Showing 121–132 of 139 results

Surtartoppur / Svarttoppur – Lonicera nigra

Harðgerður, þéttur, meðalstór runni (1,5 - 2 m). Laufin eru mött og sitja gagnstætt á greinunum. Laufið gjarnan rauðbrúnleitt fyrst á vorin. Laufgast fremur snemma á vorin. Blómin smá, hvít - ljósbleik. Aldinið svart, óætt ber sem þroskast í ágúst. Blómin og berin sitja tvö og tvö saman. Skuggþolinn. Heilbrigður. Haustlitir ekki áberandi. Surtartoppur hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vex best í frjórri garðmold. Millibil í limgerði um 50 sm. Millibil í blandað runnabeð um 80 - 100 sm. Heimkynni: Fjallendi Mið- og Suður-Evrópu.

Svartyllir – Sambucus nigra

All harðgerður runni. Hæð: 2 - 4 m. Grófgreinóttur. Brum gagnstæð. Blöðin stakfjöðruð, græn. Blómin hvít, mörg saman í stórum sveipum síðsumars (ágúst). Berin svört fullþroskuð en svartyllir dregur nafn sitt af liti berjanna. Svartyllir nær ekki að þroska ber utandyra hérlendis. Blómin má nýta í svaladrykk. Skuggþolinn en blómgast betur í sól. Þrífst vel í venjulegri, ekki of þurri garðmold. Þrífst vel í grónum görðum á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Millibil: 1 m eða meir. Í seinni tíð hafa komið fram yrki af svartylli með rauðbrúnum/purpurarauðum laufum og bleikum blómum eins og 'Black Lace' og 'Black Tower'. Okkur í Þöll hefur tekist að láta íslenskt fræ spíra þrátt fyrir að berin séu ekki fullþroska. Fræið er að runnum við íþróttahúsið Strandgötu, Hfj og úr garði á Flötunum, Gbæ. Tvö yrki hafa verið valin úr fræplöntunum. Annað er 'Amma Dóra' og hitt 'Afi Tóti'. Yrkin eru kennd við hjónin Halldóru Halldórsdóttur og Þórólf Þorgrímsson sem eru fædd árið 1928 og hafa verið dyggir styrktaraðilar Skógræktarfélags Hfj í gegnum tíðina ásamt því að vera foreldrar Árna, Gunnars og Halldórs sem allir hafa unnið mikið fyrir félagið og Þöll. Heimkynni svartyllis eru í Evrópu þó ekki allra nyrst.

Svartyllir ‘Black Beauty’ – Sambucus nigra ‘Black Beauty’

Sæmilega harðgerður lauffellandi skrautrunni. Hæð 1,5 - 2 m. Getur ef til vill orðið hærri á góðum stöðum hérlendis. Laufin vínrauð - rauðbrún, stakfjöðruð. Blómin ilmandi, fölbleik, smá, mörg saman í sveip í lok júlí eða ágúst. Haustkelur gjarnan. Þolir vel klippingu. Sólelskur. Í skugga verða laufin grænni en ella. Svatyllir þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Blandið moltu eða gömlu hrossataði saman við jarðveginn við gróðursetningu. Svartyllir 'Black Beauty' fer vel í blönduðum beðum með runnum og jurtum. Millibil 1 m eða meir. Yllisætt (Adoxaceae).

Svartyllir ‘Black Lace’ – Sambucus nigra ‘Black Lace’

Frekar viðkvæmur runni. Hæð: 1,5 - 3,0 m. Laufið tvífjaðrað, dökk-purpurarautt. Blómin ljósbleik í sveip síðsumars. Þroskar ekki aldin hérlendis. Þrífst best í sól en þolir hálfskugga. Verður yfirleitt fyrir haustkali. Þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar aftarlega í blönduð beð innan um ljósari gróður. Einnig sem stakstæður. Millibil um 1 m eða meir.

