Showing 1–12 of 22 results

Alaskavíðir – Salix alaxensis – ‘Gústa’, ‘Oddur Guli’, ‘Töggur’ o.fl. yrki

Mjög harðgerður, vind- og saltþolinn, hraðvaxta, hávaxinn runni/lágvaxið tré (3-7 m). Greinar í fyrstu uppréttar en síðar útvaxnar og jafnvel drjúpandi. Það er þó talsvert mismunandi eftir yrkjum. Laufblöð sporbaugótt - öfugegglaga með hvítu lóhærðu neðra borði, allt að 11 sm löng. Sérbýll. Blómgast í apríl en silfurgráir reklar birtast gjarnan í mars.  Humlur sækja í reklana á vorin. 'Gústa' sem einnig gengur undir nafninu "tröllavíðir" og "brúnn alaskavíðir" hefur dökkbrúna sprota, hvíthærða í endana. 'Oddur Guli' hefur gulgræna sprota og 'Töggur' skærgræna. Greinar 'Sunnu' eru óvenju mikið slútandi. 'Máni' hefur brúna til græna sprota sem eru ekki mikið hærðir í endana. 'Hríma' hefur þykka, hvíthærða sprota alla leið. Alaskavíðir er aðallega gróðursettur í skjólbelti og limgerði. Gróðursettar eru 2-3 plöntur/m. Þarf frjóan, steinefnaríkan og rakaheldinn jarðveg til að þrífast. Sólelskur. Klippið reglulega til að halda í góðu formi. Gulir haustlitir í október. Laus við asparglyttu og ryð. Gamall (25 - 30 ára) óklipptur alaskavíðir fellur gjarnan um koll en stofnskot vaxa jafn harðan upp aftur. Sáir sér út í raskað land þar sem aðstæður leyfa. Heimkynni: Alaska og NV-Kanada. Víðisætt (Salicaceae).

Birki / Ilmbjörk – Betula pubescens

Harðgert íslenskt tré. Hæð breytileg. Sólelskt. Í meðallagi hraðvaxið. Þrífst best í frjóum jarðvegi en annars nægjusamt. Getur lifað í all blautum jarðvegi. Lauf ilmar, sérstaklega á vorin í röku veðri. Haustlitur á ekta ilmbjörk er gulur. Eina trjátegundin sem myndað hefur skóga hérlendis frá því að síðustu ísöld lauk fyrir um 10.000 árum. Myndar gjarnan blendinga með fjalldrapa (B. nana). Blendingurinn kallast skógviðarbróðir og er misstór runni en ekki tré og mjög algengur í íslenskri náttúru, sérstaklega vestanlands. Skógviðarbróðir hefur yfirleitt dökkan / svartan börk, smágert lauf og rauðgulan haustlit. Birki hentar sem stakstætt tré eða fleiri saman í þyrpingum og röðum með að minnsta kosti 2,5 m millibili. Einnig notað til skógræktar og uppgræðslu. Vex þó hægt í ófrjóu landi. Birki hentar einnig í klippt limgerði á sólríkum stöðum. Upp á síðkastið hafa nýjar tegundir skordýra sem herja á birki numið land. Birkið okkar í Þöll er af Bæjarstaða-uppruna. Móðurtréin eru af yrkinu 'Embla'. Því fá tréin venjulega ljósan börk með aldrinum. Náttúruleg heimkynni imbjarkar eru auk Íslands mestur hluti Evrópu nema syðst, Norður og Mið-Asía og S-Grænland.

Fjallafura / Dvergfura – Pinus mugo

Mjög harðgerður, lágvaxinn - meðalhár, sígrænn runni. Nálar dökkgrænar, 2 saman í búnti. Karlblóm ljósrauð, mörg saman neðst á árssprotum. Síðar rauðbrún. Könglar fremur smáir. Getur orðið talsvert breið. Til að halda fjallafuru þéttri borgar sig að brjóta til hálfs framan af brumun á greinaendum í kringum jónsmessuleytið. Fjallafura gerir litlar kröfur til jarðvegs. Fjallafura er sólelsk og hentar ekki sem undirgróður undir trjám. Fjallafura fer vel í blönduð beð með öðrum gróðri, nokkrar saman í þyrpingu með um 80 - 90 sm millibili. Einnig í stórgerðar hleðslur, ker og á opin svæði. Skýlið fjallafura alla vega fyrsta veturinn ef gróðursett er á mjög opnum og skjóllausum stöðum eins og í kringum háar byggingar o.þ.h. Smávaxin/fínleg fjallafura er gjarnan kölluð "dvergfura". Í raun er um stömu tegund að ræða. Fjallafura/dvergfura er mjög vinsæl og útbreidd í görðum og útivistarskógum. Fjallafuran okkar í Þöll er öll vaxin upp af fræi sem safnað hefur verið hérlendis eins og t.d. í Rauðvatnsstöðinni í Rvk, Gráhelluhrauni í Hfj og víðar. Heimkynni: Fjalllendi Mið- og SA-Evrópu. Myndar blendinga með bergfuru (P. uncinata) þar sem útbreiðslusvæði tegundanna skarast í vestanverðum Ölpunum.

