Tindalyngrós ‘Colibri’ – Rhododendron yakushimanum ‘Colibri’
Lágvaxinn, sígrænn, þéttur, hægvaxta, hálfkúlulega runni. Hæð 50 - 100 sm. Blómin rauðbleik í knúpp en fagurbleik útsprungin. Blómgast í lok maí og fram í júní. Skjólþurfi. Þolir hálfskugga.
Gróðursetjið í mómold blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Vökvið vel eftir gróðursetningu og næstu daga á eftir. Skýlið alla vega fyrsta veturinn eftir gróðursetningu. Gott er að þekja lyngrósabeð með trjákurli. Berið á um eina teskeið af blönduðum garðáburði í kringum plöntuna í maí en ekki meira það árið.
Hentar framarlega í beði með öðrum lyngrósum, lyngi og öðrum sígrænum runnum. Tindalyngrósir (R. degronianum ssp. yakushimanum) eru almennt talið harðgerðari en flestar aðrar lyngrósir. Heimkynni þeirra eru á japönsku eyjunni Yakushima.
Tindalyngrós ‘Koichiro Wada’ – Rhododendron yakushimanum ‘Koichiro Wada’
Þéttur, hægvaxta, sígrænn, þéttur runni. Hæð og breidd um 60 - 70 sm. Blómin eru bleik í knúpp en hvít, bjöllulaga, mörg saman í júní. Laufið áberandi kúpt, heilrennt, öfuglensulaga, hvítloðið í fyrstu síðan dökkgræn. Laufblöð hvítloðin að neðan í fyrstu en síðan brúnloðin að neðanverðu.
Skjólþurfi. Þolir hálfskugga. Gróðursetjið í mómold, blandaðri gömlu hrossataði og furunálum. Varist að planta tindalyngrós of djúpt. Gott er að setja moltu yfir lyngrósabeðin árlega eða bera á tilbúinn blandaðan áburð sem nemur um einni sléttfullri matskeið á hverja plöntu í maí.
Hentar saman með öðrum lyngrósum, lyngi og sígrænum runnum á skjólsælum stað. Tegundin er ættuð frá japönsku eyjunni Yakushima. Þetta úrvalsyrki er kennt við japanskan garðyrkjumann, Koichiro Wada, sem sendi úrvalsefnivið af tindalyngrós til Rothchild frá Exbury í Cornwall, Englandi á fjórða áratug síðustu aldar. Rothchild var á þessum tíma frægasti lyngrósasérfræðingurinn.
Vetrartoppur – Lonicera pileata
Lágvaxinn (50 sm), sígrænn runni. Laufið smátt, gljándi og heilrennt. Blóm og aldin lítið áberandi. Vex meira og minna lágrétt. Skuggþolinn. Þrífst í venjulegri, framræstri garðmold á skjólsælum stöðum. Þekjandi. Skýlið fyrsta veturinn eftir gróðursetningu nema að skjólið sé þeim mun meira. Hentar framarlega í beð, sem undirgróður undir trjám og þess háttar. Millibil um 50 - 70 sm. Erlendis gjarnan gróðursettur í lágvaxin limgerði.
Vorlyng ‘Rosalie – Erica carnea ‘Rosalie’
All harðgerður, sígrænn dvergrunni. Laufblöð smá og nállaga. Græn - bronslit. Hæð: 15 sm. Blómin smá, klukkulaga, bleik snemma á vorin. Sólelskt.
Vorlyng gerir ekki sérstakar kröfur til þess að jarðvegur sé súr. Íslensk mómold hentar því vel. Blandið saman við moldina gömlum furunálum. Millibil 30 - 40 sm. Hentar framarlega í beð með sígrænum gróðri sem gerir svipaðar kröfur til jarðvegs eins og barrviðir og lyngrósir. Gjarnan fer vel á því að gróðursetja nokkur vorlyng saman í þyrpingar. Þarf vetrarskýli á skjóllausum svæðum. Þýskt yrki. Náttúruleg heimkynni vorlyngs eru í fjalllendi Suður-, Mið- og A-Evrópu.
Þráðsýprus / Ertusýprus ‘Filifera’ – Chamaecyparis pisifera ‘Filifera’
Sígrænn hægvaxta breiðkeilulaga runni eða smátré. Hæð 1,5 m hérlendis. Getur hugsanlega orðið hærri með tímanum í skjólgóðum görðum. Barrið hreisturkennt og gulgrænt á lit. Greinarendar slútandi, þráðmjóir. Þráðsýprus hentar í skjólgóða garða í sæmilega frjóum, rakaheldnum, framræstum jarðvegi. Þolir vel hálfskugga. Hefur reynst ágætlega í pottum í skjóli. Tegundin er ættuð frá Japan.