Svartyllir ‘Black Tower’ – Sambucus nigra ‘Black Tower’

Hægvaxta, súlulaga runni/smátré. Hæð allt að 2 m. Laufið dökkvínrautt - brúnt, stakfjaðrað. Fölbleikir blómsveipir síðsumars. Þarf skjól. Þolir hálfskugga. Takmörkuð reynsla. Þrífst í frjórri garðmold. Fer best í blönduðum runna- og fjölæringabeðum eða í kerjum/pottum.

Sveighyrnir ‘Flaviramea’ – Cornus sericea ‘Flaviramea’

Fremur viðkvæmur, sumargrænn skrautrunni. Hæð hérlendis um 1 - 1,5 m og álíka á breidd. Laufin gagnstæð og egglaga. Ungar greinar og sprotar áberandi gulgrænir. Hætt við kali. Sólelskur er þolir hálfskugga. Laufin haldast græn fram eftir hausti. Stundum sjást rauðir haustlitir í otkóber. Blómgast stundum ljósum, smáum blómum í sveip fyrri part sumars. Þroskar tæplega ber. Þrífst í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi í þokkalegur skjóli. Sveighyrnir 'Flaviramea' hentar í blönduð beð með öðrum runnum og fjölæringum. Aðallega ræktaður sökum barkarlitarins sem blasir við á veturna og fram á vor þar sem sveighyrnir laufgast ekki fyrr en í júní. Ekki eins og harðgerður og sveighyrnir 'Roði'. Skollabersætt (Cornaceae).

Sveighyrnir ‘Roði’ – Cornus sericea ‘Roði’

Fremur harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 2,2 m). Blöð gagnstæð, egglaga. Rauður haustlitir. Litlir hvítir blómsveipir snemmsumars. Hvít - ljósblá ber þroskast í kjölfarið. Sprotar og ungar greinar rauðar. Sólelskur en þolir hálfskugga. Þrífst best í sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Í sínum heimkynnum vex sveighyrnir gjarnan í deigu eða jafnvel blautu landi. Sé runninn óklipptur sveigjast greinarnar með tímanum niður og slá rótum. Til að örva myndun nýrra rauðra sprota er tilvalið að klippa í burt eldri greinar alveg niður við jörð seinni part vetrar. Eldri greinar eiga það til að sveigjast niður og slá rótum. Sveighyrnir fer vel í blönduðum runna- og blómabeðum en einnig í nokkrir saman í röðum og þyrpingum með um 80 - 100 sm millibili. Hentar einnig í hefðbundin limgerði með um 50 sm millibili. Ekki síður skrautlegur á veturna vegna rauða barkarlitarins samanborið við á sumrin. Yrkið 'Roði' er úrvalsyrki sem barst hingað með efnivið frá Alaska þegar Óli Valur Hansson og félagar fóru þangað í söfnunarferð haustið 1985. Náttúruleg heimkynni sveighyrnis eru auk Alaska, Kanada og norðanverð Bandaríkin þvert yfir meginland N-Ameríku.

Sveigsýrena ‘Agnes Smith’ – Syringa x josiflexa ‘Agnes Smith’ (hvít)

All harðgerður, hægvaxta meðalhár - hávaxinn runni (2 - 3 m). Laufið ljósgrænt, gagnstætt. Gulir haustlitir. Blómin snjóhvít í uppréttum, keilulaga klasa, ilmandi. Blómgast miðsumars (júní - júlí). Falleg stakstæð eða í bland með öðrum runnum og blómum með um 1 m millibili. Kettir sækja mjög í sveigsýrenu 'Agnes Smith'. Því verður að verja hana fyrstu árin gegn ágangi katta með t.d. hænsnaneti eða einhverju þess háttar. Þolir hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold.

