Fjallarifs / Alparifs ‘Dima’ – Ribes alpinum ‘Dima’
Harðgerður, þéttur, fínlegur, heilbrigður, sumargrænn runni. Greinar og sprotar ljósbrúnir til ljósgráir. Brum ljós, nánast hvít. Laufblöðin eru þrjú- til fimmsepótt, grófsagtennt, nokkrir sentimetrar á lengd. Græn að ofan en ljós að neðan. Blóm gulgræn í stuttum klösum. Sérbýllt. Laufgast snemma eða í lok apríl - byrjun maí.
Fjallarifs er all skuggþolið. Mest notað í klippt limgerði. Hæð: 1,5 - 1,7 m. Það má auðveldlega halda því lægra með klippingu. Venjulega eru settar niður þrjár plöntur á hvern metra. Fremur hægvaxta. Gulir haustlitir. Fjallarifs er mjög mikið gróðursett í limgerði hérlendis. Hentar víðast hvar í byggð hérlendis nema á mjög vindasömum stöðum t.d. við sjó á útnesjum. Þá hentar jörfavíðir, alaskavíðir og strandavíðir betur.
'Dima' er kvenkyns yrki sem reynst hefur vel. Getur þroskað rauð, bragðdauf ber á haustin. Því ekki ræktað sem berjarunni! Aðallega fáanlegt á vorin og fyrri part sumars sem berrótarplöntur. Þrífst vel í allri venjulegri garðmold. Blandið gömlum búfjáráburði eða molti í jarðveginn áður eða þegar fjallarifs er gróðursett. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir.
Heimkynni fjallarifs eru aðallega í Alpafjöllunum en einnig hér og þar í N- og V-Evrópu. Einnig sagt villt í N- og A-Asíu. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Fjallarifs/Alparifs ‘Lára’- Ribes alpinum ‘Lára’
Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (1,5 m). Laufið fremur smátt, handsepótt og áberandi hvítyrjótt. Gulir haustlitir. Gulgræn blóm í klösum fyrri part sumar ekki áberandi. Fjallarifs 'Lára' er kvenkyns þroskar gjarnan rauð ber á haustin. Berin eru æt en bragðdauf.
Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Fjallarifs 'Lára' er fallegast í hálfskugga. Hentar í blönduð beð með t.d. hvítblómstrandi runnum og blómum. Einnig sem undirgróður undir t.d. birkitrjám. Millibil um 50 sm sé því plantað í raðir/limgerði annars 70 - 80 sm.
'Lára' kom upphaflega upp af fræi í Þöll. Fræinu var safnað í Fossvogskirkjugarði, Rvk. Yrkið fæst ekki annars staðar. Kennt við Láru Þöll Búadóttur barnabarn Hólmfríðar Finnbogadóttir en Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar allt til ársins 2013. Garðaberjaætt (Grossulariaceae).
Fjallatoppur – Lonicera alpigena
Harðgerður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Börkur gráleitur. Laufin eru með stuttan stilk, oddbaugótt, allt að 11 sm löng og 5,5 sm breið. Blaðgrunnur stundum snubbóttur. Þau er stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi á efra borði. Laufin eru hærð á jöðrum og blaðstrengjum á neðra borði framan af sumri. Laufgast jafnvel í byrjun maí. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul með rauðleitum fræflum tvö og tvö saman á löngum stilk fyrri part sumars. Aldinið rautt samvaxið, um eða yfir 1 sm langt, óætt ber sem minnir á kirsuber í útliti.
Fremur hægvaxta. Þolir vel hálfskugga. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingum eða röðum. Tilvalinn í skuggsæl horn. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil 80 - 100 sm.
Heimkynni: Í skógum til fjalla í Mið- og S-Evrópu. Geitblaðsætt (Caprifoliaceae).
Fjalldrapi / Hrís – Betula nana
Harðgerður, íslenskur, lágvaxinn runni (20 - 50 sm). Blöðin smá, nánast kringlótt. Rauðir - rauðgilir haustlitir. Sólelskur. Vex í mólendi og deiglendi víða um land. Hentar í hleðslur, steinhæðir og í rakan jarðveg þar sem sólar nýtur. Blandast gjarnan íslensku ilmbjörkinni (Betula pubescens) og myndar blendinginn skógviðarbróður (Betula x intermedia) sem er algengur í náttúru Íslands sérstaklega á Vesturlandi. Fjalldrapi er ekki algengur í görðum landsmanna. Fjalldrapinn okkar er af íslensku fræi.
Flosvíðir – Salix × dasyclados
Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.
