Urðahnoðri – Sedum lydium
Harðgerð, mjög lágvaxin, þekjandi, sígræn jurt. Laufblöð mjög smá. Oft rauðleitur sérstaklega á þurrum stöðum og yfir vetrarmánuðina. Minnir tilsýndar á mosa. Blómstönglarnir vaxa allt að 10 sm upp úr blaðbreiðunni. Blómin eru hvít eða bleik í hálfsveip. Blómgast upp úr miðju sumri og fram á haust. Fræhýðin eru áberandi rauð standa fram eftir hausti. Sólelskur en þolir þó hálfskugga. Þrífst í þurrum og rýrum jarðvegi en einnig í venjulegri garðmold. Dreifir sér út með tímanum þar sem aðstæður leyfa.
Urðahnoðri hentar í steinhæðir og hleðslur. Einnig sem undirgróður þar sem ekki er of mikill skuggi. Hentar einnig á gróðurþök, veggi, í ker og potta með öðrum áþekkum plöntum eins og hnoðrum (Sedum spp.), steinbrjótum (Saxifraga spp.) og húslaukum (Sempervivum spp.). Heimkynni: Fjalllendi V- og M-Tyrklands og Armeníu. Hnoðraætt (Crassulaeae).