Völskueyra – Cerastium tomentosum
Harðgerð, fjölær, breiðumyndandi, fjölær jurt. Hæð: 15 – 30 sm. Laufið gráloðið, hálfsígrænt. Blómin hvít, miðsumars. Blómsælt. Þrífst best í þurrum, malarbornum jarðvegi á sólríkum stað. Þolir þó hálfskugga. Völskueyra hentar í hleðslur, steinhæðir, ker og þess háttar. Breiðist talsvert út. Heimkynni: Fjalllendi SA-Evrópu.
Vöruflokkur: Fjölærar jurtir
Tengdar plöntur
Silkibóndarós – Paeonia lactiflora
Fjölær jurt. Hæð: 75 - 90 sm. Laufið djúpskert, gljáandi. Lauf og stönglar áberandi rauð fyrst á vorin. Gróðursetjið silkibóndarós á sólríkan og skjólgóðan stað í frjóa, velframræsta garðmold. Færið ekki aftur eftir gróðursetningu. Það tekur bóndarósir nokkurn tíma að koma sér fyrir og byrja að blómstra, gjarnan 2 - 3 ár. Setjið moltu ofan á jarðveginn á vorin. Blómin eru stór, fyllt og ilmandi. Þau þurfa gjarnan stuðning. Blómin þykja góð til afskurðar. Blómgast í júlí. Svo plönturnar setji ekki orku í fræmyndun er mælt með því að blómhöfuðin séu skorin af að blómgun lokinni. Hlífið rótunum að vetri til með lagi af trjákurli ofan á moldina. Vorið 2021 bjóðum við upp á þrjú mismunandi yrki af silkibóndarós: 'Sara Bernhardt' með fölbleikum blómum, 'Karl Rosenfield' með rauðum, blómum og 'Shirley Temple' sem er bleik í knúpp en snjóhvít útsprungin. Bóndarósir eru ekki eiginlegar rósir heldur fjölærar jurtir af bóndarósaætt (Paeoniaceae).
Lundahæra – Luzula sylvatica
All harðgerð, sígræn, fjölær, graskennd jurt. Hæð: 30 - 70 sm. Laufið gljáandi. Hært á blaðjöðrum. Blómhnoð í smáum klösum sem standa upp úr blaðbreiðunni, brún en ekki áberandi. Lundahæra er all skuggþolin. Hentar sem þekjandi undirgróður undir trjám og runnum, í beðjöðrum, við tjarnir og læki. Breiðist rólega út. Þrífst vel í rökum - meðalrökum jarðvegi. Þolin gagnvart breytilegu sýrustigi jarðvegs þó hún vaxi venjulega villt í súrum jarðvegi. Heimkynni Evrópa og SV-Asía.
Dvergavör ‘Atropurpurea’ – Ajuga reptans ‘Atropurpurea’
Harðgerð, alveg jarðlæg fjölær jurt. Laufið gljáandi, dökk-purpurarautt - brúnt. Hálf-sígræn. Blómin dökkfjólublá í uppréttum klasa. Blómgast á miðju sumri. Dreifir sér út með ofanjarðar-renglum. Skuggþolin. Prýðis þekjuplanta undir trjám og inn á milli runna og fjölæringa. Þrífst í allri venjulegri garðmold svo fremi að hún sé of þurr.
Valurt – Symphytum officinale
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð 60 - 100 sm. Stundum hærri. Stofnlauf stór, egglaga - lensulaga, langydd og með blaðstilk. Stöngulblöð aflöng - lensulaga og stilklaus. Stöngull hærður og vængjaður. Blómin sitja nokkur saman í kvíslskúf. Blómin fjólublá eða purpurarauð. Blómgast í júlí - ágúst. Valurt þrífst best í sæmilega rökum jarðvegi. Þolir nokkurn skugga. Hentar t.d. aftarlega í blómbeð, í villigarða og sem undirgróður undir stærri tré. Vex sums staðar sem slæðingur utan garða hérlendis. Valurt er gömul lækningajurt og þótti sérstaklega græðandi. Í dag er almennt varað við inntöku og annarri notkun valurtar vegna hættu á lifrarskemmdum. Heimkynni: Víða í Evrópu, V-Asíu á rökum svæðum.
Álfakollur – Betonica macrantha
Harðgerð, meðalhá, fjölær jurt. Hæð um 50 sm. Laufblöðin eru egglaga til hjartalaga og bogtennt. Blómin fjólublá í krönsum í júlí til ágúst. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Breiðir smám saman úr sér. Álfakollur fer vel í blönduðum beðum með öðrum fjölærum jurtum eða margir saman í breiðum. Millibil við gróðursetningu um 70 sm. Getur einnig vaxið hálfvilltur við litla umhirðu í frjóu landi. Eldra og þekktara fræðiheiti er Stachys macrantha. Heimkynni: Kákasus, NA-Tyrkland og NV-Íran.
Graslaukur – Allium schoenoprasum
Harðgerð, fjölær jurt. Hæð: 35- 40 sm. Blöð og blóm má nota í mat. Blöð eru gjarnan notuð í eggjakökur, súpur og í fisk- og kartöflurétti. Hálfopnuð blómin henta í salat til að gefa bragð og til skrauts. Blómgast rauðfjólubláum, blómum í kúlulaga blómskipun í júní sem innihalda mikið af blómasafa og eru því hentug sem fæðulind fyrir humlur og aðrar býflugur. Graslaukur vex upp af litlum laukum. Graslaukur er auðræktaður í allri venjulegri garðmold á sólríkum stöðum. Blandið gjarnan gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn við gróðursetningu. Einnig er tilvalið að setja moltu í kringum eldri plöntur að vori. Þó að graslaukur laði að hunangsflugur er hann almennt talinn fæla í burt ýmis skordýr sem sníkja á plöntum sökum brennisteinssambanda sem í honum eru. Er því gjarnan notaður t.d. inn á milli matjurta og annarra plantna til að fæla í burt sníkjudýr sem leggjast á mat- og skrautjurtir. Vex villtur víða í Evrópu, Asíu og N-Ameríku.