Gljávíðir – Salix pentandra

Harðgerður runni eða tré. Hæð 3 - 7 m. Laufblöð sporöskjulaga, gljáandi, fíntennt, ljósgræn, 5 - 12 sm á lengd og 2 - 5 sm á breidd. Laufgast í júníbyrjun. Gulir haustlitir eða frýs grænn. Reklar myndast samhliða laufgun. Sérbýll. Við framleiðum og seljum nú yrki sem er kvk og myndar rekla og þroskar fræ með áberandi hvítri fræull á haustin sem er óvanalegt fyrir víði þar sem aðrar víðitegundir hérlendis þroska fræ fyrir eða um mitt sumar (júní - júlí). Þetta yrki virðist laust við gljávíðiryð sem hefur leikið gljávíði illa síðastliðna þrjá áratugi en fram að því var gljávíðir 'Schierbeck' með allra vinsælustu runnum í limgerði hér á landi. Eftir að gljávíðiryðið breiddist út var framleiðslu á gljávíði hætt og flestum gljávíðilimgerðum skipt út fyrir eitthvað annað. Gljávíðir er eins og annar víðir sólelskur og þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Í limgerði mælum við með 3 stk/m. Hentar einnig í þyrpingar með 1 - 1,5 m millibili. Gljávíðir hentar ekki á mjög vindasömum stöðum t.d. úti við ströndina. Þar henta jörfa- og alaskavíðir betur. Það var Jóhann Pálsson grasafræðingur og fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með gljávíði þennan til landsins. Heimkynni gljávíðis eru N-Evrópa ekki þó Ísland og N-Asía. Í heimkynnum sínum vex gljávíðir aðallega í deigum og jafnvel blautum jarðvegi. Víðisætt (Salicaceae).

Gráelri / Gráölur – Alnus incana

Harðgert, hraðvaxta, sumargrænt, venjulega einstofna tré. Hæð 7 - 15 m. Getur sjálfsagt orðið enn hærra á góðum stöðum hérlendis. Stundum runni við erfiðar aðstæður. Börkur grár og sléttur. Brum stilkuð. Laufið egglaga, mattgrænt og tennt. Nýtt lauf á vorin og fyrri part sumars gjarnan rauðbrúnleitt. Haustlitir ekki áberandi en laufið verður gjarnan brúnleitt áður en það fellur. Lifir í sambýli við niturbindandi bakteríur sem gera elrinu kleift að lifa og vaxa í ófrjóum jarðvegi. Þolir að vaxa í deiglendi. Sólelskt. Vindþolið en ekki talið sérlega saltþolið. Karlreklar birtast strax á haustin og vaxa fram síðvetrar eða snemma vors. Drjúpandi, 5 - 7 sm, gulbrúnir. Kvenreklar eru fullþroska að hausti. Líkjast litlum könglum. Dökkbrúnir. Stundum ber talsvert á rótarskotum hjá gráelri. Hentar stakstætt, í raðir, þyrpingar og til skógræktar og uppgræðslu. Einnig stundum gróðursett sem götutré hérlendis. Millibil að minnsta kosti 3 m. Gráelrið okkar er mest megnis ættað frá Hallormsstað og Egilsstöðum. Heimkynni gráelris (A. incana subsp. incana) er Evrópa og NV-Asía. Elrivendill (Taphrina alni) er gjarnan áberandi á kvenreklum gráelris. Bjarkarætt (Betulaceae).

