Úlfareynir – Sorbus x hostii
Harðgert lágvaxið tré – hávaxinn runni (2,5 – 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Fljótlega étin upp af fuglum. Gulir – rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Í limgerði er hæfilegt bil 50 – 70 sm. Annars er 1,5 – 2 m bil hæfilegt. Klippið helst á sumrin til að forðast reyniátu. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis. Úlfareynir er talinn vera náttúrulegur tegundablendingur á milli blikreynis (S. chamaemespilus) og alpareynis (S. mougeotii) og finnst eins og móðurtegundirnar í fjalllendi M-Evrópu.