• Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Search
Menu
Gróðrarstöð Gróðrarstöð
Stækka mynd
Heim Tré Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana
Rós 'Agnes' - Rosa 'Agnes'
Back to products
Gráösp 'Venus' - Populus x canescens 'Venus'

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana

Lágvaxið – meðalhátt tré eða stórvaxinn runni. Laufið grágrænt. Sprotar gulgrænir. Börkur grár og sprunginn á eldri trjám. Kvk. Sólelskur. Þarf frjóan jarðveg og hlýjan vaxtarstað til að þrífast. Hætt við haustkali flest ár enda grænn fram í október. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar. Bindið upp eftir gróðursetningu ef vesturbæjarvíðirinn á að verða einstofna. Þolir vel klippingu / stífingu. Upphaflega barst vesturbæjarvíðir til landsins í byrjun síðustu aldar sem lifandi sproti í tágakörfu frá Þýskalandi sem Jón Eyvindsson kaupmaður flutti inn. Ísleifur sonur hans kom sprotanum til og gróðursetti í garð þeirra að Stýrimannstíg 9, Rvk. Víðirinn dafnaði vel og dreifðist um Vesturbæinn í Rvk og víðar enda auðvel að fjölga honum með græðlingum. Líklega er allur vesturbæjarvíðir hérlendis upprunninn af þessu tré. Vesturbæjarvíðir er talinn náttúrulegur blendingur körfuvíðis (Salix viminalis), selju (Salix caprea) og gráselju (Salix cinerea) og finnst víða í Evrópu. Okkar vesturbæjarvíðir er ræktaður af græðlingum teknum af tré sem stendur við Hábæ við Skúlaskeið, Hfj. Einnig höfum við verið með vesturbæjarvíði frá Ytri Skógum sem að öllum líkindum er sami klónn. Vesturbæjarvíðir er sjaldgæfur hérlendis nema helst í eldri hverfum Rvk (Vesturbæ og miðbæ). Yfirleitt áberandi kræklóttur sökum kals.

Vöruflokkar: Tré, Tré og runnar í pottum
Share:

Tengdar plöntur

Fjallaþinur – Abies lasiocarpa

Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga. Heimkynni: Fjalllendi í vestanverðri N-Ameríku.

Baunatré – Caragana arborescens

Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla.

Risalífviður – Thuja plicata – Jökullækur, Hallormsstað

Sígrænt, í meðallagi hraðvaxta tré. Óvíst er hversu hár risalífviður getur orðið hérlendis. Hefur þó náð afmarkað 10 m hæð við Jökullæk í Hallormsstaðaskógi. Barrið er hreisturkennt og ilmandi. Þarf skjól í uppvextinum. Þolir nokkurn skugga. Könglarnir eru litlir og aflangir en ekki kringlóttir eins og á sýprus (Chamaecyparis spp. og Cupressus spp.). Risalífviður þrífst helst í skógarskjóli eða í grónum görðum í frjóum, rakaheldnum en framræstum jarðvegi. Barrið verður gjarnan brúnleitara á vetrum en grænkar svo aftur ef plantan er óskemmd.Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Risalífviðirnir okkar eru afkomendur trjánna við Jökullæk.

Fjallareynir – Sorbus commixta

Harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré (3 - 6 m). Laufin stakfjöðruð. Smáblöðin hvassydd. Áberandi eldrauðir haustlitir. Brum rauð og hárlaus. Hvítir blómsveipir fyrri part sumars. Rauðgul, fremur smá reyniber í klösum þroskast að hausti. Fjallareynir er glæsilegur stakur eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Kjörinn í sumarhúsalóðir. Fjallareynir er talsvert breytilegur enda fjölgar hann sér með kynæxlun og getur t.d. myndað kynblendinga með ilmreyni (S. aucuparia). Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þrífst einnig vel í lúpínubreiðum. Allur fjallareynirinn okkar er vaxinn upp af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Japan og Sakalín.

