Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana
Lágvaxið – meðalhátt tré eða stórvaxinn runni. Laufið grágrænt. Sprotar gulgrænir. Börkur grár og sprunginn á eldri trjám. Kvk. Sólelskur. Þarf frjóan jarðveg og hlýjan vaxtarstað til að þrífast. Hætt við haustkali flest ár enda grænn fram í október. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Bindið upp eftir gróðursetningu ef vesturbæjarvíðirinn á að verða einstofna. Þolir vel klippingu / stífingu. Upphaflega barst vesturbæjarvíðir til landsins í byrjun síðustu aldar sem lifandi sproti í tágakörfu frá Þýskalandi sem Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn. Ísleifur sonur hans kom sprotanum til og gróðursetti í garð þeirra að Stýrimannstíg 9, Rvk. Víðirinn dafnaði vel og dreifðist um Vesturbæinn í Rvk og víðar enda auðvel að fjölga honum með græðlingum. Líklega er allur vesturbæjarvíðir hérlendis upprunninn af þessu tré. Vesturbæjarvíðir er talinn náttúrulegur blendingur körfuvíðis (Salix viminalis), selju (Salix caprea) og gráselju (Salix cinerea) og finnst víða í Evrópu. Okkar vesturbæjarvíðir er ræktaður af græðlingum teknum af tré sem stendur við Hábæ við Skúlaskeið, Hfj. Einnig höfum við verið með vesturbæjarvíði frá Ytri Skógum sem að öllum líkindum er sami klónn. Vesturbæjarvíðir er sjaldgæfur hérlendis nema helst í eldri hverfum Rvk (Vesturbæ og miðbæ). Yfirleitt áberandi kræklóttur sökum kals.