Alaskaösp – Populus trichocarpa ‘Keisari’, ‘Iðunn’, ‘Sæland’ og fleiri yrki
Hraðvaxta, harðgert, hávaxið, sumargrænt tré. Gulir haustlitir. Brum og brumhlífar klístruð. Balsamilmur áberandi á vorin og í röku veðri. Blómgast í apríl/maí. Blómskipunin rekill. Sérbýl. Kvenkyns tré dreifa miklu magni af fræi sem líkist dún upp úr miðju sumri. Króna mis umfangsmikil milli yrkja og því mis plássfrek. Rætur liggja almennt grunnt. Ljóselsk. 'Keisari' reynist best allra yrkja næst sjávarsíðunni. Gróðursett stakstæð, í raðir og þyrpingar. Fín í skjólbelti kringum landbúnaðarsvæði o.þ.h. Bil milli trjáa fer eftir því um hvaða yrki er um að ræða en getur spannað frá 2 - 6 m.
Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki
Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Sérbýll. Blómgast í apríl. Blómskipunin rekill. Humlur og býflugur sækja í reklana á vorin. Laufblöð áberandi hvítloðin að neðanverðu. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglittu og ryð. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa.
Alpareynir – Sorbus mougeotii
Harðgert, fremur lágvaxið tré eða hávaxinn runni (5 - 8 m). Laufið grænt og gljáandi að ofan en silfurhvít-hært að neðanverðu. Rauðir berjaklasar þroskast að hausti. Gulir haustlitir. Alpareynir sómir sér stakstæður eða í þyrpingum og röðum. Millibil ekki minna en 2 m. Einnig má nota alpareyni í klippt limgerði og planta með um 50 - 60 sm millibili. Hentar jafnvel í stór ker (sjá mynd). Fremur vind- og saltþolinn. Þolir hálfskugga. Líkist mjög doppureyni/týrólareyni (Sorbus austriaca) og silfurreyni (Sorbus intermedia)
Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens
Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum.
Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo – Rauðavatnsstöðin og víðar
Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 70 - 80 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum.
Gráelri – Alnus incana – Hallormsstaður
Harðgert, hraðvaxta, venjulega einstofna tré. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift
Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’
Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Laufið heilrennt og gljándi að ofan. Sprotar hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Sérbýll. Sólelskur. Fallegir karlreklar skreyta 'Gáska' á vorin. 'Gáski' hentar því einstaklega vel afskorinn í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi. 2-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri. 'Katla' er grófust og mest upprétt. 'Taða' er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. 'Töðu' þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu.
Kjarrelri / Alpagrænelri – Alnus viridis – Hamarinn, Hveragerði
Harðgerður, stór- og breiðvaxinn runni. Lágvaxnari í skriðum og áveðurs. Hæð 1 - 3 m. Niturbindandi. Ljóselskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs. Forðist frostpolla. Hentar í raðir, þyrpingar, blönduð runnabeð og til uppgræðslu. Millibil 1,5 m. Drjúpandi karlreklar birtast á vorin (apríl-maí). Kvenreklar minna á litla köngla. Sitja á greinunum allan veturinn. Blöð minni og sléttari samanborið við blöð sitkaelris. Haustlitir lítið áberandi.
Koparreynir – Sorbus frutescens
Harðgerður meðalhár - hávaxinn runni (2 - 3 m). Blöðin dökkgræn, mött, fínleg, stakfjöðruð. Rauðir haustlitir. Hvítir blómsveipir snemmsumars. Hvít - fölbleik ber í stórum klösum þroskast á haustin. Mikið af berjum þroskast á hverju hausti einnig þó sumarið sé slakt!. Greinar útsveigðar og dálítið drjúpandi. Brum nær svört. Koparreynir er glæsilegur stakstæður. Einnig fallegur í röðum og þyrpingum með 1 - 1,5 m millibili. Koparreyni má einnig gróðursetja í limgerði sem eru ýmist klippt eða meira og minna óklippt. Hæfilegt millibil er 50 - 60 sm í limgerði. Koparreynir er fallegastar í fullri sól en þolir vel hálfskugga. Klippið á sumrin en ekki að hausti eða vetri til að forðast reyniátu (Cytospora rubescens). Koparreynir er vinsæll og algengur í íslenskum görðum.
Lækjarvíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’
Harðgerður, hávaxinn runni. Laufið lensulaga, fínlegt og gljándi. Haustlitur gulur. Sprotar dökkrauðbrúnir og gljáandi. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu. Lækjavíðir 'Blika' hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 'Blika' er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985.
Lensuvíðir ‘Ljómi’ – Salix lasiandra ‘Ljómi’
All harðgerður stórvaxinn runni eða lítið tré (3 - 5 m). Laufið áberandi glansandi. Gulir haustlitir. Reklarnir eru ekki sérstaklega áberandi. Minnir í útliti nokkuð á bambus. Sólelskur. Hentar stakstæður, í raðir, þyrpingar, í bland með öðrum gróðri og í klippt limgerði. Fremur hraðvaxta. Karlkyns yrki valið úr efnivið úr Alaska-leiðangi Óla Vals Hanssonar og félaga árið 1985.
Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’
Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.