Runnamura ‘Månelys’ – Dasiphora fruticosa ‘Månelys’
Harðgerður, þéttur, lágvaxinn (1 m) runni. blöðin smágerð, stakfjöðruð. Gulir haustlitir. Blómin fremur smá, ljósgul. Blómstrar frá miðju sumri og fram eftir hausti. Sólelsk. Runnamura 'Månelys' hentar í potta, ker, í blönduð runna- og blómabeð. Einnig kjörin í raðir / óklippt limgerði og þyrpingar. Gott er að klippa í burt eldri greinar alveg niður við jörð til skapa rými fyrir nýjar greinar að vaxa upp. Gamalt danskt yrki.
Runnamura ‘Mount Everes’ – Dasiphora fruticosa ‘Mount Everest’
Harðgerður, fínlegur, þéttur og blómsæll runni. Hæð um 70-90 sm. Sólelsk. Þrífst vel í venjulegri garðmold. Blómin hvít með gulri miðju. Blómgast frá lokum júní og fram eftir hausti. Gulir haustlitir. Hentar í raðir, þyrpingar, blönduð beð og ker/potta. Millibil um 80 sm. 'Mount Everest' er talin vera besta hvítblómstrandi runnamuran hérlendis.
Runnamura ‘Stella’ – Dasiphora fruticosa ‘Stella’
Harðgerður, þéttur, fíngreinóttur runni. Hæð: 1 - 1,5 m. Laufblöð fremur smá, græn - blágræn, hærð, stakfjöðruð eða fingruð. Blómin gul 2 - 3 sm í þvermál með fimm krónublöðum. Blómin eru ljósari og ögn smærri en á runnumuru 'Goldfinger' en dekkri samanborið við runnamuru 'Månelys'. Sólelsk en þolir hálfskugga. 'Stella' er íslenskt úrval. Blómgast í júlí og fram í september. Stundum byrjar hún jafnvel í lok júní. Byrjar fyrr að blómgast á sumrin samanborið við 'Goldfinger'. Runnamura 'Stella' þrífst vel í öllum venjulegum, sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Hentar í lág limgerði, þyrpingar, ker og potta. Millibil um 70 - 80 sm. Runnamura er breytileg tegund sem vex villt á kald-tempruðum svæðum á norðurhveli jarðar. Í náttúrunni vex hún gjarnan í deiglendi og grýttum svæðum.
Silfurblað – Elaeagnus commutata
Harðgerður, lágvaxinn, lauffellandi, heilbrigður runni um 1 m á hæð. Getur orðið hávaxnara á skjólgóðum stöðum. Laufið silfrað, breiðlensulaga, 2 - 7 sm á lengd. Laufgast í maí og fellir laufið í október. Haustlitir gráir eða daufgulir, ekki áberandi. Blóm smá, gul og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið silfrað, mjölkennt ber (steinaldin), 9 - 12 mm á lengd. Ætt og sagt hollt en ekki lystugt. Erfitt er að koma auga á aldinin þar sem þau eru samlit laufinu.
Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur (Frankia) á rótarkerfinu. Lifir því vel í rýrum jarðvegi, sérstaklega í sandi og möl. Sólelskt. Vind- og saltþolið. Dreifir sér með rótarskotum. Rótarskotin eru þó sjaldnast til vandræða. Silfurblað er ekki þyrnótt eins og hafþyrnir (Hippophae rhamnoides) sem er af sömu ætt. Hentar á opnum svæðum, meðfram götum og bílastæðum, í jöðrum þar sem er rýr jarðvegur og þess háttar. Millibil um 70 - 90 sm.
Heimkynni: Alaska, Kanada og norðanverð Bandaríkin. Megnið ef ekki allt silfurblað hérlendis er ættað frá Alaska. Silfurblaðsætt (Elaeagnaceae).
