Showing 13–24 of 61 results

Fagursýprus ‘Ellwood’s Gold’ – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwood’s Gold’

Sígrænt (sígullt), smátré eða runni. Upprétt vaxtarlag. Barrið hreisturlaga ljósgrænt - gult. Skjólþurfi en þolir hálfskugga. Hentar í beð með öðrum sígrænum gróðri, raðir, ker í skjóli og þess háttar. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Lýsir upp framan við dimman bakgrunn. Hægvaxta.

Fagursýprus / Jólasýprus – Chamaecyparis lawsoniana ‘Ellwoodii’

Þétt, sígrænt, upprétt vaxandi smátré eða runni. Barrið fíngert og fjaðurkennt, blágrænt. Skuggþolinn en skjólþurfi. Hægvaxta. Þrífst aðeins í skjólgóðum hverfum og skógarskjóli ekki of langt frá ströndinni. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gjarnan seldur í blómabúðum fyrir jólin sem lítið "jólatré". Mikið notaður í ker og potta. Endist yfirleitt illa þannig nema í góðu skjóli. Passið að halda moldinni ávallt rakri. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Þolir vel klippingu en afskaplega hægvaxta. Verður með tímanum 2 - 3 m hérlendis á bestu stöðum.

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.

Fjallaþöll – Tsuga mertensiana – Íslensk kvæmi

Lágvaxið - meðalstórt tré hérlendis. Stundum aðeins runni. Gjarnan runnkennd framan af ævinni. Barrið dökk-blágrænt. Aðeins ljósara að neðan. Könglar meðalstórir, tunnulaga, rauðbrúnir - brúnir. Skuggþolin. Hægvaxta og talsvert hægvaxnari samanborið við marþöll (T. heterophylla). Þrífst vel á Hallormsstað og í Skorradal. Þroskar reglulega fræ þar. Ágætis eintök af fjallaþöll finnast á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fjallaþöll er falleg í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri. Einnig gróðursett undir skerm í skógi. Heimkynni fjallaþallar eru vesturströnd N-Ameríku allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Í sínum heimkynnum vex hún aðallega til fjalla á svölum, úrkomusömum stöðum. Vel aðlöguð snjóþyngslum.

Flatsópur – Cytisus decumbens

Sæmilega harðgerður, jarðlægur runni. Laufblöð smá. Greinar sígrænar. Blómin dökkgul. Blómgast miðsumars. Sólelskur. Hentar í steinhæðir, hleðslur og þess háttar. Jarðvegur þarf að vera vel framræstur og gjarnan blandaður sandi/möl. Þurrkþolinn. Niturbindandi. Ættaður úr fjalllendi S-Evrópu.

Garðaýr ‘Hatfieldii’ – Taxus x media ‘Hatfieldii’

Hægvaxta, þéttur, sígrænn runni. Barrið dökkgrænt og mjúkt. Vaxtarlagið upprétt, breiðkeilulaga. Hæð 2 - 3 m á löngum tíma. Skuggþolinn. Ef hann fær skjól er hann harðgerður. Þrífst í venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Þolir vel klippingu. Gjarnan notaður í limgerði erlendis en full hægvaxta í það hlutverk hérlendis. Garðaýr 'Hatfieldii' hentar í blönduð runnabeð, sem undirgróður undir trjám og í ker/potta í skjóli. Eitraður sé hans neytt.

Geislasópur – Cytisus purgans

Harðgerður, þéttur, lágvaxinn runni (50 - 80 sm). Vaxtarlagið hálfkúlulaga. Greinar sígrænar og þunnar. Lauf lítil og lítið áberandi. Blómstar skærgulum blómum í miklu magni í júní. Blómin dæmigerð ertublóm. Minni blómgun gjarnan að hausti. Blómin ilma sterkt og ekki kunna allir að meta það. Aldinið hærður belgur gjarnan með nokkrum fræjum. Sólelskur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur. Gerir litlar kröfur til jarðvegs en þrífst ekki í blautum jarðvegi. Harðgerðasti sópurinn hérlendis. Hentar í blönduð runnabeð, innan um grjót, í hlaðin beð og þess háttar. Millibil 80 - 90 sm. Heimkynni: Aðallega ofan skógarmarka í fjöllum á Íberíuskaganum. Ertublómaætt (Fabaceae).

Gullsópur ‘Roter Favorit’ – Cytisus scoparius ‘Roter Favorit’

Fremur lágvaxinn runni (1 - 1,5 m). Greinar sígrænar. Blómin rauð miðsumars. Frekar gisgreinóttur. Sól- og skjólþurfi. Kelur gjarnan. Klippið að vori eða snemma sumars kalnar greinar með klippum eða skærum. Talsvert viðkvæmari samanborið við geislasóp (Cytisus purgans).

Hélubroddur ‘Jytte’ – Berberis candidula ‘Jytte’

All harðgerður, þéttur, sígrænn, hægvaxta, lágvaxinn skrautrunni (50 - 100 sm). Greinar mikið þyrnóttar. Laufið oddbaugótt, dökkgrænt og gljándi á efra borði. Laufið er aftur á móti "hvíthélað" að neðan. Gjarnan ber á roða í laufinu yfir vetrarmánuðina. Blómin gul, smágerð, drjúpandi og ilmandi fyrri part sumars. Aldinið svarblátt ber. Þolir hálfskugga. Þarf þokkalegt skjól. Þrífst í fullri sól og hálfskugga. Þrífst í allri venjulegri garðmold. Hentar í blönduð beð með öðrum sígrænum gróðri og jafnvel í ker í góðu skjóli. Gæti hentað í lágvaxin limgerði í grónum görðum. Millibil um 80 sm en allt niður í 50 sm í limgerðum. Náttúruleg heimkynni hélubrodds eru í Kína. Mítursætt (Berberidaceae).

Himalajaeinir ‘Meyeri’ – Juniperus squamata ‘Meyeri’

Harðgerður, þéttur, lágvaxinn - meðalstór runni. Barrið er blágrænt - stálblátt. Ysta lag barkarins flagnar af með tímanum. Sólelskur er þolir hálfskugga. Þolir vel hóflega klippingu. Hentar í ker, stampa, blönduð beð en einnig fleiri saman í raðir og þyrpingar. Þrífst vel í allri venjulegri, vel framræstri garðmold. Vinsæll og algengur í íslenskum görðum.

Himalajaeinir / Keilubláeinir – Juniperus squamata ‘Blue Swede’

Fremur lágvaxinn, þéttur, sígrænn runni. Hæð um 50 - 70 sm en stundum hærri í góðu skjóli. Barrið ljósblá-grænt. Stundum aðeins brúnleitt á veturna. Sólelskur en þolir hálfskugga. 'Blue Swede' einirinn hentar í ker, blönduð beð með sígrænum gróðri, steinabeð, hleðslur, kanta og þess háttar.

Hjallalyngrós – Rhododendron hirsutum

Lágvaxinn (50 sm), sígrænn runni. Laufin fremur smá með áberandi hærðum jöðrum. Blómin bleik í krönsum fyrri part sumars. Vex ólíkt flestum lyngrósum í kalkríkum jarðvegi. Hjallalyngrós fer vel í hleðslum, steinhæðum og fremst í runna- og fjölæringabeðum.