Showing 37–48 of 53 results

Rós ‘Lykkefund’ – Rosa ‘Lykkefund’

Klifurrós. Hæð 2 - 3 m eða meir á góðum stað. Laufið stakfjaðrað, gljáandi. Nánast þyrnalaus. Blómin meðalstór, rjómahvít, hálffyllt, ilmandi í klösum. Þvermál blóma 3 - 5 sm. Blómin eru ljósbleik í knúpp. Gulir fræflar. Blómstrar hérlendis aðallega í ágúst og fram í september. Getur þó byrjað að blómstra í júlí í góðu árferði. Þarf gott skjól og sólríkan stað helst upp við húsvegg til að þrífast. Gróðursetjið 'Lykkefund' við klifurgrind eða styðjið hana á annan hátt. 'Lykkefund' er seld ágrædd. Gróðursetjið djúpt þannig að ágræðslan fari 10 sm undir jarðvegsyfirborðið. Það er mjög mikilvægt til að tryggja að rósin lifi af veturinn. Gróðursetjið í frjóan, vel framræstan jarðveg blandaðan sandi og lífrænu efni (búfjáráburður/molta). Berið tilbúinn áburð í kringum rósina í lok maí og lok júní. Gott er að setja lag af moltu í rósabeðið annað hvert ár. Klippið í burt kalnar greinar á vorin eða snemma sumars. Greinar sem ekki standa undir sér eru festar á klifurgrind, bundnar upp á prik eða klipptar burt. Danskt yrki frá Aksel Olsen frá árinu 1930. Sögð vaxin upp af fræi af helenurós (R. helenae) sem ættuð er frá Kína en frjóvguð af  "bourbon" rósinni, R. 'Charles Bonnet'/'Zephirine Drouhin'. Rósaætt (Rosaceae).

Rós ‘Max Graf’ – Rosa ‘Max Graf’

All harðgerð, jarðlæg, þekjurós. Laufið fínlegt, gljándi, stakfjaðrað. Blómin bleik, einföld með daufum ilm. Sólelsk. Fer best í hleðslum, steinhæðum og þess háttar á móti sól.

Rós ‘Morden Sunrise’ – Rosa ‘Morden Sunrise’

Lágvaxin runnarós. Hæð um 80 sm. Laufin eru þrífingruð eða stakfjöðruð, tennt og gljáandi. Blómin eru rauðgul í knúpp. Útsprungin eru þau tvöfölld, ilmandi og í fyrstu rauðgul síðan gul og loks fölgul. Blómgast síðsumars. Sólelsk. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi á skjólsælum stað. Setjið gamalt hrossatað eða moltu í holuna við gróðursetningu. Berið tilbúinn áburð eða vökvið með áburðarvatni einu sinni eða tvisvar árlega eftir það í lok maí og aftur í lok júní. Úr smiðju L. M. Collicutt og C. G. Davidson, Kanada frá árinu 1991. Hefur reynst vel hérlendis í skjólgóðum görðum. Rósaætt (Rosaceae).

Rós ‘Mrs John McNab’ – Rosa ‘Mrs John McNab’

All harðgerður eða harðgerður ígulrósablendingur. Blómin eru fyllt, fölbleik og ilmandi. Blómgast upp úr miðju sumri. Runnarós. Hæð: 1,5 m. Sólelsk. Úr smiðju Skinner, Kanada, 1941.

Rós ‘Örträsk’ – Rosa ‘Örträsk’ / ‘Örtelius’

Harðgerð, meðalhá runnarós (1,5 - 2,0 m). Talin blendingur ígulrósar (R. rugosa) og kanelrósar (R. majalis). Dreifir sér nokkuð út með rótarskotum. Blómin stór, hálffyllt, bleik og ilmandi. Blómgast frá miðju sumri og fram í frost. Þroskar rauðar nýpur sem má nýta til manneldis. Sólelsk en þolir vel hálfskugga. Millibil 1 m. Hentar stakstæð, í blönduð beð, raðir og þyrpingar. Ættuð frá Lapplandi. Rósaætt (Rosaceae).

Rós ‘Prairie Dawn’ – Rosa ‘Prairie Dawn’ – ‘Prairie Dawn’

Frekar harðgerð, meðalstór runnarós, allt að 2 m há. Blómin bleik, hálffyllt. Ilmur daufur. Blómgast síðsumars. Sólelsk. Þarf eitthvert skjól.

