Vetrartoppur – Lonicera pileata
Lágvaxinn (50 sm), sígrænn runni. Laufið smátt, gljándi og heilrennt. Blóm og aldin lítið áberandi. Vex meira og minna lágrétt. Skuggþolinn. Þrífst í venjulegri, framræstri garðmold á skjólsælum stöðum. Þekjandi. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Hentar framarlega í beð, sem undirgróður undir trjám og þess háttar. Millibil um 50 – 70 sm. Erlendis gjarnan gróðursettur í lágvaxin limgerði.
Vörunr.
890bcbdc5ef6
Vöruflokkar: Sígrænir runnar og sígræn smátré, Tré og runnar í pottum, Þekjuplöntur
Tengdar plöntur
Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis
Lágvaxið, sígrænt tré. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Harðgerðasti sýprusinn. Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu.
Bjarmasýrena ‘Valkyrja’ – Syringa wolfii ‘Valkyrja’
Harðgerður, þéttur, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Blómin lillableik, ilmandi í klösum. Lágvaxnari en aðrar sýrenur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Nýtur sín vel stakstæð eða fleiri saman í þyrpingu með um 120 sm millibili. Hentar einnig í stóra potta. Kettir sækja talsvert í Bjarmasýrenu 'Valkyrju' og geta eyðilagt hana meðan hún er ung. Því borgar sig að setja girðingu/net utan um nýgróðursettar plöntur og hafa það í kring fyrstu árin þar sem mikið er um ketti. 'Valkyrja' er úrval úr Grasagarði Reykjavíkur.
Bergfura – Pinus uncinata
Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Könglar eru tvílitir, dekkri á jöðrum köngulhreisturs og minna á köngla fjallafuru en eru enn ljósari (sjá mynd). Bergfurukönglar eru kúptir að neðan en ekki sléttir eins og könglar fjallafuru. Könglar stafafuru eru aftur á móti einlitir, kanelbrúnir. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta. Heimkynni: Pýreneafjöll og V-Alparnir. Háfjallategund sem vex þar aðallega í 1000 - 2300 m.h.y.s. Finnst einnig lægra í frostpollum og barnamosamýrum. Þar sem útbreiðslusvæði berg- og fjallafuru skarast myndast gjarnan blendingar (Pinus x rotundata). Þessi blendingur virðist algengur hérlendis sem lýsir sér í fremur lágvöxnum, margstofna trjám eða stórum runnum upp á 4 - 7 m. Bergfura er stundum skilgreind sem undirtegund fjallafuru, Pinus mugo subsp. uncinata.
Alaskayllir / Rauðyllir – Sambucus racemosa ssp. arborescens
Harðgerður, stórvaxinn, grófur runni. Hæð: 3-5 m. Blómin mörg saman í kremuðum klasa í maí - júní. Berin eldrauð í ágúst. Fuglar sækja mjög í berin. Brumin gagnstæð. Laufblöðin stór, stakfjöðruð. Laufgast snemma á vorin. Gulir - brúnir haustlitir. Hraðvaxta. Mjög skuggþolinn. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður leyfa. Góður til uppfyllingar í skuggsæl horn o.þ.h. Getur hæglega vaxið yfir aðrar plöntur og skyggt þær út. Virðist nokkuð saltþolinn. Þolir vel klippingu. Millibil 1,5 - 2,0 m. Berin má nýta í sultur, vín og fleira séu þau soðin og fræið, sem er eitrað, sigtað frá. Alaskayllir er sá yllir sem er algengastur hérlendis. Sú deilitegund (S. racemosa ssp. arborescens) eða afbrigði (S. racemosa var. racemosa) er ættað frá vestanverðri N-Ameríku.
Þráðsýprus / Ertusýprus ‘Filifera’ – Chamaecyparis pisifera ‘Filifera’
Sígrænn hægvaxta breiðkeilulaga runni eða smátré. Hæð 1,5 m hérlendis. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum í skjólgóðum görðum. Barrið hreisturkennt og gulgrænt á lit. Greinarendar slútandi, þráðmjóir. Þráðsýprus hentar í skjólgóða garða í sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hefur reynst ágætlega í pottum í skjóli. Tegundin er ættuð frá Japan.
Beyki – Fagus sylvatica
Sumargrænt, lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Getur trúlega farið upp fyrir 12 m hæð á bestu stöðum. Laufið skærgrænt þegar það springur út fyrir miðjan júní. Visið, gullinbrúnt laufið hangir á greinum ungra trjáa allan veturinn og einnig á neðstu greinum eldri trjáa. Brum hvassydd. Börkur, sléttur, grár. Þarf hlýjan vaxtarstað og frjóan jarðveg til að þrífast. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu og gjarnan notað í klippt limgerði erlendis. Yrki með purpurarauðum laufum (sjá blóðbeyki) eru algengari hérlendis heldur en beyki með grænum laufum. Sumir eru á því að þau rauðu þrífist betur en þau grænu. Beyki finnst hér og þar í görðum en ekki gróðursett í skógrækt hérlendis ennþá enda full hitakær tegund til stórfelldrar ræktunar hérlendis. Heimkynni: Stór hluti Evrópu þó ekki allra nyrst.
Kanadalífviður ‘Brabant’ – Thuja occidentalis ‘Brabant’
Sæmilega harðgert, hægvaxta, þétt, upprétt, sígrænt tré. Hæð 3 - 4 m eftir 15 ár. Getur sjálfsagt náð 5 - 7 m hæð á bestu stöðum með tímanum. Breidd 1 - 1,5 m fyrstu 15 árin. Barrið hreisturkennt, grænt en gjarnan brúnleitara sérstaklega á greinaendum á veturna. Barrið ilmar sé það klippt eða nuddað. Könglar smáir, aflangir. Börkur rauðbrúnn og flagnar með tímanum af í strimlum. 'Brabant' er talið eitt harðgerðasta yrkið af lífvið til ræktunar hérlendis. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Hentar í gróna, skjólgóða garða. Kanadalífviður 'Brabant' hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig fyrir innan skjólgirðingar og þess háttar. Hentar í ker/potta þar sem er gott skjól annars sviðnar barrið illa og plantan veslast upp. Erlendis er 'Brabant' hvað mest gróðursettur í limgerði. Þrífst í allri vel framræstri garðmold. Hollenskt yrki frá níunda áratug síðustu aldar. 'Brabant' er af sumum talinn vera blendingur kanada- og risalífviðar (Thuja plicata).