Vorsópur ‘Allgold’ – Cytisus x praecox ‘Allgold’
Sæmilega harðgerður skrautrunni. Hæð um 1 m. Greinar sígrænar. Laufblöðin smá, silkihærð í fyrstu en lítt áberandi. Blómin eru dæmigerð ertublóm, ljósgul, ilmandi og þekja gjarnan runnann í júní og fram í júlí. Blómin eru ljósari samanborið við blóm geislasóps (C. purgans). Sólelskur. Niturbindandi. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi sem má vera blandaður sandi og möl. Þurrkþolinn.
Vorsópur ‘Allgold’ kelur gjarnan í greinaendana. Klippið kalið í burt á vorin (maí). Best er að klippa sópa með góðum skærum þar sem greinarnar eru svo þunnar. Vorsópur ‘Allgold’ fer vel í hleðslum, köntum og í blönduðum beðum í sæmulegu skjóli og á móti sól. Millibil: 80 sm.
Vorsópur er blendingur Cytisus multiflorus og geislasóps. Vorsópur er ekki eins harðgerður og geislasópur. Ertublómaætt (Fabaceae).