Sitkaelri / Sitkaölur – A. viridis ssp. sinuata
Harðgerður, stórvaxinn, sólelskur og fremur hraðvaxta runni eða lítið tré (2,5 - 6,5 m). Laufið all stórt, tvísagtennt, gljáandi og bylgjað. Langir, hangandi karlreklar áberandi á vorin rétt fyrir laufgun í maí. Kvenreklarnir sitja nokkrir saman. Í fyrstu ljósir en síðan brúnir. Þeir minna á smágerða köngla og endast fram á vetur á greinunum. Henta til skreytinga. Sitkaelri lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og getur þar af leiðandi vaxið vel í ófrjóum jarðvegi. Vindþolið og fremur saltþolið einnig. Plássfrekt. Þolir klippingu/snyrtingu en ekki stýfingu. Hentar stakstætt, í raðir og þyrpingar og sólarmegin í skjólbeltum. Millibil 2 - 3 m. Má vera þéttar í runnaröð/limgerði. Einnig til uppgræðslu á melum, söndum og skriðum. Forðist að planta sitkaelri í lægðir í landslaginu þar sem hætt er við því að kalt loft safnist fyrir. Á þannig stöðum hættir sitkaelri við vorkali. Sáir sér út þar sem aðstæður leyfa en sitkaelri er frumherji og sáir sér helst út í raskað og lítt gróið land. Allt sitkaelrið okkar er ræktað upp af íslensku fræi. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Íslenski stofninn er líklega allur frá Alaska.
Sitkareynir – Sorbus sitchensis
Fremur harðgerður, meðalhár, fremur hægvaxta, sumargrænn runni. Hæð 1,5 - 2 m. Laufið matt, blágrænt, stakfjaðrað. Smáblaðapörin 4 - 5 talsins. Smáblöðin sporbaugótt og tennt á efri hlutanum. Blómin ljós í sveip í júní. Berin ferskjulituð í klösum þroskast að hausti. Fljótlega étin af fuglum. Rauðgulir eða gulir haustlitir.
Sitkareynir sómir sér vel í bland með öðrum runnum og blómum. Millibil 1,5 m. Þolir hálfskugga. Ef klippa þarf sitkareyni ætti helst að gera það að sumarlagi til að forðast reyniátu. Sjaldgæfur hérlendis. Sitkareynir er fræekta (apomictic). Við framleiðum sitkareyni eingöngu af íslensku fræi. Sitkareynir hérlendis er trúlega allur eða mestmegnis ættaður frá Alaska. Heimkynni: Vestanverð N-Ameríka. Rósaætt (Rosaceae).
Skógarbrydda – Mahonia aquifolium
Lágvaxinn ( um og yfir 1 m), viðkvæmur, sígrænn runni. Blöðin stakfjöðruð, gljándi með þyrnótta jaðra. Gjarnan rauðleit sérstaklega að vetrarlagi. Blómin skærgul í klasa. Berin blá í klösum. Sjást sjaldan hérlendis. Skuggþolin. Þrífst aðeins á hlýjum stöðum í góðu skjóli. Sómir sér best með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Sjaldgæf hérlendis.
Skógarkvistur / Kóreukvistur ‘Finndís’ – Spiraea miyabei ‘Finndís’
Harðgerður, fremur lágvaxinn (0,5 - 0,8), þéttur runni. Stórir bleikir blómsveipir birtast síðsumars (ágúst - september) 'Finndís' blómstrar á enda árssprotans. Rauðgulir haustlitir. Þrífst vel í sæmilega frjórri, ekki of blautri garðmold. Skógarkvistur 'Finndís' hentar í ker, blönduð beð, raðir og þyrpingar. Millibil um 80 sm. Sólelskur en þolir hálfskugga. Best fer á því að klippa skógarkvistinn niður um alla vega helming seinni part vetrar. Kenndur við Finndísi, Dilksnesi, Höfn. Ekki er óhugsandi að hér sé í raun um yrki af japanskvist (Spiraea japonica) að ræða. Vinsæll og talsvert útbreiddur skrautrunni hérlendis.
Skriðmispill – Cotoneaster apiculatus?
Harðgerður, jarðlægur runni. Blöðin smá, dökkgræn og gljáandi. Rauðir haustlitir. Smá bleik blóm fyrri part sumars. Rauðgul ber þroskast á haustin og endast þau gjarnan langt fram á vetur. Sólelskur. Hentar í grjóthleðslur, kanta, ker o.þ.h. Ágætis þekjuplanta þar sem hann nýtur góðrar birtu. Hugsanlega eru fleiri tegundir en ein sem í daglegu tali kallast "skriðmispill". Mjög vinsæll og algengur í görðum landsmanna.
Skriðtoppur – Lonicera prostrata
All harðgerður, jarðlægur runni. Hæð um eða yfir 30 sm. Þekjandi. Laufin fremur smá, nær stilklaus, oddbaugótt eða egglaga. Blómin smá, í blaðöxlunum, tvö og tvö saman, gulleit fyrri part sumars. Þroskar rauð ber á haustin. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Þolir hálfskugga. Hentar sem undirgróður, í hleðslur og framanlega í beð. Heimkynni: V-Kína. Verður vonandi fáanlegur sumarið 2025.