Rós ‘Ristinummi’ (járnbrautarrósin) – Rosa ‘Ristinummi’

Harðgerður, þéttur, meðalstór runni. Laufið stakfjaðrað. Blómin stór, einföld, fölbleik, daufur ilmur. Krónublöðin eru gulleit neðst. Blómgast í júlí og ágúst. Rauðar nýpur. Rauðgulir haustlitir. Vaxtarlagið hvelft. Sólelsk. Blómgast mest í sæmilega frjóum vel framræstum, aðeins sendnum eða grýttum jarðvegi í fullri sól. Járnbrautarrósin sómir sér vel í blönduðum runnabeðum, röðum og þyrpingum með tæplega 1 m millibili. Hentar í villigarða og sumarhúsalóðir. Talin vind- og saltþolin. Skríður ekki mikið út með rótarskotum. 'Ristinummi' er að öllum líkindum blendingur ígulrósar (R. rugosa) og þyrnirósar (R. pimpinellifolia). Kennd við bæinn Ristinummi í Finnlandi þar sem Peter Joy fann hana við járnbrautarstöðina í bænum í kringum árið 1996.

Rós ‘Ritausma’ – Rosa ‘Ritausma’

Harðgerð runnarós af ígulrósakyni (R. rugosa). Blómin eru stór, fyllt, ilmandi, skærbleik nær miðju en nánast hvít yst. Blómsæl. Byrjar að blómgast í júlí og heldur áfram fram á haust. Þroskar ekki nýpur. Heilbrigð. Hæð um 1,5 m. Mjög þyrnótt. Sólelsk. Gulir haustlitir. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Má gjarnan vera malar- og/eða sandborinn. Hentar í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Einnig í blönduð runnabeð og blómabeð og jafnvel stakstæð. 'Ritausma' er úr smiðju Dr. Dz. Rieksta frá Lettlandi frá árinu 1963. 'Ritausma' hefur náð talsverðum vinsældum hérlendis hin síðari ár. Gengur einnig undir nafninu 'Polar Ice' eða 'Polareis'. Rósaætt (Rosaceae).

Rós ‘Rote Max Graf’ – Rosa ‘Rote Max Graf’

Jarðlæg, þekjandi rós. Blómin meðalstór, rauð. Takmörkuð reynsla. Sólelsk.

Rós ‘Schneekoppe’ – Rosa rugosa ‘Schneekoppe’

Harðgerð lágvaxin - meðalhá runnarós (1 - 1,5 m). Blöðin fremur mött, stakfjöðruð, ljósgræn. Talsvert þyrnótt. Blómin stór, fyllt, föl-lillableik - hvít, ilmandi, ögn drjúpandi (rósirnar þungar). Þroskar lítið eða ekki nýpur. Gulir haustlitir. Sólelsk. 'Schneekoppe' hentar í blönduð runna- og rósabeð, raðir, þyrpingar, ker, villigarða og sumarhúsalóðir. All vind- og saltþolin. Millibil 80 - 100 sm. Úr smiðju Karl Baum, Þýskalandi.

Rós ‘Skotta’ – Rosa ‘Skotta’

Harðgerður, lágvaxinn - meðalstór runni (1 - 1,5 m). Sólelsk. Blómin bleik, vel fyllt og ilmandi. Skríður talsvert út með rótarskotum. Engar nýpur. Laufið ljósgrænt, stakfjaðrað og matt. Gulir haustlitir. Þrífst í sæmilega frjóum, framræstum jarðvegi. Má vera ögn grýttur og malarborinn. Hentar í runnaþyrpingar, raðir, opin svæði, villigarða og þess háttar. Millibil um 80 - 100 sm. Mjög blómsæl. Blómgast frá miðju sumri og fram á haust. Algeng í íslenskum görðum. Hefur í gegnum tíðina verið ranglega seld undir heitunum 'Betty Bland', 'Wasagaming', 'George Will' og þokkarós. 'Skotta' óx upp af fræi í Grasagarði Reykjavíkur árið 1965. Fræið kom frá grasagarðinum í Wageningen í Hollandi.

Skáldarós ‘Frankfurt’ – Rosa x francofurtana ‘Frankfurt’

Fremur harðgerð runnarós. Þyrnalítil. Hæð 1 - 1,5 m. Sólelsk en þolir hálfskugga. Laufið matt. Blómin fremur stór, rauðbleik - purpurarauð, tvöfölld með gulum fræflum. Enginn eða lítill ilmur. Blómgast í nokkrar vikur síðsumars og jafnvel fram á haust. Rauðar perulaga nýpur þroskast á haustin. Þrífst vel í allri sæmilega frjósamri og vel framræstri ræktunarmold. Blandið moltu eða gömlu hrossataði við moldina við gróðursetningu. Ef jarðvegur er leirkenndur/þéttur blandið þá sandi eða fínnri möl við jarðveginn. Skríður eitthvað út með rótarskótum en ekki til ama. Klippið í burt kalnar greinar og krosslægjur seinni part vetrar eða snemma vors. Skáldarós 'Frankfurt' hentar í blönduð rósa- og runnabeð. Einnig tilvalin í raðir og þyrpingar. Millibil tæpur 1 m. Gamalt yrki sem er þekkt frá Þýskalandi frá því á 16. öld. Talin blendingur gallarósar (R. gallica) og kanelrósar (R. majalis).