Showing all 8 results

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo – Rauðavatnsstöðin og víðar

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 70 - 80 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum.

Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’

Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.

Myrtuvíðir ‘Vala’ – Salix myrsinites ‘Vala’

Mjög harðgerður, þéttur, lágvaxinn (60 - 100 sm stundum hærri) runni. Laufið, smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Gullinbrúnt, visið laufið hangir á greinunum fram á vor. Reklar með vínrauðum frævum birtast á vorin. Sólelskur en annars nægjusamur. Vind- og saltþolinn. Myrtuvíðir hentar sérstaklega vel í þyrpingar, raðir, til klæða brekkur og þess háttar. Fer sérlega vel með loðvíði (S. lanata). Asparglitta sækir nokkuð í myrtuvíði. Asparglitta er síður vandamál á vindasömum stöðum. Vinsæll og útbreiddur hérlendis. Yrkið er kennt við Óla Val Hansson garðyrkjuráðanaut sem kom með umræddan myrtuvíði hingað til lands frá Noregi. Heimkynni: N-Evrópa.

Sitkaelri – A. viridis ssp. sinuata – Höfðaskógur og fleiri kvæmi

Harðgerður, stórvaxinn runni eða lítið tré (2 - 5 m). Laufið all stórt, gljáandi og bylgjað. Langir, hangandi karlreklar áberandi á vorin fyrir laufgun. Kvenreklarnir sitja nokkrir saman. Þeir minna á smágerða köngla og endast fram á vetur í greinunum. Henta til skreytinga. Sitkaelri lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur og getur þar af leiðandi vaxið vel í ófrjóum jarðvegi. Vindþolið og fremur saltþolið einnig. Plássfrekt. Þolir vel klippingu. Hentar stakstætt, í raðir og þyrpingar. Einnig til uppgræðslu á melum og söndum. Forðist að planta sitkaelri í lægðir í landslaginu þar sem hætt er við því að kalt loft safnist fyrir. Sáir sér út þar sem aðstæður leyfa.

Sitkagreni – Picea sitchensis

Mjög harðgert, stórvaxið sígrænt barrtré. Hraðvaxta. Vind- og saltþolið. Þolir vel klippingu. Þrífst best í brekkum þar sem er að finna ferskan jarðraka og jarðvegur er nokkur frjór. Könglar í fyrstu rauðleitir, seinna ljósbrúnir, pappírskenndir og meðalstórir. Forðist að planta í frostpolla. Sumt af því sem kallað er sitkagreni kann að vera sitkabastarður / hvítsitkagreni (Picea x lutzii). Sitkagreni / sitkabastarður er lang algengasta grenið hérlendis. Sitkagreni er glæsilegt stakstætt, fer vel í röðum og þyrpingum. Einnig kjörið í skjólbelti og jafnvel klippt limgerði. Þó eru ekki öll sveitarfélög sem leyfa gróðursetningu sitkagrenis á lóðarmörkum (sjá byggingareglugerð) enda verður sitkagreni mjög stórvaxið með tímanum.  Eitt mest notaða tré í skógrækt hérlendis enda harðgert og gott timburtré. Lang besta sígræna tréið til ræktunar við sjávarsíðuna eins og t.d. á Reykjanesi. Sitkagreni gerir kröfur um frjósemi jarðvegs svo setjið vel af moltu eða búfjáráburði við gróðursetningu. Þegar skógarplöntur eru gróðursettar skal setja nokkur korn af tilbúnum áburði með. Hæstu tré hérlendis eru sitkagreni á Kirkjubæjarklaustri, rúmir 25 m (2019). Við framleiðum eingöngu sitkagreni af íslensku fræi.

Sitkavíðir / „Ólavíðir“ – Salix sitchensis

Harðgerður stórvaxinn runni/lágvaxið tré. Laufin breiðust framan við miðju. Silfurhærð á neðra borði. Brum útstæð. Vindþolinn. Sólelskur. Minnir á viðju (Salix myrsinifolia) í útliti en heilbrigðari og almennt laus við asparglittu. Sitkavíðir hentar í limgerði og skjólbelti 2 - 3 plöntur/m. Erum með yrkið 'Óli' sem almennt gengur undir nafninu "Ólavíðir". Yrkið er kennt við Óla Val Hansson (1922 - 2015) garðyrkjuráðanaut.

Stafafura / Strandfura – Pinus contorta – Hafnarfjörður (Skagway)

Mjög harðgert, meðalstórt, sígrænt tré (7 - 15 m). Lægra á vindasömum stöðum. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Sólelsk. Nálarnar fagurgrænar, 2 - 3 saman í knippi. Þroskar meðalstóra, kanelbrúna köngla strax á unga aldri. Algengasta furan hérlendis. Vinsælasta íslenska jólatréið. Þrífst víðast hvar á landinu. Hraðvaxnasta furan. Sáir sér gjarnan út þar sem aðstæður henta. Stafafura hentar stakstæð en einnig í raðir, þyrpingar og til skógræktar sérstaklega í rýru landi. Millibil ekki minna en 2 m. Tré sem hafa rými verða gjarnan mjög greinamikil og breið. Skýlið alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög berangurslegum stöðum. Barr roðnar gjarnan mikið eftir mikla saltákomu af hafi.

Strandavíðir / Gulvíðir – Salix phylicifolia ‘Strandir’ (Tröllatunga)

Mjög harðgerður, íslenskur, meðalhár runni (1,5 - 2,0 m). Laufið smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Sólelskur. Strandavíðir er mikið notaður í limgerði og skjólbelti. Venjulega eru gróðursett 3 stk/m í limgerði. Strandavíðir er þokkalega heilbrigður þó að stundum séu fiðrildalirfur fyrri part sumars til vandræða. Strandavíðir er í raun klón af gulvíði (S. phylicifolia) ættað frá Selárdal á Ströndum. Strandavíðir var gróðursettur á sínum tíma í garðinum að Tröllatungu við Steingrímsfjörð. Þaðan dreifðist svo strandavíðirinn áfram um landið. Strandavíðir er karlkyns og því er óþrifnaður af völdum fræullar ekki vandamál samanborið við t.d. brekkuvíði (S. phylicifolia 'Brekka'). Seldur berróta, 10 stk. í búnti og stakar plöntur í pottum. Fæst einnig í fjölpotta-bökkum.