Virginíuheggur ‘Canada Red’ – Prunus virginiana ‘Canada Red’

Lítið til meðalstórt (5- 7,5 m), all harðgert tré eða stórvaxinn runni. Gjarnan margstofna enda hefur virginíuheggur tilhneigingu til að skjóta upp stofnskotum. Hægt að forma með klippingu í einstofna tré. Fremur harðgerður. Grænt lauf fyrri part sumars. Dökk-purpurarautt lauf upp úr miðju sumri (júlí). Skærrautt lauf á haustin. Ljósir blómklasar, svört ber. Hefur þó lítið blómstrað hérlendis hingað til. Þolir hálfskugga en litsterkastur í fullri sól. Fallegur stakstæður eða innan um og framan við grænan og ljósari gróður. Virðist þola klippingu vel. Millibil 2,5/3 m eða meir. Heimkynni: Stór svæði í N-Ameríku. Aðallega S-Kanada og norðanverð Bandaríkin. Dæmigerður villtur virginíuheggur hefur ekki purpurarauð laufblöð yfir sumartímann. Yrkið 'Canada Red' er upprunið frá Minnesota í Bandaríkjunum frá því fyrir árið 1985.

Blóðheggur ‘Colorata’ – Prunus padus ‘Colorata’

Lágvaxið, fremur harðgert tré (4 - 8 m). Stundum runni. Laufið purpurarautt / vínrautt á vorin og fyrri part sumars. Eldra lauf grænna þegar líður á sumarið. Laufgast strax og fer að hlýna í maí. Ljósrauðir - gulir haustlitir í september. Blómin bleik í klösum í lok maí - júní. Einstaka sinnum þroskast svört ber (steinaldin) á haustin. Oftast aflagast þó aldinin af völdum heggvendils (Taphrina padi). Sprotar nær svartir. Ljóselskur en þolir hálfskugga. Í skugga verður blóðheggur grænni en ella. Blóðheggur þrífst í öllum sæmilega frjóum og framræstum jarðvegi. Laufið getur farið illa af völdum lirfa og blaðlúsar í júní en blóðheggurinn laufgast þá upp á nýtt ef því er að skipta. Hentar stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Fremur algengur í ræktun hérlendis.

Broddhlynur rauður /“Purpurahlynur“ – Acer platanoides f. purpurea

Sæmilega harðgert tré. Hæð 5 - 6 m eða meira hérlendis. Hætt við haustkali. Blöðin eru dökkpurpurarauð og þunn. Laufgast í byrjun júní. Haustlitur skærrauður - rauðgulur. Blómgast stundum fyrri part sumars ljósgulum blómum í sveipum. Stundum myndast aldin sem eru vængjaðar hnotir tvær og tvær saman nánast í beinni línu en mynda ekki horn eins og aldin garðahlyns (A. pseudoplatanus). Þarf frjóan, vel framræstan, ekki súran jarðveg. Sólelskur en getur staðið í hálfskugga. Hentar í grónar lóðir þar sem vaxtartími er ekki of stuttur. Millibil alla vega 2 m. Broddhlynirnir okkar eru af fræi og því ekki sérstök yrki.
Kaldárselsvegi. Hafnarfirði
555 6455
skoghf@simnet.is
Tenglar
  • Skógræktarfélag Hafnarfjarðar
  • Plöntuleit
  • Skógræktarfélag Íslands
  • Yndisgróður
  • Lystigarður Akureyrar
  • Sumarhúsið og garðurinn
  • Grasagarður Reykjavíkur
  • Garðaflóra
  • Garðyrkjufélag Íslands
Plöntuleit
  • Tré
  • Runnar
  • Skógarplöntur
  • Ávaxtatré og berjarunnar
  • Tré og runnar í pottum
  • Klifurrunnar
Skógræktarfélag Hafnarfjarðar 2021
Hönnun: Veftorg vefþjónusta
  • Menu
  • Categories
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
  • Heim
  • Plöntuleit
  • Fréttir
  • Um okkur
  • Hafa samband
  • Opnunartími
Start typing to see products you are looking for.