Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana – Ytri Skógum
Vesturbæjarvíðir er all hraðvaxið tré eða runni. Kelur þó yfirleitt talsvert (haustkal). Verður því mjög gjarnan kræklóttur. Hentar því einungis í þokkalega hlýjum sveitum og skjólgóðum görðum. Gjarnan álíka breiður og hann er hár. Hæð: 6 – 8 m. Laufið er lensulaga, grágrænt. Sólelskur. Grænn fram á haust. Þolir vel klippingu. Um er að ræða klónaðar plöntur af tréi ársins 2018 sem stendur að Ytri Skógum undir Eyjafjöllum. Notaður stakstæður, í raðir, þyrpingar og jafnvel í limgerði.
https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/vesturbaejarvidir-er-tre-arsins
Vöruflokkar: Runnar, Tré, Tré og runnar í pottum
Tengdar plöntur
Stafafura – Pinus contorta
Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan hérlendis. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Millibil ekki minna en 2 m. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan mikið eftir mikla saltákomu af hafi. Öll stafafuran okkar er vaxin upp af íslensku fræi. Við framleiðum aðallega stafafuru af Skagway uppruna. Sú fura er fagurgræn allan veturinn en gulnar ekki eins og stafafura af innlandskvæmum gerir gjarnan.
Rósareynir – Sorbus rosea
All harðgerður hávaxinn runni eða lágvaxið tré (2,5 - 5 m). Blöðin stakfjöðruð, mött. Rauðgulir haustlitir. Fölbleik blóm í sveipum birtast fyrri part sumars. Fremur stór, bleik/rósrauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Þolir hálfskugga. Rósareynir sómir sér vel stakur eða í bland með öðrum runnum. Fremur nýlegur í ræktun hérlendis. Minnir í útliti á kasmírreyni (S. cashmiriana).
Blágreni – Picea engelmannii
Harðgert, hávaxið, keilulaga, sígrænt barrtré. Nýja barrið bláleitt, ekki eins stingandi eins og barr sitkagrenis (Picea sitchensis). Fremur hægvaxta. Krónan gjarnan fremur mjóslegin. Þolir hálfskugga. Þrífst betur inn til landsins en síður við sjávarsíðuna. Sitkalús getur verið vandamál. Blágreni er glæsilegt stakstætt tré. Sómir sér einnig í þyrpingum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Úrvals jólatré. Víða nýtt til skógræktar sérstaklega norðan- og austanlands.
Hjartatré – Cercidiphyllum japonicum
Fremur lítið tré hérlendis (3 - 6 m). Stundum runni. Þarf skjólgóðan og sólríkan stað til að þrífast. Þrífst í venjulegri garðmold. Laufið hjartalaga og rauðleitt fyrst á vorin og á vaxandi sprotum. Haustlitir bleikir. Karamelluilm leggur af laufinu á haustin. Blóm ekki áberandi og sjást sjaldan hérlendis. Sérbýlt. Þolir hálfskugga. Heppilegt og fallegt garðtré í skjólgóðum hverfum. Hætt við haustkali. Heimkynni: Kína og Japan.
Hengibaunatré ‘Pendula’ – Caragana arborescens ‘Pendula’
Harðgert, ágrætt, einstofna smátré. Hæð: 1,5 - 2,0 m. Laufið fínlegt, fjaðrað. Nánast hvítt þegar það springur út á vorin, síðar ljósgrænt. Gul baunablóm birtast miðsumars. Baunabelgir þroskast að hausti. Sólelskt. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Hentar stakstætt, innan um lægri gróður, framan við hús og í ker/potta.
Baunatré – Caragana arborescens
Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.
Fjallaþinur – Abies lasiocarpa – íslensk kvæmi
Meðalstórt - stórvaxið, sígrænt tré. Barrið grænt - blágrænt, mjúkt og ilmandi. Brumin hnöttótt og þakin hvítu harpixi. Krónan keilaga, mjó - meðalbreið. Könglar meðalstórir, dökkfjólubláir og uppréttir. Fjallaþinur þarf eitthvert skjól í uppvextinum. All skuggþolinn. Hætt við vorkali sérstaklega nálægt ströndinni þar sem vetur eru mildastir. Þrífst því betur í innsveitum. Algengasti og almennt talinn harðgerðasti þinurinn hérlendis. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Fjallaþinur fer vel stakur eða fleiri saman með minnst 3 m millibili. Hentar vel til gróðursetningar inn í kjarr og skóga. Úrvals jólatré og greinarnar eru góðar til skreytinga.