Showing 13–24 of 138 results

Blóðrifs ‘Færeyjar’ – Ribes sanguineum ‘Færeyjar’

Harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 1,8 m). Lauf handflipótt, mött. Blómin fölbleik í klösum í maí - júní. Þroskar sjaldan ber. Gulir haustlitir. Þolir vel hálfskugga. Blóðrifs 'Færeyjar' hentar í raðir, þyrpingar og limgerði. Þolir vel klippingu. Vinsælt í limgerði í Færeyjum. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Barst hingað frá Færeyjum en blóðrifs er annars ættað frá vestanverðri N-Ameríku.

Blóðrifs ‘Svanur’ – Ribes sanguineum ‘Svanur’

All harðgerður, meðalstór runnir (1,5 - 2,5 m). Rauðir blómklasar snemmsumars (júní). Laufið handsepótt. Stundum þroskast blá, æt ber í kjölfarið. Gulir - rauðgulir haustlitir. Þolir hálfskugga. Þrífst vel í venjulegri garðmold í þokkalegu skjóli. Mjög áberandi í blóma. Móðurplantan er í garði Svans Pálssonar og Línu, Háukinn, Hfj. Blóðrifs 'Svanur' fer vel í blönduðum beðum með öðrum runnum og fjölærum jurtum. Hentar einnig í raðir og þyrpingar með um 1 m millibili. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Ekki eins harðgert og blóðrifs 'Færeyjar'. Hugsanlegt er að blóðrifs 'Svanur' sé í raun yrkið 'King Edward VII' en móðurplantan í garði Svans og Línu var á sínum tíma fengin gróðrarstöð Skógræktarfélags Rvk, Fossvogi. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).

Bogkvistur – Spiraea veitchii – Kristinn Guðsteinsson

Stórvaxinn (3 m) , þokkalega harðgerður runni. Blómin hvít í stórum sveipum. Blómgast síðsumars. Greinarnar vaxa í sveig. Þolir hálfskugga. Fer best stakstæður en hentar einnig í raðir, þyrpingar og blönduð beð. Gulir - rauðgulir haustlitir.

Bogsýrena – S. komarowii ssp. reflexa ‘Hólmfríður’

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin fyrst lillableik en síðan bleik í drjúpandi klösum, ilmandi. Blómgast miðsumars (júlí). Móðurtréið stendur í garðinum að Skúlaskeiði 32, Hafnarfirði þar sem Hólmfríður Finnbogadóttir og Reynir Jóhannsson bjuggu lengst af. Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar ehf.

Bogsýrena ‘Mjallhvít’ – Syringa komarowii subsp. reflexa ‘Mjallhvít’

Harðgerður, stórvaxinn, sumargrænn runni. Hæð 3 - 4,5 m. Laufblöðin eru oddbaugótt og heilrennd og sitja gagnstætt á greinunum. Lengd laufblaða gjarnan í kringum 15 sm. Blómin holdlituð í knúpp en hvít útsprungin, í stórum (20 sm), aflöngum, drjúpandi klösum miðsumars. Ilmar. Móðurplantan er í garði við Skerseyrarveg í Hafnarfiði og er greinilega margra áratuga gömul. Ekkert er nánar vitað um uppruna hennar. Blómstrar sum ár mjög mikið og önnur minna. Þrífst í allri sæmilega frjórri, framræstri garðmold. Blómgast mest í fullri sól. Bogsýrena 'Mjallhvít' hentar stakstæð, í raðir og þyrpingar, sem skraut í skógarlundi og í bland með öðrum runnagróðri. Millibil í upphafi 1 - 1,5 m. Náttúruleg heimkynni bogsýrenu eru í fjalllendi M-Kína. Smjörviðarætt (Oleaceae).

Demantsvíðir ‘Flesja’ – S. pulchra ‘Flesja’

Harðgerður, alveg jarðlægur runni. Litlir gráloðnir reklar birtast jafnvel á miðjum vetri. Laufið ljósgrænt, heilrennt og gljáandi. Axlarblöð áberandi. Gulir haustlitir í september - október. Visin lauf sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Hentar í hleðslur, kanta, ker o.þ.h. Sólelskur. Hentar því ekki sem undirgróður. Nægjusamur hvað varðar jarðveg. Úrvalsyrki úr Alaskaferð Óla Vals og félaga 1985. Heimkynni tegundarinnar eru auk Alaska í Kanada og Rússlandi.

Demantsvíðir ‘Kodiak’ – Salix pulchra ‘Kodiak’

All harðgerður, þéttur runni. Hæð um 1,5 m. Greinar og sprotar áberandi rauðbrúnar. Laufin eru sporöskjulaga - lensulaga, hárlaus, ydd og gljáandi á efra borði. Blágræn á því neðra. Stöku lauf sitja á runnanum allan veturinn. Það á sama á við um axlarblöðin sem eru mjó og nokkrir millimetrar á lengd. Silfur-loðnir reklar birtast seinni part vetrar (feb/mars). Sólelskur. Demantsvíðir þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Hentar í runnaþyrpingar einn og sér eða í bland með öðrum tegundum. Hentar sjálfsagt í lægri limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Yrkinu 'Kodiak' var safnað á Kodiakeyju við Alaska í leiðangri Ólafar S. Njálssonar, Nátthaga og Pers í Mörk árið 1994. Heimkynni demantsvíðis eru auk Alaska, NV-Kanada og NA-Rússland. Víðisætt (Salicaceae).

