Showing 1–12 of 38 results

„Hansarós“ – Rosa rugosa ‘Hansa’

Harðgerð, meðalstór runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin stór, vel fyllt, rauðfjólblá og ilmandi. Blómgast frá því í júlí og eitthvað fram á haustið. Blómviljug. Þroskar lítið sem ekkert af nýpum. Rauðgulir haustlitir. Mjög algeng hérlendis. Mest notuð í raðir og þyrpingar. Hentar vel í limgerði sem ekki eru "stífklippt". Millibil um 80 sm. Vind- og saltþolin. Skríður eitthvað út sé hún á eigin rót. Stundum kölluð "Vestmannaeyjarós". Tvímælalaust algengasta rósin í íslenskum görðum. Ekki er óalgengt að ígulrósir (R. rugosa) séu í daglegu tali kallaðar "hansarósir" þó að í raun eigi það aðeins við um þetta tiltekna yrki af ígulrós. Gamalt hollenskt yrki.

Alaskaepli – Malus fusca

Harðgert, fremur hægvaxta, lágvaxið tré eða runni (3 - 6 m). Laufin eru 5 - 8 sm á lengd egglaga eða sporöskjulaga. Óreglulega flipótt og sagtennt. Blómin hvít, ilmandi í sveipum fyrri part sumars. Aldinið lítið gulgrænt - rauðleitt, ætt epli á stærð við vínber. Þroskar yfirleitt aldin á hverju ári. Rauðir haustlitir. Þolir vel klippingu. Stundum ber á rótarskotum. Þrífst í allri venjulegri, rakaheldinni garðmold. Blandið moltu eða gömlum búfjáráburði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Alaskaepli fer vel stakstætt eða fleiri saman með að minnsta kosti 2 m millibili. Alaskaepli hentar vel í klippt limgerði. Í limgerði er hæfilegt millibil um 70 sm. Greinar alaskaeplis eru harðar/stífar og dvergsprotar áberandi hvassir. Alaskaepli er harðgerðasta skrauteplið fyrir íslenskar aðstæður sem völ er á. Við framleiðum eingöngu alaskaepli af íslensku fræi. Aldin alaskaeplis má nýta í sultu- og hlaupgerð en þau eru rík af pektíni. Ekki er ósennilegt að alaskaepli nýtist sem frjógjafi fyrir matarepli (M. domestica) en erlendis er það þekkt að þar sem þessar tegundir vaxa saman mynda þær stundum blendinga (M. x dawsoniana).     Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríka allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex það gjarnan í deiglendi og nálægt ströndinni.

Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki

Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars.  Humlur sækja í reklana á vorin. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).

Alpareynir – Sorbus mougeotii

Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Ýmist ein- eða margstofna. Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Blóm hvít í hálfsveipum fyrri part sumars. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Berin endast gjarnan á trjánum langt fram á vetur ólíkt berjum flestra annarra reynitegunda. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (S. austriaca) og silfurreyni (S. intermedia). Á það til að sá sér út. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og V-Evrópu, þ.e.a.s. Pýreneafjöll, Alparnir og norður til Vosges-fjalla. Rósaætt (Rosaceae).

Baunatré – Caragana arborescens

Harðgerður runni eða lítið tré (1,5 - 2,5 m). Blómin smá, gul, ilmandi. Þau eru æt og má nota í salat. Aldinið belgur með nokkrum ætum baunum/fræjum. Sjóðið fræin áður en þeirra er neytt. Laufið er fjaðrað, mjög ljóst, nánast hvítt á vorin og fyrri part sumars en síðan áberandi gulgrænt. Axlarblöð lík þyrnum. Greinar grænleitar. Sólelskt. Hægvaxta. Lifir í sambýli við niturbinandi bakteríur. Baunatré gerir því litlar kröfur til jarðvegs. Baunatré sómir sér vel stakstætt í garðinum eða í blönduð beð með öðrum gróðri. Einnig má planta baunatré í klippt eða óklippt limgerði. Gengur einnig undir nöfnunum "síberískt baunatré" og "kergi". Náttúruleg heimkynni baunatrés er M-Asía.

Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens

Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.

Birkikvistur – Spiraea betulifolia

Mjög harðgerður, fremur lágvaxinn (1 m), þéttur runni. Blómin hvít í sveipum miðsumars. Rauðir haustlitir. Þolir hálfskugga. Vind- og saltþolinn. Hentar í potta, raðir og þyrpingar. Þolir vel klippingu. Klipptir birkikvistar blómstra minna en ella. Bil milli plantna ætti ekki að vera minna en 60 sm. Mjög algengur og vinsæll hérlendis. Þetta yrki gengur undir heitunum 'Birkikvistur', 'Ísland' og 'Island' og er fáanlegt víða í Evrópu.

Blátoppur ‘Rúnar’ – Lonicera caerulea ‘Rúnar’

Harðgerður, þéttur runni. Hæð 1,5 - 2,3 m. Laufin eru sporöskjulaga, heilrennd og mött. Laufgast gjarnan snemma í maí. Lauf skærgræn í fyrstu en dökk-blágræn þegar líður á sumarið. Haustlitur gulur - brúnn. Sprotar rauðleitir. Ungar greinar rauðbrúnar. Brumin gagnstæð og er það áberandi að þau sitja nokkur saman. Blómin eru gulgræn, tvö og tvö saman fyrri part sumars. Aldinið er dökkblátt ber. Blóm og aldin eru ekki áberandi. Berin eru ekki bragðgóð. Blátoppur er all skuggþolinn. Almennt heilbrigður. Þolir vel klippingu. Þetta yrki gæti verið 'Bergur'. Heimkynni: Kaldtempruð svæði í N-Ameríku, Evrópu og Asíu.

Blátoppur ‘Þokki’ – Lonicera caerulea ‘Þokki’

Mjög harðgerður, þéttur, fremur hægvaxta runni. Laufið blágrænt, gagnstætt. Blómin smá, gulgræn og lítið áberandi. Aldinið blátt ber. Ekki talin góð til átu. Blátoppur 'Þokki' er skuggþolinn. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og til uppfyllingar í skuggsæl horn og undir trjám. Lokar sér vel niður að jörð og heldur þannig niðri illgresi. Almennt heilbrigður. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm eða meir.

Blóðrifs ‘Færeyjar’ – Ribes sanguineum ‘Færeyjar’

Harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 1,8 m). Lauf handflipótt, mött. Blómin fölbleik í klösum í maí - júní. Þroskar sjaldan ber. Gulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Blóðrifs 'Færeyjar' hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vinsælt í limgerði í Færeyjum. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Barst hingað frá Færeyjum en blóðrifs er annars ættað frá vestanverðri N-Ameríku.

Döglingskvistur – Spiraea douglasii

Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.

Dúntoppur – Lonicera xylosteum

Harðgerður, þéttur, meðalhár - hávaxinn runni (1,5 - 3,0 m). Blómin smá, fölgul, tvö og tvö saman. Rauð, óæt, samvaxin ber þroskast á haustin. Laufið dúnhært. Gulir haustlitir. Skuggþolinn. Heilbrigður. Dúntoppur hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig tilvalinn í skuggsæl horn. Þolir vel klippingu og hentar því í limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Sæmilega vind- og saltþolinn. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Berin eru eitruð en ekki hættuleg. Heimkynni: Víða í Evrópu, N-Tyrkland og V-Síbería.