Showing 1–12 of 60 results

Alaskasýprus – Cupressus nootkatensis

Lágvaxið, sígrænt tré. Toppurinn og smágreinar áberandi drjúpandi. Barrið hreisturlaga, blágrænt - gulgrænt. Könglar kúlulaga á stærð við bláber. Dökkbláir fullþroska. Þokkafullur og jafnvel draugalegur að sjá. Þarf nokkurt skjól. Fremur skuggþolinn. Þolir vel klippingu. Harðgerðasti sýprusinn. Óvíst er hveru hár alaskasýprus getur orðið hérlendis. Reikna má með 6 - 7 m hæð á bestu stöðum í skógarskjóli. Alaskasýprus þrífst í skjólgóðum görðum og trjálundum. Hentar í beð og þyrpingar með öðrum sígrænum runnum og smátrjám. Einnig framan við og jafnvel undir stærri trjám. Þrífst í allri venjulegri, framræstri garðmold. Framleiðum eingöngu alaskasýprus af íslensku fræi. Heimkynni: Vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska suður til N-Kaliforníu.

Bambus gulur – Fargesia murielae

Sígrænt, trjákennt gras. Stönglar gulgrænir - gulir. Laufið sviðnar gjarnan fram eftir vetri. Myndar þétta þyrpingu stöngla en skríður ekki út. Þrífst best í rakaheldnum, frjóum jarðvegi á sólríkum stað í þokkalegu skjóli. Þolir hálfskugga. Hæð 1,5 - 3,5 m eftir yrkjum og staðsetningu. Almennt talin ein harðgerðasta bambus-tegundin. Hentar stakstæður, aftarlega í beðum og í þyrpingar og raðir með 80 - 100 sm millibili.

Breiðumispill ‘Major’ – Cotoneaster dammeri ‘Major’

Sæmilega harðgerður, sígrænn, jarðlægur runni. Blöðin eru sporöskjulaga og stærri samanborið við önnur yrki breiðumispils. Blöðin verða gjarnan rauðleit á veturna. Blómin eru smá, hvít, stjörnulaga með rauðum fræflum og birtast miðsumars. Rauð ber þroskast á haustin. Sitja gjarnan á greinunum fram á vetur. Breiðumispill 'Major' þolir hálfskugga. Hentar sem kantplanta, sem undirgróður undir trjám/runnum sem ekki varpa miklum skugga. Fer einnig vel í hleðslum og ofan á veggjum þar sem greinarnar geta slútað niður. Millibil um 60 - 70 sm. Þrífst eingöngu í grónum görðum í sæmilega frjóum, vel framræstum jarðvegi. Skýlið fyrsta veturinn með t.d. striga.

Breiðumispill ‘Skogholm’ – Cotoneaster dammeri ‘Skogholm’

All harðgerður, sígrænn, jarðlægur, þekjandi runni. Laufið dökkgrænt, heilrennt. Stundum vill laufið sviðna að vetri til en það lagast fljótlega aftur. Blómin hvít, smá, stjörnulaga snemmsumars. Stundum þroskast rauðgul ber á haustin. Þolir hálfskugga. Tilvalinn í hleðslur, kanta, upp á veggi, í ker og þess háttar. Greinarnar geta með tímanum slútað niður um 2 m. Vinsæl garðplanta hérlendis. Fjótvaxnari samanborið við skriðmispil (C. apiculatus). Þrífst í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. 'Skogholm' er sænskt úrvalsyrki frá árinu 1941.

Dröfnulyngrós ‘Grandiflorum’ – Rhododendron catawbiense ‘Grandiflorum’

Lágvaxinn - meðalstór runni (1,5 m). Laufið all stórt, sígrænt. Blómin trektlaga, fjólubleik með rauðbrúnum dröfnum í krönsum í júní. Þarf nokkurt skjól. Þolir hálfskugga. Þrífst best í grónum görðum og skógarskjóli. Gróðursetjið í blöndu af mómold, furunálum og veðruðu hrossataði. Ein algengasta lyngrósin hérlendis.

Dröfnulyngrós ‘Roseum Elegans’ – Rhododendron catawbiense ‘Roseum Elegans’

Sígrænn runni. Hæð um 1,5 m. Þarf skjól. Þolir vel hálfskugga. Þrífst best í mómold sem blönduð er gömlu hrossataði

Einir – Juniperus communis – Undirhlíðar-Hfj

Harðgerður, sígrænn, lágvaxinn runni (30 - 120 sm). Ýmist jarðlægur eða hálfuppréttur. Sérbýll. Kvenplöntur þroska einiber á tveimur árum. Þau má nýta í matargerð. Sólelskur. Hægvaxta. Einir hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Einnig í blönduð beð með öðrum sígrænum runnum. Jarðlæg yrki nokkuð þekjandi. Vex villtur víða um land.

Einir ‘Holger’ – Juniperus ‘Holger’

All harðgerður, sígrænn, lágvaxinn, hægvaxta, þekjandi runni (50 sm á hæð). Barrið á nýjum sprotum ljósgult síðan gráblátt. Sólelskur. Hentar í ker, hleðslur, kanta og þess háttar. Ekki eins harðgerður og himalajaeinir 'Meyeri'. Yrkið 'Holger' mun vera blendingur garðaeinis (J. media 'Pfitzeriana Aurea') og himalajaeinis (J. squamata 'Meyeri'). Úr smiðju Holger Jensen, Svíþjóð frá árinu 1946.

Einir / Írlandseinir – Juniperus communis ‘Hibernica’

Sígrænt, súlulaga smátré. Hæð allt að 2 m. Hægvaxta. Barrið stingandi. Sólelskur en þolir hálfskugga. Skjólþurfi. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og í ker í skjóli. Skýlið írlandseini að minnsta kosti fyrsta veturinn eftir gróðursetningu.

Fagurlim / Búxus – Buxus sempervirens

Þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn runni hérlendis (50 - 150 sm). Laufið heilrennt, smágert. Skuggþolið. Þrífst í grónum hverfum í venjulegri garðmold. Tæplega ræktanlegt inn til landsins. Vinsælt í ker og blönduð beð með sígrænum gróðri. Þolir mjög vel klippingu og gjarnan mótað til í kúlur, keilur og fleiri form. Fremur viðkvæmt. Með allra hægvöxnustu runnum hérlendis!

Fagursýprus ‘Columnaris Glauca’ – Chamaecyparis lawsoniana ‘Columnaris Glauca’

Sígrænt smátré eða runni. Barrið hreisturlaga, blágrænt og ilmandi. Uppréttur vöxtur. Hæð hérlendis 2 - 3,5 m. Skjólþurfi en skuggþolinn. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri, raðir og ker í skjóli. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu.

Fagursýprus ‘Ellwood’s Empire’ – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwood’s Empire’

Súlulaga - keilulaga sígrænt smátré. Hæð 1,5 - 2 m. Barrið mjúkt, fölgrænt - gulgrænt. Hægvaxta. Skjólþurfi. Þolir vel hálfskugga. Þrífst aðeins í skjólgóðum görðum, köldum garðskálum og í skógarskjóli. Fer vel með öðrum sígrænum runnum, lyngi og lágvöxnum fjölæringum.