Showing all 3 results

Fjallarifs / Alparifs ‘Dima’ – Ribes alpinum ‘Dima’

Harðgerður, þéttur, fínlegur, heilbrigður, sumargrænn runni. Greinar og sprotar ljósbrúnir til ljósgráir. Brum ljós, nánast hvít. Laufblöðin eru þrjú- til fimmsepótt, grófsagtennt, nokkrir sentimetrar á lengd. Græn að ofan en ljós að neðan. Blóm gulgræn í stuttum klösum. Sérbýllt. Laufgast snemma eða í lok apríl - byrjun maí. All skuggþolið. Mest notað í klippt limgerði. Hæð: 1,5 - 1,7 m. Það má auðveldlega halda því lægra með klippingu. Venjulega eru settar niður þrjár plöntur á hvern metra. Fremur hægvaxta. Gulir haustlitir. Fjallarifs er mjög mikið gróðursett í limgerði hérlendis. Hentar víðast hvar í byggð hérlendis nema á mjög vindasömum stöðum t.d. við sjó á útnesjum. Þá hentar jörfavíðir, alaskavíðir og strandavíðir betur. 'Dima' er kvenkyns yrki sem reynst hefur vel. Getur þroskað rauð, bragðdauf ber á haustin. Því ekki ræktað sem berjarunni! Aðallega fáanlegt á vorin og fyrri part sumars sem berrótarplöntur. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Blandið gömlum búfjáráburði eða molti í jarðveginn áður eða þegar fjallarifs er gróðursett. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Heimkynni fjallarifs eru aðallega í Alpafjöllunum en einnig hér og þar í N- og V-Evrópu. Einnig sagt villt í N- og A-Asíu.

Gljámispill / glansmispill / fagurlaufamispill – Cotoneaster lucidus

Harðgerður, þéttur, meðalstór, sumargrænn runni. Hæð 1,5 - 2,2 m. Laufin egglaga, allt að 5 sm löng, gljáandi, dökkgræn - koparbrún. Lauf hærð á neðra borði í fyrstu. Skærrauðir haustlitir. Blómin smá, fölbleik. Aldinið svart ber (berepli) sem situr á greinunum fram á vetur. Einn allra vinsælasti runninn í limgerði. Yfirleitt eru gróðursettar 3 plöntur/m. Þrífst best í fullri sól. Þolir þó hálfskugga. Þrífst í öllum sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Blandið gömlum búfjáráburði eða moltu saman við jarðveginn fyrir gróðursetningu. Gljámispill er aðallega notaður í klippt limgerði enda þolir hann vel klippingu. Stundum ber þó á "átu" og skemmdum á laufi af völdum lirfa fyrri part sumars . Klippið hann jafnt og þétt og varist að klippa inn í gamlan við. Yfirleitt er gljámispill klipptur seinni part vetrar. Sumarklipping gæti þó verið heppilegri til að forðast sýkingu af völdum "átu". Í meðallagi hraðvaxinn eða hægvaxta. Ekki nógu harðgerður á áveðurssömum stöðum t.d. við sjávarsíðuna. Þá henta t.d. strandavíðir (Salix phylicifolia 'Strandir'), jörfavíðir (S. hookeriana) og alaskavíðir (S. alaxensis) betur. Yfirleitt afgreiddur sem berrótar-plöntur sem gróðursettar eru að vori eða snemma sumars. Heimkynni: Aðallega í Altai fjöllum í Asíu. Rósaætt (Rosaceae).

Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)

Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia 'Brekka'). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.