Showing all 3 results

Gljámispill / glansmispill / fagurlaufamispill – Cotoneaster lucidus

Harðgerður, þéttur, meðalstór runni. Laufið gljáandi, dökkgrænt - koparbrúnt. Skærrauðir haustlitir. Blómin smá, fölbleik. Aldinið svart ber sem situr á greinunum fram á vetur. Ein allra vinsælasti runninn í limgerði. Gróðursettar eru 3 stk/m. Þrífst best í fullri sól. Þolir þó hálfskugga. Almennt heilbrigður. Í meðallagi hraðvaxinn. Ekki nógu harðgerður á áveðurssömum stöðum t.d. við sjávarsíðuna. Þá henta t.d. strandavíðir (Salix phylicifolia 'Strandir'), jörfavíðir (Salix hookeriana) og alaskavíðir (Salix alaxensis) betur. Yfirleitt afgreiddur sem berrótar-plöntur sem gróðursettar eru að vori eða snemma sumars.

Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’

Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Laufið heilrennt og gljándi að ofan. Sprotar hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Sérbýll. Sólelskur. Fallegir karlreklar skreyta 'Gáska' á vorin. 'Gáski' hentar því einstaklega vel afskorinn í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi. 2-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri. 'Katla' er grófust og mest upprétt. 'Taða' er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. 'Töðu' þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu.

Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)

Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia 'Brekka'). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.