Showing 133–138 of 138 results

Vesturbæjarvíðir – Salix x smithiana – Ytri Skógum

Vesturbæjarvíðir er all hraðvaxið tré eða runni. Kelur þó yfirleitt (haustkal). Verður því mjög gjarnan kræklóttur. Hentar því einungis í þokkalega hlýjum sveitum og skjólgóðum görðum. Gjarnan álíka breiður og hann er hár. Hæð: 6 - 8 m. Laufið er lensulaga, grágrænt. Sólelskur. Grænn fram á haust. Þolir vel klippingu. Stundum ber á vörtum í laufi af völdum sagvespu (Euura bridgmanii). Um er að ræða klónaðar plöntur af tréi ársins 2018 sem stendur að Ytri Skógum undir Eyjafjöllum. Notaður stakstæður, í raðir, þyrpingar og jafnvel í limgerði. Vesturbæjarvíðir https://www.skogur.is/is/um-skograektina/frettir-og-vidburdir/frettir-og-pistlar/vesturbaejarvidir-er-tre-arsins

Vorbroddur ‘Kristinn’ – Berberis vernae ‘Kristinn’

Harðgerður, þéttur, sumargrænn, þyrnóttur runni. Hæð 1,5 - 2 m. Getur jafnvel orðið enn hærri á góðum stöðum með tímanum. Vöxturinn er nokkuð uppréttur framan af en síðan vaxa greinarnar út á við og drjúpa nokkuð í endana. Þyrnar hvassir og einfaldir utarlega á greinum en þrískiptir til sexskiptir neðar á greinunum. Laufblöðin sitja nokkur saman í búntum á greinunum, gjarnan átta talsins. Þau eru öfuglensulaga til spaðalaga, ávöl í endann eða snöggydd. Laufblöð eru því sem næst stilklaus. Blómin gul, smá, all mörg saman í drjúpandi, allt að 4,5 sm löngum klösum í júní og fram í júlí. Blómsæll. Aldinið smátt laxableikt, hnöttótt ber. Áberandi skærrauðgulir haustlitir. Vorbroddur er sólelskur. Hann virðist vera sæmilega vind- og saltþolinn. Kelur stundum en nær sér fljótt aftur. Þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er blaut. Vorbroddur 'Kristinn' hentar stakstæður, í raðir og þyrpingar eða í blönduð beð með um 80 - 100 sm millibili. Þolir vel klippingu en sé hann klipptur mikið blómstrar hann minna fyrir vikið. Klæðist skinnhönskum þegar þið meðhöndlið vorbrodd. Yrkið er kennt við Kristinn Guðsteinsson sem bjó ásamt konu sinni við Hrísateig 6, Rvk. Móðurplöntuna hafði hann pantað og fengið senda frá gróðrarstöðinni Keeper's Hill Nursery í Wimborne, Englandi árið 1959. Heimkynni: NV-Kína. Mítursætt (Berberidaceae).

Vorsópur ‘Allgold’ – Cytisus x praecox ‘Allgold’

Sæmilega harðgerður skrautrunni. Hæð um 1 m. Greinar sígrænar. Laufblöðin smá, silkihærð í fyrstu en lítt áberandi. Blómin eru dæmigerð ertublóm, ljósgul, ilmandi og þekja gjarnan runnann í júní og fram í júlí. Blómin eru ljósari samanborið við blóm geislasóps (C. purgans). Sólelskur. Niturbindandi. Þrífst best í vel framræstum jarðvegi sem má vera blandaður sandi og möl. Þurrkþolinn. Vorsópur 'Allgold' kelur gjarnan í greinaendana. Klippið kalið í burt á vorin (maí). Best er að klippa sópa með góðum skærum þar sem greinarnar eru svo þunnar. Vorsópur 'Allgold' fer vel í hleðslum, köntum og í blönduðum beðum í sæmulegu skjóli og á móti sól. Millibil: 80 sm. Vorsópur er blendingur Cytisus multiflorus og geislasóps. Vorsópur er ekki eins harðgerður og geislasópur. Ertublómaætt (Fabaceae).

Þingvíðir – Salix viminalis ‘Þingvíðir’

All harðgerður stórvaxinn, hraðvaxta runni eða lítið tré. Hæð: 3 - 8 m. Greinar ólívugrænar. Sprotar rauðbrúnir. Blöð 10 - 15 sm og 2 - 3 sm á breidd og íbjúg. Silkihærð á neðra borði. Gulir haustlitir.  Sólelskur. Reklar fremur smáir. Birtast snemma (feb. - mars). Þingvíðir þrífst í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þingvíðir hentar stakstæður og í raðir og þyrpingar. Millibil 1 - 2 m. Þolir vel klippingu. Sagt er að um aldamótin 1900 hafi Tryggvi Gunnarsson (1835 - 1917) plantað þingvíði í garðinn við Alþingishúsið en Tryggvi bjó þann garð til og sinnti honum einkar vel á efri árum. Ekki er vitað hvaðan eða hvernig þingvíðirinn barst til landsins. Í páskahretinu 1963 dó mikið af þingvíði á sunnan og vestanverðu landinu en á þeim tíma var hann algengur í ræktun. Í dag finnast stöku runnar hér og þar í görðum og skógarreitum um mest allt land. Jóhann Pálsson grasafræðingur telur þennan körfuvíðiklón ættaðan frá norðanverðum Úralfjöllum eða N-Síberíu.

Þokkasýrena ‘Julia’ – Syringa x henryi ‘Julia’

Harðgerður, hávaxinn runni. Hæð 3 - 4 m. Blómin í stórum, keilulaga, klösum, fjólubleik í knúpp, bleik útsprungin. Blómstrar á miðju sumri. Ilmandi. Þokkasýrena 'Julia' þrífst í allri venjulegri garðmold. Blómgast mest í fullri sól en þolir vel hálfskugga. Hentar stakstæð, í blönduð beð, raðir og þyrpingar með allt að 1 m millibili. Finnskt yrki. Líkist fagursýrenu 'Elinor' í útliti en byrjar aðeins fyrr að blómgast eða seinni part júní.

Þorrarunni ‘Dawn’ – Viburnum x bodnantense ‘Dawn’

Sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Ung lauf bronslituð. Þorrarunni blómgast að vetri til eða réttara sagt hann getur blómgast frá hausti og fram á vor. Blómin eru rauð í knúpp en bleik útsprungin mörg saman í sveip, ilmandi. Þolir vel hálfskugga. Þorrarunni er glæsilegur stakstæður en einnig fleiri saman í þyrpingu með um 1 m millibili. Þorrarunni virðist harðgerður á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fremur sjaldgæfur í ræktun enn sem komið er.