Döglingskvistur – Spiraea douglasii

Harðgerður, þéttur runni. Hæð rúmlega 1 m. Blómin fjólubleik í uppréttum klösum síðsumars (ágúst - september). Virðast loðin þar sem fræflarnir standa út fyrir blómskipunina. Greinar uppréttar, rauðbrúnar. Visnar blómskipanir standa fram á vetur. Döglingskvistur hefur talsvert skriðullt rótarkerfi. Laus við meindýr og sjúkdóma. Þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa döglingskvist niður í svona 50 - 60 sm seinni part vetrar. Það hefur ekki áhrif á blómgun þar sem döglingskvistur blómgast á árssprotann. Þrífst í allri venjulegri rakaheldinni garðmold. Döglingskvist er gjarnan plantað í raðir / limgerði. Einnig í ker og þess háttar þar sem hann getur alveg fyllt út í rýmið. Hentar síður með öðrum gróðri nema tegundum sem eru sjálfar duglegar í samkeppni. Tilvalinn í villigarða þar sem hann má breiðast út. Líklegt er að stór hluti af því sem í daglegu tali kallast "döglingskvistur" sé í raun úlfakvistur (S. x billardii). Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Úlfakvistur er blendingur döglings- og víðikvists (S. salicifolia). Víðikvistur er frá Evrasíu.

Döglingsþyrnir – Crataegus douglasii

Lítið tré eða runni (2-6 m). Þéttur. All harðgerður. Fremur hægvaxta. Laufið tvísagtennt, gljáandi. Rauðir haustlitir. Greinar þyrnóttar. Blómin hvít í sveip. Aldinið svart, ætt ber (kjarnaldin). Sólelskur en þolir hálfskugga. Döglingsþyrnir hentar sem stakstætt lítið tré, í þyrpingar með 2 m millibili eða í bland með öðrum runnum og jurtum. Hentar í klippt eða óklippt limgerði með um 0,7 - 1 m millibili. Hentar einnig í yndisskóga. Framleiðum eingöngu döglingsþyrni af fræi sem safnað er hérlendis. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka, allt norður til Alaska.

Dúntoppur – Lonicera xylosteum

Harðgerður, þéttur, meðalhár - hávaxinn runni (1,5 - 3,0 m). Blómin smá, fölgul, tvö og tvö saman. Rauð, óæt, samvaxin ber þroskast á haustin. Laufið dúnhært. Gulir haustlitir. Skuggþolinn. Heilbrigður. Dúntoppur hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig tilvalinn í skuggsæl horn. Þolir vel klippingu og hentar því í limgerði. Millibil 50 - 100 sm. Sæmilega vind- og saltþolinn. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Berin eru eitruð en ekki hættuleg. Heimkynni: Víða í Evrópu, N-Tyrkland og V-Síbería.

Fagursýrena ‘Elinor’ – Syringa x prestoniae ‘Elinor’

Harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 4 m). Blómin lillableik, ilmandi í uppréttum klasa miðsumars. Hefur lengi verið ein vinsælasta sýrenan hérlendis enda blómsæl og harðgerð víðast hvar. Þolir hálfskugga. Hentar stakstæð, í bland með öðrum gróðri og í raðir og þyrpingar þar sem pláss leyfir. Hæfilegt bil á milli sýrena er 1,5 - 2,0 m. Kettir virðast ekki sækja sérstaklega í 'Elinor'. 'Elinor' er kanadískt úrvalsyrki úr smiðju Isabellu Preston (1881-1965).

Fjallarifs / Alparifs ‘Dima’ – Ribes alpinum ‘Dima’

Harðgerður, þéttur, fínlegur, heilbrigður, sumargrænn runni. Greinar og sprotar ljósbrúnir til ljósgráir. Brum ljós, nánast hvít. Laufblöðin eru þrjú- til fimmsepótt, grófsagtennt, nokkrir sentimetrar á lengd. Græn að ofan en ljós að neðan. Blóm gulgræn í stuttum klösum. Sérbýllt. Laufgast snemma eða í lok apríl - byrjun maí. All skuggþolið. Mest notað í klippt limgerði. Hæð: 1,5 - 1,7 m. Það má auðveldlega halda því lægra með klippingu. Venjulega eru settar niður þrjár plöntur á hvern metra. Fremur hægvaxta. Gulir haustlitir. Fjallarifs er mjög mikið gróðursett í limgerði hérlendis. Hentar víðast hvar í byggð hérlendis nema á mjög vindasömum stöðum t.d. við sjó á útnesjum. Þá hentar jörfavíðir, alaskavíðir og strandavíðir betur. 'Dima' er kvenkyns yrki sem reynst hefur vel. Getur þroskað rauð, bragðdauf ber á haustin. Því ekki ræktað sem berjarunni! Aðallega fáanlegt á vorin og fyrri part sumars sem berrótarplöntur. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Blandið gömlum búfjáráburði eða molti í jarðveginn áður eða þegar fjallarifs er gróðursett. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Heimkynni fjallarifs eru aðallega í Alpafjöllunum en einnig hér og þar í N- og V-Evrópu. Einnig sagt villt í N- og A-Asíu.