Vorbroddur ‘Kristinn’ – Berberis vernae ‘Kristinn’
Harðgerður, þéttur, sumargrænn, þyrnóttur runni. Hæð 1,5 – 2 m. Getur jafnvel orðið enn hærri á góðum stöðum með tímanum. Vöxturinn er nokkuð uppréttur framan af en síðan vaxa greinarnar út á við og drjúpa nokkuð í endana. Þyrnar hvassir og einfaldir utarlega á greinum en þrískiptir til sexskiptir neðar á greinunum. Laufblöðin sitja nokkur saman í búntum á greinunum, gjarnan átta talsins. Þau eru öfuglensulaga til spaðalaga, ávöl í endann eða snöggydd. Laufblöð eru því sem næst stilklaus. Blómin gul, smá, all mörg saman í drjúpandi, allt að 4,5 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Blómsæll. Aldinið smátt laxableikt, hnöttótt ber. Áberandi skærrauðgulir haustlitir.
Vorbroddur er sólelskur. Hann virðist vera sæmilega vind- og saltþolinn. Kelur stundum en nær sér fljótt aftur. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er blaut. Vorbroddur ‘Kristinn’ hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar eða í blönduð beð með um 80 – 100 sm millibili. Þolir vel klippingu en sé hann klipptur mikið blómstrar hann minna fyrir vikið. Klæðist skinnhönskum þegar þið meðhöndlið vorbrodd.
Yrkið er kennt við Kristinn Guðsteinsson sem bjó ásamt konu sinni við Hrísateig 6, Rvk. Móðurplöntuna hafði hann pantað og fengið senda frá gróðrarstöðinni Keeper’s Hill Nursery í Wimborne, Englandi árið 1959. Heimkynni: NV-Kína. Mítursætt (Berberidaceae).