Showing 25–36 of 138 results

Fjallarifs/Alparifs ‘Lára’- Ribes alpinum ‘Lára’

Harðgerður, fremur lágvaxinn runni (1,5 m). Laufið fremur smátt, handsepótt og áberandi hvítyrjótt. Gulir haustlitir. Gulgræn blóm í klösum fyrri part sumar ekki áberandi. Rauð ber þroskast í kjölfarið. Fjallarifs 'Lára' er fallegast í hálfskugga. Hentar í blönduð beð með t.d. hvítblómstrandi runnum og blómum. Einnig sem undirgróður undir t.d. birkitrjám. 'Lára' kom upphaflega upp af fræi í Þöll. Yrkið fæst ekki annars staðar. Kennt við Láru Þöll Búadóttur barnabarn Hólmfríðar Finnbogadóttir en Hólmfríður var formaður og síðan framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Hafnarfjarðar og Þallar.

Fjallatoppur – Lonicera alpigena

Harðgerður, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufin eru sporöskjulaga, stór miðað við aðra toppa (Lonicera spp.), gagnstæð og gljáandi. Gulir haustlitir. Blómin smá, gul með rauðleitum fræflum tvö og tvö saman á löngum stilk fyrri part sumars. Aldinið rautt samvaxið, óætt ber sem minnir á kirsuber í útliti. Fremur hægvaxta. Þolir vel hálfskugga. Hentar sérlega vel sem undirgróður undir stærri trjám. Einnig fer fjallatoppur vel í bland með öðrum gróðri eða nokkrir saman í þyrpingum eða röðum. Tilvalinn í skuggsæl horn. Þrífst í öllum sæmilega frjóum og rakaheldnum jarðvegi. Millibil um 80 sm. Heimkynni: Í skógum til fjalla í Mið- og S-Evrópu.

Fjalldrapi / Hrís – Betula nana

Harðgerður, íslenskur, lágvaxinn runni (20 - 50 sm). Blöðin smá, nánast kringlótt. Rauðir - rauðgilir haustlitir. Sólelskur. Vex í mólendi og deiglendi víða um land. Hentar í hleðslur, steinhæðir og í rakan jarðveg þar sem sólar nýtur. Blandast gjarnan íslensku ilmbjörkinni (Betula pubescens) og myndar blendinginn skógviðarbróður (Betula x intermedia) sem er algengur í náttúru Íslands sérstaklega á Vesturlandi. Fjalldrapi er ekki algengur í görðum landsmanna. Fjalldrapinn okkar er af íslensku fræi.

Flosvíðir – Salix × dasyclados

Harðgerður, stórvaxinn runni (3 - 4 m). Laufið lensulaga. Minnir á körfuvíði (Salix viminalis) en grófgerðari. Sprotar áberandi loðnir. Karlkynsklónn með fallegum silfurloðnum reklum strax í febrúar/mars með bleikum blæ. Gulir frjóhnappar birtast í mars / apríl. Þrífst best í frjóum, rökum jarðvegi t.d. við læki og tjarnir. Einnig góður í runnaþyrpingar og jafnvel skjólbelti. Fallegastur sé hann klipptur / sagaður niður reglulega.

Garðakvistill – Physocarpus opulifolius

Harðgerður, þéttur, heilbrigður, sumargrænn, meðalhár runni (1,5 - 2,5 m). Getur orðið talsvert breiður. Laufið grænt, flipótt ekki ólíkt rifsi (Ribes spp.) eða hlyn (Acer spp.). Rauðgulir haustlitir. Blómin hvít í hvelfdum sveip miðsumars. Fræbelgir uppblásnir, fremur smáir, margir saman, rauðleitir. Rauðleitir árssprotar. Börkurinn flagnar með tímanum af í strimlum. Þolir vel hálfskugga. Þolir vel klippingu. Þrífst í sæmilega frjóum jarðvegi, jafnvel rökum en einnig fremur þurrum. Garðakvistill fer vel í blönduð runnabeð eða saman með fjölæringum. Einnig fer vel á því að planta nokkrum saman með um 80 - 100 sm millibili. Garðakvistil má nota í klippt eða óklippt limgerði. Hentar vel í jaðra skjólbelta. Garðakvistill gekk áður fyrr undir nafninu "blásurunni" vegna uppblásinna aldinanna. Mun harðgerðari samanborið við yrki garðakvistils sem bera rauðleit lauf eins og 'Diabolo' og 'Summer Wine'. Garðakvistill er sannarlega einn harðgerðasti skraut- og skjólrunni sem völ er á. Heimkynni garðakvistils eru í austanverðri N-Ameríku. Rósaætt (Rosaceae).

Garðakvistill ‘Diable d’Or’ – Physocarpus opulifolius ‘Diable d’Or’

Sæmilega harðgerður, fremur lágvaxinn skrautrunni hérlendis (1,5 m). Laufið rauð-bronslitað. Ljósara en á garðakvistli 'Diabolo'. Skærrauðir haustlitir. Ljósbleikir blómsveipir birtast stundum miðsumars. Sólelskur. Þarf nokkurt skjól til að þrífast. Kelur yfirleitt eitthvað. Garðakvistill 'Diable d'Or' fer vel í beðum með öðrum runnum og fjölæringum.

