð ber í klösum í september. Rauðgulir haustlitir. Minnir mjög á úlfareyni (S. x hostii). Blöð bergreynis eru minna hærð og meira gljáandi samanborið við úlfareyni, einnig á neðra borði. Vindþolinn og trúlega saltþolinn einnig. Bergreyni sómir sér stakstæður, í beðum með öðrum gróðri, í raðir og þyrpingar. Mætti jafnvel nota í klippt limgerði. Tilvalinn í sumarhúsalóðina. Millibil 1,5 - 2 m. Í limgerði 50 - 100 sm. Byrjar ungur að blómgast og þroska ber, fyrr samanborið við úlfareyni. Bergreynir er náttúrulegur blendingur seljureynis (Sorbus aria) og blikreynis (S. chamaemespilus). Vex villtur í fjalllendi Mið - S-Evrópu. Íslenski stofninn er líklega allur kominn af tré/trjám í Grasagarði Rvk sem uxu upp af fræi frá Haute-Savoie í frönsku Ölpunum og sáð var til árið 1989.
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars. Humlur sækja í reklana á vorin.
'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið.
Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).