Týrólareynir / Doppureynir – Sorbus austriaca
Harðgert, fremur lágvaxið tré. Hæð: 6 – 10 m hérlendis. Stundum runni. Líkist alpareyni (Sorbus mougeotii). Talinn blendingur seljureynis (Sorbus aria) og reyniviðar (Sorbus aucuparia). Laufblöð breið-sporöskjulaga með kíllaga grunn. Lauf sagtennt en neðarlega á laufinu eru flipar sem skerast upp í blöðkuna sem nemur um 1/6 af breitt hennar. Flipar skarast ögn. Ofar eru laufblöðin tvísagtennt. Laufblöð ekki eins slétt og laufblöð alpareynis enda blaðjaðrar bylgjaðir. Lauf týrólareynis hafa þykkari hár en lauf annara reynitegunda í Sorbus aria deildinni. Gulir – brúnir haustlitir í október. Frýs stundum grænn. Blómin hvít í sveipum í júní. Rauðir berjaklasar þroskast í október. Trúlega verið hér í ræktun í einhverja áratugi og yfirleitt ranglega nefndur alpareynir. Finnst sjálfsáinn í nágrenni byggðar. Týrólareynir virðist beinvaxnari og jafnvel hávaxnari að jafnaði samanborið við alpareyni. Týrólareynir sómir sér vel stakur eða fleiri saman með um 3 m millibili eða meir. Hentar jafnvel í limgerði með um 2 plöntum/m. Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Þrífst ekki í súrum jarðvegi. Heimkynni: Fjalllendi í Austurríki og á Balkanskaganum.