Yndisrós – Rosa ‘Yndisrós’
All harðgerð runnarós. Hæð: 1,5 m. Blómin lillableik, hálffyllt, meðalstór. Blómgast í júlí – ágúst. Laufið gljáandi, stakfjaðrað. Sprotar rauðir. Millibil: 80 sm.
Hentar í blönduð beð, raðir, þyrpingar og brekkur. Skríður talsvert út. Yndisrós er upprunanlega fræplanta úr Grasagarði Reykjavíkur. Hugsanlegt er að yndisrósin sé blönduð brúðurós (R. nitida). Yndisrósin verður stundum fyrir haustkali. Rósaætt (Rosaceae).
Vöruflokkur: Rósir
Tengdar plöntur
„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’
Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.
Fjallarós ‘Hellisgerði’ – R. pendulina ‘Hellisgerði’
Harðgerð, meðalhá runnarós. Blómin fremur smá, einföld, rauðbleik, ljósari nær miðju. Blómgast yfirleitt fyrst rósa hérlendis, gjarnan seinni part júní. Stundum aftur snemma hausts. Daufur ilmur. Rauðgulir haustlitir. Sólelsk en þolir hálfskugga. Fjallarós 'Hellisgerði' hentar stakstæð, fleiri saman eða í bland með öðrum gróðri.
Ígulrós ‘Logafold’ – Rosa rugosa ‘Logafold’
Rósin 'Logafold' er afrakstur rósakynbóta Jóhanns Pálssonar fyrrverandi garðyrkjustjóra Reykjavíkurborgar. 'Logafold' er harðgerð og þétt runnarós. Vind- og saltþolin enda af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, léttfyllt, fallega skálformuð, rauðfjólublá - bleik og ilmandi. Langur blómgunartími. Rauðar nýpur. Sólelsk en þolir hálfskugga. Hæð um 1,5 m. Framleidd og seld í Þöll á eigin rót. Hentar í blönduð beð, raðir og þyrpingar með um 80 sm millibili. Getur einnig vaxið "villt" í sumarhúsalöndum og þess háttar. 'Logafold' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar grasafræðings. Hún er afkomandi R. 'Charles Albanel x ?.
Ígulrós ‘Fönn’ – Rosa rugosa ‘Fönn’
Harðgerð, lágvaxin - meðalstór runnarós (1 - 1,5 m). Blómin stór, hálffyllt, snjóhvít og ilmandi. Fölbleik í knúpp. Rauðgular nýpur. Rauðgulir haustlitir. Aðeins skriðul. Sólelsk en þolir hálfskugga.. Vind- og saltþolin. 'Fönn' hentar í blönduð runnabeð, þyrpingar og raðir með 70 - 80 sm millibili. Einnig kjörin í sumarhúsalandið enda nægjusöm. Íslenskt yrki frá Jóhanni Pálssyni. Foreldar eru: R. rugosa ‘Logafold’ x R. rugosa ‘Schnee Eule’.
Ígulrós ‘Hadda’ – Rosa rugosa ‘Hadda’
Harðgerð runnarós. Vaxtarlagið útbreitt. Hefur því þekjandi eiginleika. Hæð: 1 - 1,5 m. Blómin stór, hálffyllt, rauðfjólublá og ilmandi. Er með fyrstu ígulrósum að byrja að blómstra á sumrin. Blómgast fram á haust. Rauðar, flathnöttóttar nýpur þroskast að hausti. Blaðstönglar og axlarblöð rauðleit. Gulbrúnir haustlitir. Sólelsk. Þrífst best í aðeins sendnum/grýttum og vel framræstum jarðvegi. Blandið lífrænu efni (búfjáráburði/moltu) saman við jarðveginn við gróðursetningu. 'Hadda' hentar í breiðuplantanir til að þekja yfirborð og sem jaðarplanta í trjábeðum. Einnig í blönduð runnabeð, brekkur og þess háttar. Rótarkerfið skríður lítið sem ekkert út. 'Hadda' er úr smiðju Jóhanns Pálssonar (1931 - 2023) og er blendingur R. rugosa 'Rotes Meer' x R. kamtschatica. Kennd við eiginkonu Jóhanns, Hrafnhildi Kristínu Jónsdóttur (1935 - 2023) sem gjarnan var kölluð Hadda.
Rós ‘Lísa’ – Rosa rugosa ‘Lísa’
Harðgerð, í meðallagi hávaxin runnarós (1 - 1,5 m). Blómin stór, hálffyllt - fyllt, bleik og ilmandi. Þroskar rauðar nýpur á haustin. Gulir - rauðgulir haustlitir. Skríður út með rótarskotum. 'Lísa' er íslenskt yrki valið úr efniviði sem hingað barst úr Alaska-leiðangrinum árið 1985. 'Lísa' ber þess öll merki að vera ígulrós (R. rugosa) eða ígulrósablendingur. Þrífst og blómstrar mest á sólríkum stað í vel framræstum, ekki of frjóum jarðvegi sem gjarnan má vera blandaður sandi og möl. Vind- og saltþolin. Hentar í raðir og þyrpingar, til að binda jarðveg í brekkum, villigarða og sumarbústaða-lönd. Millibil 80 - 100 sm.
Renglurós ‘Dart’s Defender’ – Rosa x rugotida ‘Dart’s Defender’
Harðgerð runnarós. Hæð: 1 - 1,5 m. Laufið áberandi gljáandi. Þéttþyrnótt. Blómin meðalstór, rauðfjólublá, hálffyllt og ilmandi. Blómstrar frá miðju sumri og fram á haust. Rauðgulir haustlitir. Þroskar gjarnan rauðar nýpur á haustin. Hentar í raðir og þyrpingar og í bland með öðrum runnum. Millibil um 1 m. Skríður eitthvað út með rótarskotum. 'Dart's Defender' er tegundablendingur hansarósar (R. rugosa 'Hansa') og brúðurósar (R. nidita). Hollenskt yrki frá árinu 1971.
Skáldarós ‘Frankfurt’ – Rosa x francofurtana ‘Frankfurt’
Fremur harðgerð runnarós. Þyrnalítil. Hæð 1 - 1,5 m. Sólelsk en þolir hálfskugga. Laufið matt. Blómin fremur stór, rauðbleik - purpurarauð, tvöfölld með gulum fræflum. Enginn eða lítill ilmur. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars og jafnvel fram á haust. Rauðar perulaga nýpur þroskast á haustin.
Þrífst vel í allri sæmilega frjósamri og vel framræstri ræktunarmold. Blandið moltu eða gömlu hrossataði við moldina við gróðursetningu. Ef jarðvegur er leirkenndur/þéttur blandið þá sandi eða fínnri möl við jarðveginn. Skríður eitthvað út með rótarskótum en ekki til ama. Klippið í burt kalnar greinar og krosslægjur seinni part vetrar eða snemma vors.
Skáldarós 'Frankfurt' hentar í blönduð rósa- og runnabeð. Einnig tilvalin í raðir og þyrpingar. Millibil tæpur 1 m. Gamalt yrki sem er þekkt frá Þýskalandi frá því á 16. öld. Talin blendingur gallarósar (R. gallica) og kanelrósar (R. majalis).