Gulvíðir – Salix phylicifolia

Harðgerður íslenskur runni. Hæð er mjög breytileg en finnst sums staðar allt að 5 m hár eða meir. Algeng hæð er 1-2 m. Myndar gjarnan hálfkúlulaga/hvelfda runna þar sem hann vex villtur og ekki er beit. Sprotar rauðbrúnir eða gulgrænir. Greinar gráar. Laufið lensulaga eða oddbaugótt og gljáandi. Gulir haustlitir. Meira og minna hárlaus. Gulvíðir vex villtur um land allt upp í 550 - 600 m.h.y.s. Gulvíðir hentar í limgerði og þyrpingar. Getur vaxið í deiglendi og þar sem vatn liggur yfir hluta úr ári. Gulvíðir hefur sums staðar farið illa af völdum asparglittu. Annars heilbrigður. Hæfilegt millibil í limgerðum er 30 - 50 sm. Annars allt að 1 m. Við í Þöll framleiðum gjarnan gulvíði af fallegum einstaklingum sem við finnum í náttúrunni. Sjá einnig strandavíði sem er karlkyns yrki af gulvíði. Náttúruleg heimkynni gulvíðis auk Íslands eru N-Evrópa og V-Síbería.

Jörfavíðir – Salix hookeriana ‘Katla’, ‘Gáski’, ‘Taða’ og ‘Sandi’

Mjög harðgerður, hávaxinn runni eða lágvaxið tré. Hæð: 2,5 - 4,5 m. Laufið heilrennt, yfirleitt sporöskjulaga og gljándi að ofan. Í fyrstu er laufið áberandi hært en síðan nær hárlaust. Sprotar ljósbrún-hærðir. Blómgast fyrir laufgun í apríl. Gulir haustlitir. Frýs stundum grænn. Sérbýll. Sólelskur. Jörfavíðir er almennt heilbrigður og laus við asparglyttu og ryð. Fallegir karlreklar skreyta 'Gáska' og 'Sanda' á vorin. Þeir henta því vel afskornir í vorskreytingar. Jörfavíðir er sérlega hentugur í limgerði og skjólbelti á vindasömum stöðum og þar sem gætir saltákomu af hafi og vegum. 1-3 plöntur eru gróðursettar á hvern m. Jörfavíðir hentar almennt best í lágsveitum. Getur orðið fyrir haustkali inn til landsins. Klippið jörfavíði-limgerði/skjólbelti seinni part vetrar til að halda þeim í formi. Einnig getur þurft að klippa að sumri. 'Katla' er grófust og mest upprétt. 'Taða' er eins og nafnið gefur til kynna hálfkúlulaga hvað vaxtarlag varðar. 'Töðu' þarf ekki að klippa þar sem pláss er nægt til að halda henni þéttri niður við jörðu. Jörfavíðir þrífst best í sæmilega frjósömum og rakaheldnum jarðvegi. Má vera sendinn og malarborinn. Annars nægjusamur. Jörfavíðir er kenndur við breska grasafræðinginn Sir William Jackson Hooker (1785 - 1865). Heimkynni: Strandhéröð á vesturströnd N-Ameríku. Allt frá Alaska í norðri suður til Kaliforníu. Íslensku yrkin eru öll ættuð frá Alaska. Víðisætt (Salicaceae).

Kjarrelri / Alpagrænelri – Alnus viridis subsp. viridis

Harðgerður, stór- og breiðvaxinn runni. Lágvaxnari í skriðum og áveðurs. Hæð 1 - 4 m. Álíka á breidd. Niturbindandi. Ljóselskt. Gerir litlar kröfur til jarðvegs enda dæmigerður frumherji. Forðist frostpolla. Hentar í raðir, þyrpingar, blönduð runnabeð og til uppgræðslu. Millibil 1,5 - 2 m. Hentar í skjólbelti og lítið klippt limgerði. Drjúpandi karlreklar birtast á vorin (maí). Kvenreklar minna á litla köngla. Kvenreklarnir sitja á greinunum allan veturinn. Blöð minni, kringlóttari og sléttari samanborið við blöð sitkaelris (A. sinuata). Einnig þéttvaxnara og með smágerðari rekla samanborið við sitkaelri. Grænt fram á haust og haustlitir lítið áberandi. Gerir engar sérstakar kröfur til jarðvegs. Kjarrelrið okkar er allt vaxið upp af íslensku fræi. Fræmæðurnar eru ættaðar frá Graubünden í Sviss. Heimkynni þessarar undirtegundar eru fjalllendi M-Evrópu ofan eiginlegra skógarmarka.

