Villijarðarber – Fragaria vesca
Harðgerð, lágvaxin, íslensk jurt. Laufblöðin þrífingruð. Smáblöðin tennt og silfurhærð á neðra borði. Blómin hvít með fimm krónublöðum og gulum fræflum og frævum. Blómgast frá því í júní og fram eftir sumri. Síðsumars geta verið blóm og þroskuð ber á sömu plöntunni. Berin eru fremur lítil en bragðgóð og þroskast síðsumars og fram á haust. Berin eru í raun útbelgdur blómbotn og aldinin (hneturnar) sitja þar utan á.
Dreifir sér kynlaust með jarðlægum renglum. Þolir vel hálfskugga en þá verður minni berjaþroski. Þrífst vel í öllum sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Heimkynni: Víða á norðurhveli jarðar þar með talið Ísland. Rósaætt (Rosaceae).
Vöruflokkar: Ávaxtatré og berjarunnar, Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Friggjarlykill – Primula florindae
Harðgerð fjölær jurt. Hæð 50 - 80 sm. Blómin oftast gul, drjúpandi, mörg saman á stönglum sem vaxa upp fyrir blaðhvirfinguna. Blómin ilma. Vex best í rökum, frjósömum jarðvegi. Heimkynni SA-Tíbet. Barst fyrst til V-Evrópu árið 1924 með breska grasafræðingnum Frank Kingdon-Ward sem nefndi jurtina í höfuðið á eiginkonu sinni Florinda.
Venusvagn / Bláhjálmur – Aconitum napellus
Harðgerð, all hávaxin fjölær jurt. Hæð allt um og yfir 1 m. Blómin dökkfjólublá síðsumars. Mjög eitraður sé hans neitt. Þolir vel hálfskugga. Venusvagn er mjög vindþolinn og leggst ekki niður í roki og þarf því ekki uppbindingu. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Þolir vel hálfskugga. Hentar í blönduð blóma- og runnabeð. Stundum plantað í raðir til að afmarka svæði. Notið hanska þegar þið meðhöndlið venusvagn.
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Berghnoðri – Petrosedum rupestre
Harðgerð, lágvaxin, jarðlæg, sígræn jurt. Blaðbreiðan er aðeins nokkrir sm á hæð. Laufið smágert, um 1 sm á lengd, sívallt, blágrænt eða rauðleitt. Laufin sitja mjög þétt á blaðsprotum en gisnar og eru meira útsveigð á blómsprotum. Laufið minnir á barrnálar en mýkra. Blómsprotarnir vaxa upp í 15 - 20 sm hæð. Meðan blómstilkarnir eru að vaxa upp drjúpir blómskipunin en snýr svo upp þegar blómin opnast. Blómin eru skærgul, stjörnulaga, all stór í greinóttum, flötum eða svolítið hvelfdum hálfsveipum. Blómgast síðsumars og fram á haust.
Sólelskur. Þrífst best í þurrum, sendnum/grýttum jarðvegi. Hentar því best í steinhæðir, hleðslur, ker, lifandi þök o.þ.h. Hentar sem þekjuplanta þar sem er sólríkt, jarðvegur ekki of frjór og ekki ágengt illgresi fyrir. All hraðvaxta. Sagður ætur og notaður til manneldis sums staðar í Evrópu. Berghnoðri er betur þekktur undir fræðiheitunum Sedum reflexum og S. rupestre.
Heimkynni: Fjalllendi víða í Mið- og V-Evrópu. Hnoðraætt (Crassulaceae).
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.