Vaxlífviður – Thujopsis dolabrata
Sérkennilegt sígrænt tré/runni ættaður frá Japan. Minnir í útliti á grófan sýprus (Chamacyparis spp.) eða lífvið (Thuja spp.). Barrið er hreisturkennt og með áberandi hvítum varaopsröndum að neðanverðu. Hægvaxta. Þarf skjól en þolir vel hálfskugga. Þollir illa þurrk og næðing. Sjaldgæfur hérlendis.
Vörunr.
3d91262e256f
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’
Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.
Hafþyrnir – Hippophae rhamnoides
Harðgerður, þyrnóttur, lauffellandi, lágvaxinn - hávaxinn runni (1 - 3 m). Laufið lensulaga og grásilfrað. Blómin smá og lítið árberandi. Sérbýll. Kvenplöntur þroska rauðgul, æt ber séu karlplöntur í nágrenninu. Ein karlplanta dugar til að fræva nokkrar kvenplöntur. Vindfrævun. Berin hanga á runnunum langt fram á vetur þar sem fuglar virðast lítið sækja í þau. Sólelskur. Vind- og saltþolinn. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) sem gerir honum kleift að vaxa í rýrum jarðvegi. Hafþyrnir hefur mjög skriðullt og kröftugt rótarkerfi.
Berin eru nýtt í sultur og þess háttar og eru sögð mjög holl og eru t.d. mjög C-vítamínrík. Laufið má nýta í te. Hentar sérlega vel við sjávarsíðuna, til að binda sendinn og malarborinn jarðveg og þess háttar. Þrífst í alls konar jarðvegi en þó ekki blautum. Hafþyrnir hentar í runnaþyrpingar og raðir t.d. á vindasömum stöðum og í villigarða og sumarhúsalóðir. Millibil við gróðursetningu um 1 m. Rótarskot geta verið til ama t.d. nálægt gangstéttum og þess háttar. Fer jafnvel í gegnum malbik!
Við höfum verið að prófa okkur áfram með mismunandi yrki og stofna. Finnsku yrkin 'Tytti' (kvk), 'Terhi' (kvk), 'Rudolf' (kk) og 'Tarmo' (kk), fást gjarnan hjá okkur og hafa reynst vel. Einnig eigum við stundum til kvk og kk yrki úr Hallargarðinum, Rvk. Höfum einnig framleitt og boðið upp á íslenskar fræplöntur af hafþyrni.
Heimkynni: Kaldtempruð svæði Evrasíu. Í heimkynnum sínum vex hafþyrnir aðallega með ströndum fram og til fjalla. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae)
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Gjarnan líkari runna fyrstu árin. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Almennt talinn harðgerðasti sýprusinn.
Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Getur orðið talsvert breiður. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Einnig nefndur Callitropsis nootkatensis. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu. Grátviðarætt (Cupressaceae).
Blárifs ‘Perla’ – Ribes bracteosum ‘Perla’
Fremur harðgerður, sumargrænn, gisgreinóttur runni. Hæð: 1,5 - 2 m. Laufin fremur stór, handflipótt, 5 til 7 - flipótt með egglaga - egglensulaga, ydda og tennta flipa. Lauf gljáandi á löngum blaðstilk. Gulir haustlitir. Blómin græn-brúnleit í útstæðum klösum. Blómgast í júní. Berin bláhéluð, áberandi í löngum útstæðum klösum. Þroskast í lok ágúst og fram í september. Henta í sultur og þess háttar en sæmileg til átu beint af runnanum.
Blárifs 'Perla' þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið gömlum húdýraáburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Gott er að setja álíka lífrænt efni í kringum runnana á fárra ára fresti. Blárifs er all skuggþolið en þroskar mest af berjum í sól. Þrífst betur við ströndina en inn til landsins. Hentar í raðir, þyrpingar, í berjagarðinn og sem undirgróður undir trjám. Millibil um 1 m eða meir.
'Perla' er úrvalsyrki valið af Ólafi S. Njálssyni úr Alaskasafni því er barst til landsins með Óla Val og félögum árið 1985. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku allt frá S-Alaska í norðri suður til N-Kaliforníu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum.
'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp.
Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri sæmilega frjórri, vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (T. plicata).
Alaskaepli – Malus fusca
Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana). Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.
Birkikvistur – Spiraea betulifolia
Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.
Bjarkeyjarkvistur – Spiraea chamaedryfolia
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 m). Laufið matt, óreglulega tennt. greinar ljósbrúnar, áberandi hlykkjóttar. Blómin hvít í sveip. Fræflar skaga upp fyrir krónublöðin. Blómgast miðsumars eða fyrir mitt sumar í lok júní og fram í júlí. Gulir og rauðir haustlitir. Bjarkeyjarkvistur hefur aðeins skriðullt rótarkerfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í runnaþyrpingar, raðir og undir stórum trjám. Millibil um 80 sm.