Koparreynir – Sorbus frutescens

Harðgerður meðalhár - hávaxinn runni (2 - 3 m). Brum nær svört. Greinar útsveigðar með tímanum og dálítið drjúpandi. Blöðin dökkgræn, mött, fínleg, stakfjöðruð og allt að 18 sm löng. Smáblaðapör venjulega 11 - 12 talsins. Smáblöð 15 - 24 mm löng alla jafna, tennt, egglaga - lensulaga. Rauðir haustlitir í september. Smáir, hvítir blómsveipir snemmsumars. Hvít - fölbleik ber í stórum klösum þroskast á haustin. Mikið af berjum þroskast á hverju hausti einnig þó sumarið sé slakt!. Koparreynir er "apomictic" smátegund og er því einsleitur upp af fræi. Koparreynir þrífst í allri venjulegri garðmold sem ekki er of blaut. Koparreynir er glæsilegur stakstæður. Einnig fallegur í röðum og þyrpingum með 1 - 1,5 m millibili. Koparreyni má einnig gróðursetja í limgerði sem eru ýmist klippt eða meira og minna óklippt. Hæfilegt millibil er 50 - 60 sm í limgerði. Koparreynir er fallegastar í fullri sól en þolir vel hálfskugga. Klippið á sumrin en ekki að hausti eða vetri til að forðast reyniátu (Cytospora rubescens). Koparreynir er vinsæll og algengur í íslenskum görðum. Heimkynni: Kína. Líklega frá NV-Gansu. Rósaætt (Rosaceae).

Lækjarvíðir ‘Blika’ – Salix arbusculoides ‘Blika’

Harðgerður, fremur hraðvaxta, hávaxinn runni eða margstofna tré. Hæð 3 - 6 m. Laufið lensulaga, fínlegt og gljándi. Haustlitur gulur. Sprotar grannir, dökkrauðbrúnir og gljáandi. Sólelskur. Þolir vel klippingu. Laus við asparglyttu og ryð. Þrífst best í sæmilega frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Lækjavíðir 'Blika' hentar vel í klippt limgerði. Einnig fer hann vel í þyrpingar og við læki og tjarnir. 2 - 3 stk/m henta í limgerði. Meira bil þarf að gefa þegar lækjarvíðir er gróðursettur í þyrpingar eða stakur eða um 1,5 m. Lækjarvíðir 'Blika' hentar ekki á mjög vindasama staði t.d. úti við ströndina. Þá henta jörfavíðir og alaskavíðir betur. 'Blika' er úrvalsyrki valin úr efniviði úr Alaskaferð Óla Vals og félaga árið 1985. Heimkynni lækjarvíðis eru Alaska og Kanada. Vex þar aðallega inn til landsins meðfram ám og lækjum. Víðisætt (Salicaceae).

Loðvíðir ‘Laugabrekka’ – Salix lanata ‘Laugabrekka’

Mjög harðgerður, íslenskur runni. Upprétt yrki. Hæð: 1 - 2 m. Laufið grágrænt og loðið. Kvenkyns yrki. Sólelskur. Loðvíðir 'Laugabrekka' laufgast ekki fyrr en um miðjan júní. En fyrir vikið sækja pöddur ekki í þetta yrki ólíkt öðrum loðvíði. Þrífst í alls konar jarðvegi. Vind- og saltþolinn. Hefur lengi verið framleiddur í Þöll og reynst vel. Hentar í raðir, þyrpingar, lágvaxin limgerði, brekkur, opin svæði og sumarhúsalóðir. Millibil 50 - 80 sm. Einnig nefndur grávíðir.

Möndluvíðir – Salix triandra

All harðgerður runni. Hæð 2 - 4 m. Lauf 5 - 10 sm á lengd, lensulaga, hárlaus, sagtennt, græn að ofan, ljósgræn að neðan. Axlarblöð áberandi, langæ. Sprotar nánast hárlausir og fremur grannir. Greinar gjarnan samofnar og hlykkjóttar. Henta til skreytinga. Blómgast um það leyti sem hann laufgast seinni part maí eða í byrjun júní. Sólelskur. Möndluvíðir hentar í raðir, þyrpingar og blönduð runnabeð. Millibil um 1 - 1,5 m. Vex best í frjóum, rakaheldnum jarðvegi. Þolir jafnvel blautan jarðveg. Sjaldgæfur hérlendis. Erum gjarnan með kk og kvk yrki. Kk yrkið er ættað frá Haparanda, Svíþjóð sem stendur við Helsingjabotn. Það var Jóhann Pálsson fyrrverandi garðyrkjustjóri Rvk sem kom með græðlinga af því yrki til landsins á sínum tíma. Möndluvíðirinn okkar gæti verið af undirtegundinni S. triandra var. hoffmanniana en sú undirtegund er lágvaxnari, með áberandi samofnar greinar og með laufum sem eru ekki blá- eða gráleit á neðra borði samanborið við dæmigerðan möndluvíði sem er almennt hávaxnari og með beina sprota sem mikið eru notaðir til körfugerðar erlendis. Heimkynni: Evrópa, vestur og M-Asía.