Tjarnaíris – Iris pseudacorus
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 1 – 1,5 m. Laufblöðin eru sverðlaga, heilrennd og löng. Blómin eru dæmigerð „írisarblóm“, gul með brúnleitum rákum, all stór, nokkur saman á löngum stöngli. Blómgast miðsumars.
Tjarnaíris er eins og nafnið gefur til kynna jurt sem vex í deiglendi eða jafnvel í vatni við lækjar- og tjarnabakka. Hún þrífst þó vel í frjóum, rakaheldnum garðajarðvegi. Sólelsk. Tjarnaíris hentar helst við tjarnir og læki eða í blómabeð á rökum stöðum. Breiðir úr sér með tímanum. Þolir að standa í súrefnislitlu og ísöltu vatni. Slæðingur hérlendis t.d. í Vífilsstaðalæk, Gbæ. Heimkynni: Evrópa, V-Asía og NV-Afríka. Sverðliljuætt (Iridaceae).
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Krosshnappur – Glechoma hederacea
Harðgerð, jarðlæg fjölær, sígræn, þekjandi jurt. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt. Laufið er ætt. Blómin fjólublá miðsumars. Þolir hálfskugga. Ilmandi. Þrífst best í frjóum, niturríkum, sæmilega rökum jarðvegi. Hentar sem þekjuplanta t.d. undir trjám, í ker og potta og þess háttar. Dreifir sér með jarðstönglum. Heimkynni: Evrasía.
Höfuðklukka – Campanula glomerata
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð um 40 - 60 sm. Blómin dökk-fjólublá mörg saman í kúlulaga blómskipun. Blómgast í júlí og ágúst. Höfuðklukka er talsvert skriðul. Þolir vel samkeppni við ýmsar ágengar tegundir þ.m.t. gras. Þolir hálfskugga. Höfuðklukka fer vel í blönduðum blóma- og runnabeðum. Hentar einnig í villagarða og sumarhúsalóðir. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst ekki í bleytu eða súrum jarðvegi. Blöð og blóm eru sögð æt og má nota t.d. í salat. Heimkynni: Evrasía, allt frá Bretlandseyjum austur til Japan.
Kínalykill – Primula sikkimensis
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 40 - 50 sm. Laufblöðin sitja í jarðlægum hvirfingum. Blöðin eru öfugegglaga - oddbaugótt og bogadregin í oddinn. Mjókka að grunni. Blaðstöngull er styttri en blaðkan. Hrukkótt. Blómin sitja mörg saman í sveip á stöngulendum. Bikarblöð eru brúnleit. Blómin eru ljósgul, drjúpandi og ilma vel. Blómleggir grannir og mélugir. Króna allt að 3 x 3 sm. Blómgast í júní - júlí.
Kínalykill þrífst vel í allri sæmilega frjórri og rakaheldinni garðmold. Þolir vel hálfskugga. Hentar í blönduð beð með öðrum fjölæringum eða inn á milli runna.
Heimkynni: Himalajafjöll. Maríulykilsætt (Primulaceae).
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.