Garðakvistill ‘Diabolo’ – Physocarpus opulifolius ‘Diabolo’

Lágvaxinn - meðalstór runni. Laufið dökk-purpurarautt. Ljósir blómsveipir miðsumars. Skærrauðir haustlitir. Þrífst vel í grónum hverfum. Sólelskur. Verður gjarnan fyrir einhverju haustkali. Þolir vel klippingu. Garðakvistill 'Diabolo' fer sérlega vel í blönduðum beðum með ljósari plöntum eða framan við ljósa fleti.

Garðakvistill ‘Luteus’ – Physocarpus opulifolius ‘Luteus’

Meðalstór, þokkalega harðgerður runni. Hæð um 1,5 m. Laufið áberandi gulgrænt. Nývöxtur koparlitur. Rauðbleikir haustlitir. Hvítir blómsveipir upp úr miðju sumri. Fræbelgir, uppblásnir, rauðleitir í fyrstu. Þolir hálfskugga. Þrífst í venjulegri garðmold. Börkur flagnar með tímanum af í strimlum. Kelur stundum mikið. Hentar í blönduð beð með runnum og fjölæringum í þokkalegu skjóli. Millibil um 80 - 90 sm.

Garðakvistill ‘Summer Wine’ – Physocarpus opulifolius ‘Summer Wine’

All harðgerður skrautrunni. Laufið vínrautt. Skærrauðir haustlitir. Bleikir blómsveipir miðsumars. Hæð um 1,5 m. Greinar fyrst uppréttar en síðan bogadregnar.

Geislasópur – Cytisus purgans

Harðgerður, þéttur, lágvaxinn runni (50 - 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Greinar sígrænar og þunnar. Lauf lítil og lítið áberandi. Blómstar skærgulum blómum í miklu magni í júní. Blómin dæmigerð ertublóm. Minni blómgun gjarnan að hausti. Blómin ilma sterkt og ekki kunna allir að meta það. Aldinið hærður belgur gjarnan með nokkrum fræjum. Sólelskur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en þrífst ekki í blautum jarðvegi. Harðgerðasti sópurinn hérlendis. Hentar í blönduð runnabeð, innan um grjót, í hlaðin beð og þess háttar. Millibil 80 - 90 sm. Heimkynni: Aðallega ofan skógarmarka í fjöllum á Íberíuskaganum. Ertublómaætt (Fabaceae).

Glæsireynir – Sorbus sp. aff. filipes

All harðgerður, sumargrænn, stórvaxinn runni. Hæð um 2 m og breidd um 1,5. Greinar gjarnan útsveigðar. Laufið stakfjaðrað og matt. Berin ljós með bleikum skellum í klösum á haustin. Vaxtarlag minnir á koparreyni (S. frutescens). Umræddur reynir kom upp af fræi frá H. McAllister, Liverpool í kringum aldamótin 2000. Trúlega ekki rétt greindur til tegundar. Glæsireynir fer vel stakstæður, aftarlega í beðum og í röðum og þyrpingum með um 1,5 m millibili. Heimkynni að öllum líkinum fjalllendi Kína. Rósaætt (Rosaceae).

Glæsitoppur ‘Hákon’ – L. involucrata var. ledebourii ‘Hákon’

Mjög harðgerður, þéttur, heilbrigður, hraðvaxta meðalstór runni. Hæð: 1,5 - 1,8 m. Getur orðið álíka breiður. Laufið lensulaga, gagnstætt og gljándi á efra borði. Gulir haustlitir. Blómin tvö og tvö saman, gul undir rauðum háblöðum. Blómgast í júní eða maílok. Aldinið svart ber sem þroskast í ágúst. Berin almennt talin óæt. Fuglar sækja þó í berin. Greinar gulbrúnar en síðar gráleitar. Börkur flagnar af í strimlum með tímanum eins og hjá flestum öðrum tegundum toppa (Lonicera spp.). Skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Hentar í raðir, þyrpingar, limgerði og skjólbelti. Hentar einnig í villigarða og sumarhúsalóðir. Sáir sér stundum út. Glæsitoppur 'Hákon' er svo þéttur að illgresi þrífst tæplega undir honum. Yrkið er kennt við Hákon Bjarnason fyrrverandi skógræktarstjóra en samsvarandi runni fannst í sumarhúsalóð hans og konu hans Guðrúnar Bjarnason í Vatnshlíð við Hvaleyrarvatn í Hafnarfirði. Ef til vill er þetta ekki undirtegundin "ledobourii"! Millibil í limgerði að minnsta kosti 50 sm. Millibil í blönduðum beðum um 1 m. Þrífst í allri venjulegri garð- og skógarmold. Glæsitoppur sem er í raun undirtegund glótopps (L. involucrata) á heimkynni í strandhéruðum Kaliforníu og S-Oregon. Af þeim sökum er talið ólíklegt að ekta glæsitoppur þrífist vel á Íslandi. Líklegra er því að um glótopp sé að ræða. Glótoppur er villtur í vestan-og norðanverðri N-Ameríku alveg norður til Alaska og Quebec. Vegna þess hve lengi runni þessi hefur gengið undir þessu nafni er erfitt að breyta því. Blöðin á 'Hákon' eru mjórri, hvassyddari og meira gljáandi samanborið við t.d. glótopp 'Kera' og 'Satu'.