Sýrena ‘Bríet’ – Syringa ‘Bríet’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré. Hæð 4 - 5 m. Laufgast seinna en aðrar sýrenur og verður því ekki fyrir "vor-kvefi". Laufið er einnig smærra en á flestum öðrum sýrenum sem hér eru í ræktun. Blómin eru mörg saman í klasa, laxableik og ilmandi. Blómgast í júlí. Þolir vel hálfskugga. Móðurplantan stendur við hús nr. 69 í Bergstaðastræti í Reykjavík. Ekki er vitað hvaða tegund eða tegundarblendingur er hér á ferðinni. Stórvaxnasta sýrenan sem hér er í ræktun. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Sýrena 'Bríet' hentar stakstæð, í raðir, þyrpingar og blönduð runna- og blómabeð. Gæti jafnvel hentað í skjólbelti. Millibil að minnsta kosti 1,5 m. Yrkið er kennt við Bríet Bjarnhéðinsdóttur (1856 - 1940).

Sýrena ‘Hallveig’ – Syringa ‘Hallveig’

Harðgerður, fremur stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 2 - 3 m. Laufin sitja gagnstætt á greinunum. Þau eru oddbaugótt - lensulaga. Ung lauf áberandi rauðbrún. Ungir sprotar eru áberandi dökkir. Óútsprungnir blómklasar dökk-fjólubláir. Útsprungin eru blómin lillableik og ilma. Byrjar að blómstra fyrr en aðrar sýrenur hérlendis eða seinni part júní eða í byrjun júlí. Blómviljug. Upprunanlega móðurplantan var gróðursett í Hallargarðinn við Lækjargötu í Rvk í kringum árið 1985. Hún hafði komið upp af fræi frá Milde grasagarðinum í Bergen, Noregi árið 1981. 'Hallveig' líkast helst gljásýrenu (S. josikaea) og er trúlega blendingur hennar. 'Hallveig' er því íslenskt úrvalsyrki valin af yrkisnefnd Yndisgróðurs árið 2013 og skýrð í höfuðið á Hallveigu Fróðadóttur eiginkonu landnámsmannsins Ingólfs Arnarsonar. Þrífst í allri sæmilega frjórri garðmold. Sólelsk en þolir hálfskugga.  'Hallveig' hentar stakstæð, aftarlega í beðum í bland með öðrum gróðri, í þyrpingar og raðir og í skjólbelti með um 1,5 - 2 m millibili. Þolir ágætlega klippingu. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Sýrena ‘Villa Nova’ – Syringa ‘Villa Nova’

Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Blómin fjólubleik, mörg saman í stórum klasa, ilmandi. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Ein allra besta sýrenan. Fer vel stakstæð, aftarlega í blönduðum runna- og blómabeðum eða fleiri saman í þyrpingum eða röðum. Millibil 2 m. Ekki er nákvæmlega vitað um uppruna þessa yrkis. Sýrenan mun vera kennd við Vilhjálm Sigtryggsson fyrrverandi framkvæmdastjóra Skógræktarfélags Reykjavíkur.

Úlfareynir – Sorbus x hostii

Harðgert lágvaxið tré - hávaxinn runni (2,5 - 5 m, stundum hærri). Blöðin gljáandi á efra borði, gráloðin á því neðra. Blómin bleik í sveipum fyrri part sumars. Rauð reyniber í klösum þroskast á haustin. Fljótlega étin upp af fuglum. Gulir - rauðir haustlitir. Vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Fer vel stakstæður eða í bland með öðrum gróðri. Má einnig nota í limgerði. Í limgerði er hæfilegt bil 50 - 70 sm. Annars er 1,5 - 2 m bil hæfilegt. Klippið helst á sumrin til að forðast reyniátu. Úlfareynir er algengur í íslenskum görðum. Berin eru ekki römm og stundum notuð til manneldis. Úlfareynir er talinn vera náttúrulegur tegundablendingur á milli blikreynis (S. chamaemespilus) og alpareynis (S. mougeotii) og finnst eins og móðurtegundirnar í fjalllendi M-Evrópu.