Showing 1–12 of 18 results

Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki

Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars.  Humlur sækja í reklana á vorin. Laufblöð áberandi hvítloðin að neðanverðu. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglittu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada.

Bergfura – Pinus uncinata

Mjög harðgert, sígrænt tré. Hæð fullvaxta trjáa mjög misjöfn enda trúlega oft blönduð fjallafuru (Pinus mugo) sem er runni en ekki tré. Nálar fremur langar, dökkgrænar - blágrænar, tvær saman í búnti. Nálar bergfuru eru lengri og dekkri samanborið við nálar stafafuru (Pinus contorta). Brum bergfuru er þykkt og ljóst enda þakið harpixi. Brum stafafuru er rauðbrúnt og mjórra og ekki þakið harpixi. Bergfura er nægjusöm en ljóselsk. Getur farið mjög illa af völdum brum- og greinaþurrkssvepps (Gremmeniella abietina). Til að koma í veg fyrir að sveppurinn nái sér á strik er mikilvægt að bergfura standi aldrei þétt heldur að það lofti vel um hana frá öllum hliðum. Bergfura er mest gróðursett stakstæð í görðum. Einnig gróðursett í rýrt mólendi, skriður og þess háttar. Með allra harðgerðustu trjám sem völ er á. Fremur hægvaxta.

Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens

Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum.

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 70 - 80 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni, Rvk, Gráhelluhrauni, Hfj og víðar.

Gulvíðir – Salix phylicifolia

Harðgerður íslenskur runni. Hæð er mjög breytileg en finnst sums staðar upp í 5 m hæð eða meir. Algeng hæð er 1-2 m. Myndar gjarnan hálfkúlulaga/hvelfda runna þar sem hann vex villtur og ekki er beit. Sprotar rauðbrúnir eða gulgrænir. Greinar gráar. Laufið lensulaga eða oddbaugótt og gljáandi. Gulir haustlitir. Meira og minna hárlaus. Gulvíðir vex villtur um land allt upp í 550 - 600 m.h.y.s. Gulvíðir hentar í limgerði og þyrpingar. Getur vaxið í deiglendi og þar sem vatn liggur yfir hluta úr ári. Gulvíðir hefur sums staðar farið illa af völdum asparglittu. Annars heilbrigður. Hæfilegt millibil í limgerðum er 30 - 50 sm. Annars allt að 1 m. Við í Þöll framleiðum gjarnan gulvíði af fallegum einstaklingum sem við finnum í náttúrunni. Sjá einnig strandavíði sem er karlkyns yrki af gulvíði.

Hengibjörk / Vörtubirki – Betula pendula

All stórvaxið, sumargrænt tré. Smágreinar yfirleitt meira og minna slútandi. Börkur á eldri trjám áberandi hvítur með svörtum skellum við greinafestingar. Sólelsk. Þrífst best í sæmilega frjóum, vel framræstum, steinefna-ríkum jarðvegi. Hengibjörk hefur talsvert mikið verið reynd hérlendis enda með fegurstu trjám sem völ er á. Þrífst almennt illa. Kelur yfirleitt mikið og drepst að því er virðist upp úr þurru. Aftur á móti þrífst hengibjörk víða vel inn til landsins sérstaklega austur á Héraði og inn í Eyjafirði. Eigum til eitthvað af hengibjörk af finnskum uppruna.

Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’

Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Laufið heilrennt og gljándi að ofan. Sprotar hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Sérbýll. Sólelskur. Fallegir karlreklar skreyta 'Gáska' á vorin. 'Gáski' hentar því einstaklega vel afskorinn í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi. 2-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri. 'Katla' er grófust og mest upprétt. 'Taða' er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. 'Töðu' þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu.

Lækjarvíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’

Harðgerður, hávaxinn runni. Laufið lensulaga, fínlegt og gljándi. Haustlitur gulur. Sprotar dökkrauðbrúnir og gljáandi. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu. Lækjavíðir 'Blika' hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 2 - 3 stk/m henta í limgerði. Meira bil þarf að gefa þegar lækjarvíðir er gróðursettur í þyrpingar eða stakur eða um 1,5 m. 'Blika' er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985.

Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’

Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.

Myrtuvíðir ‘Vala’ – Salix myrsinites ‘Vala’

Mjög harðgerður, þéttur, lágvaxinn (60 - 100 sm stundum hærri) runni. Laufið, smágert, dökkgrænt og gljáandi. Gulir haustlitir. Gullinbrúnt, visið laufið hangir á greinunum fram á vor. Reklar með vínrauðum frævum birtast á vorin. Sólelskur en annars nægjusamur. Vind- og saltþolinn. Myrtuvíðir hentar sérstaklega vel í þyrpingar, raðir, til klæða brekkur og þess háttar. Fer sérlega vel með loðvíði (S. lanata). Asparglitta sækir nokkuð í myrtuvíði. Asparglitta er síður vandamál á vindasömum stöðum. Vinsæll og útbreiddur hérlendis. Yrkið er kennt við Óla Val Hansson garðyrkjuráðanaut sem kom með umræddan myrtuvíði hingað til lands frá Noregi. Heimkynni: N-Evrópa.

Rauðgreni – Picea abies – íslensk kvæmi

Sígrænt, hávaxið tré. Krónan frekar mjóslegin samanborið við sitkagreni (P. sitchensis). Frekar hægvaxta og nálar ekki eins stingandi og á sitkagreni. Nálar fagurgrænar - gulgrænar. Skuggþolið. Þarf nokkuð gott skjól. Könglar all stórir. Rauðir í fyrstu. Sjást yfirleitt ekki fyrr en tré hafa náð nokkurra áratuga aldri. Prýðis jólatré. Rauðgreni sómir sér vel stakstætt en einnig í þyrpingum fleiri saman. Bil þarf að lágmarki að vera 3 m. Ekki algengt í görðum en víða í eldri skógræktar-reitum um land allt.

Reynir – Sorbus – fræplöntur af ‘Joseph Rock’

All harðgert lítið - meðalstórt tré. Lauf stakfjöðruð. Rauðir haustlitir í október. Hvítir blómsveipir í júní. Gul - rauðgul ber í klösum á haustin. Þolir hálfskugga. Reynir sómir sér vel stakstæður. Í röðum og þyrpingum hafið þá að minnsta kosti 2 m á milli plantna. Þar sem reynir 'Joseph Rock' er ekki fræekta er nokkur breytileiki á milli einstaklinga.