Garðakvistill – Physocarpus opulifolius
Harðgerður, þéttur, heilbrigður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Getur orðið talsvert breiður. Laufið grænt, flipótt ekki ólíkt rifsi (Ribes spp.) eða hlyn (Acer spp.). Rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í hvelfdum sveip miðsumars. Fræbelgir uppblásnir, fremur smáir, margir saman, rauðleitir. Rauðleitir árssprotar. Börkurinn flagnar með tímanum af í strimlum. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Þrífst í sæmilega frjóum jarðvegi, jafnvel rökum en einnig fremur þurrum. Garðakvistill fer vel í blönduð runnabeð eða saman með fjölæringum. Einnig fer vel á því að planta nokkrum saman með um 80 - 100 sm millibili. Garðakvistil má nota í klippt eða óklippt limgerði. Hentar vel í jaðra skjólbelta. Garðakvistill gekk áður fyrr undir nafninu "blásurunni" vegna uppblásinna aldinanna. Mun harðgerðari samanborið við yrki garðakvistils sem bera rauðleit lauf eins og 'Diabolo' og 'Summer Wine'. Garðakvistill er sannarlega einn harðgerðasti skraut- og skjólrunni sem völ er á. Heimkynni garðakvistils eru í austanverðri N-Ameríku. Rósaætt (Rosaceae).
Garðakvistill ‘Diable d’Or’ – Physocarpus opulifolius ‘Diable d’Or’
Sæmilega harðgerður, fremur lágvaxinn skrautrunni hérlendis (1,5 m). Laufið rauð-bronslitað. Ljósara en á garðakvistli 'Diabolo'. Skærrauðir haustlitir. Ljósbleikir blómsveipir birtast stundum miðsumars. Sólelskur. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Kelur yfirleitt eitthvað. Garðakvistill 'Diable d'Or' fer vel í beðum með öðrum runnum og fjölæringum.
Garðakvistill ‘Diabolo’ – Physocarpus opulifolius ‘Diabolo’
Lágvaxinn - meðalstór runni. Laufið dökk-purpurarautt. Ljósir blómsveipir miðsumars. Skærrauðir haustlitir. Þrífst vel í grónum hverfum. Sólelskur. Verður gjarnan fyrir einhverju haustkali. Þolir vel klippingu. Garðakvistill 'Diabolo' fer sérlega vel í blönduðum beðum með ljósari plöntum eða framan við ljósa fleti.
Garðakvistill ‘Luteus’ – Physocarpus opulifolius ‘Luteus’
Meðalstór, þokkalega harðgerður runni. Hæð um 1,5 m. Laufið áberandi gulgrænt. Nývöxtur koparlitur. Rauðbleikir haustlitir. Hvítir blómsveipir upp úr miðju sumri. Fræbelgir, uppblásnir, rauðleitir í fyrstu. Þolir hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Börkur flagnar með tímanum af í strimlum. Kelur stundum mikið. Hentar í blönduð beð með runnum og fjölæringum í þokkalegu skjóli. Millibil um 80 - 90 sm.
Geislasópur – Cytisus purgans
Harðgerður, þéttur, lágvaxinn runni (50 - 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Greinar sígrænar og þunnar. Lauf lítil og lítið áberandi. Blómstar skærgulum blómum í miklu magni í júní. Blómin dæmigerð ertublóm. Minni blómgun gjarnan að hausti. Blómin ilma sterkt og ekki kunna allir að meta það. Aldinið hærður belgur gjarnan með nokkrum fræjum. Sólelskur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur.
Gerir litlar kröfur til jarðvegs en þrífst ekki í blautum jarðvegi. Harðgerðasti sópurinn hérlendis. Hentar í blönduð runnabeð, innan um grjót, í hlaðin beð og þess háttar. Millibil 80 - 90 sm. Heimkynni: Aðallega ofan skógarmarka í fjöllum á Íberíuskaganum. Ertublómaætt (Fabaceae).
Glæsireynir – Sorbus sp. aff. filipes
All harðgerður, sumargrænn, stórvaxinn runni. Hæð um 2 m og breidd um 1,5. Greinar gjarnan útsveigðar. Laufið stakfjaðrað og matt. Berin ljós með bleikum skellum í klösum á haustin. Vaxtarlag minnir á koparreyni (S. frutescens).
Umræddur reynir kom upp af fræi frá H. McAllister, Liverpool í kringum aldamótin 2000. Trúlega ekki rétt greindur til tegundar.
Glæsireynir fer vel stakstæður, aftarlega í beðum og í röðum og þyrpingum með um 1,5 m millibili. Heimkynni að öllum líkinum fjalllendi Kína. Rósaætt (Rosaceae).